Hugleiðslunámskeið

Hugleidsla, mynd

Við erum ekki verkfæri hugans, hann var gefin okkur sem verkfæri.

Komdu með þunna dýnu, púða og teppi og vertu með í róandi umhverfi.  Þú lærir um:

  • Mikilvægi öndunar
  • Möntrur og hvað þær gera gott fyrir þig
  • Hugleiðslu og hvernig hún getur hjálpað þér að ná stjórn á huga þínum og tilfinningum þegar streita og vanlíðan gera vart við sig.

Að námskeiði loknu getur þú notað hugleiðslu og möntrur til að bæta líðan þína hvar og hvenær sem er.

Sigrún Rafnsdóttir er Kundalini yoga kennari og Anna Rafnsdóttir er áhugamaður um hugleiðslu og hvernig hún getur hjálpað okkur í daglegu lífi.  Saman halda þær þetta hugleiðslunámskeið.

Námsskeiðið er haldið í Grunnskóla Grundarfjarðar og verður dagana 12., 14., 19. og 21. apríl frá kl 20-21:30   Námsskeiðið kostar 8000 kr.

Skráning stendur yfir til 8. apríl á netfangið annarafns@gmail.com eða í síma 861 4443. Hámarksfjöldi er 15. manns

Hlökkum til að sjá þig

Sigrún og Anna

 

 

Hvað lærði ég um gerð námskeiðslýsinga?

 

Námskeiðslýsing á að vera grípandi, stutt, hnitmiðuð og innihalda helstu upplýsingar sem þurfa að koma fram, hvernig námskeið er þetta, hvað verið er að kenna, hvað græðir mögulegur þátttakandi á því að koma á námskeiðið, hver kennir og svo klassískar upplýsingar eins og dagsetning, tímasetning, staðsetning og kostnaður.  Áherslan á að vera á innihald námskeiðsins og mögulegan þátttakanda og lýsingin á að vera skrifuð þannig að hún tali til lesandans.  Að lesandi fái það á tilfinninguna að þessi auglýsing hafi verið saminn sérstaklega fyrir hann.  Námskeiðslýsing á ekki að fjalla um námskeiðið sjálft eða kennarann.  Titillinn á einnig að vera grípandi og stuttur, góð leið til að fanga athygli, fá mögulegan þátttakanda til að stoppa og lesa.  Ávinningur af námskeiði er mikilvægur, hvað græðir einstaklingur á að mæta á námskeið, öðlast hann nýja þekkingu eða hæfni, leysir námskeiðið vandamál?  Ávinningur þar að vera skýr því að enginn vill fara á námskeið sem ekkert gagn er af.  Við förum jú á námskeið til að öðlast þekkingu eða færni.

Það getur verið flókið að skrifa námskeiðslýsingu.  Að koma öllum upplýsingum fyrir á einum stað, þannig að þær fangi athygli og komi öllum nauðsynlegum upplýsingum áleiðis.  Það er mælt með því að námskeiðslýsing sé í 2. persónu og að forðast eigi að nota orðin nemendur eða þátttakendur.  Einnig er mælt með því að nota húmorinn til að fagna athygli lesanda.  Þær heimildir sem ég skoðaði sögðu að námskeiðslýsing ætti að vera frá 30 – 120 orð. Það fór aðeins eftir heimildum en þetta var lokaniðurstaðan mín í fjölda orða, þó svo að námskeiðslýsingin við hugleiðslunámskeiðið sé örlítið lengri en 120 orð.  Í einni heimild var talað um 75 orð og í annarri 45-120 orð.  Það er ekki auðvelt að skrifa námskeiðslýsingu sem hefur allar upplýsingar en er einungis 120 orð.  Það er  þó mín skoðun að hægt er að fyrirgefa lengd eða fjölda orða ef lýsingin er skemmtileg, fræðandi og grípandi.  Að hún gefi lesandanum þá tilfinningu að þetta sé námskeið sem er þess virði að fara á, því að það geti gagnast honum í lífinu, sama hvort það tengist vinnu, áhugamáli eða lausn á vandamáli.

Þýðingarlausar setningar eiga ekki að sjást í námskeiðslýsingu.  T.d. í lýsingu fyrir hugleiðslunámskeið ætti ekki að standa „ef tími vinnst til tölum við um núvitund“.  Ef það er ekki ætlunin að vinna með núvitund á námskeiðinu þá á ekki að setja það í lýsinguna.  Einnig er mælt með því að nota helst ekki skammstafanir, þær rugla fólk ef það veit ekki hvað þær þýða.  Það er greinilega margt sem þarf að hafa í huga við gerð námskeiðslýsinga, en vel skrifuð lýsing, sem er skýr, grípandi og hnitmiðuð getur þýtt góða skráningu á námskeið.  Það er það sem við viljum ef við höldum námskeið, að fólk komi til okkar og öðlist nýja þekkingu og hæfni, sem það hafði ekki áður.

 

 

 

 

Heimildir

http://ihlearningcenter.org/Vendors/center/handouts/TopTips.pdf sótt á netið þann 3. apríl 2016

http://www.edinaschools.org/cms/lib07/MN01909547/Centricity/Domain/45/Instructor%20Tip%20Sheet.pdf sótt á netið þann 3. apríl 2016

http://unex.uci.edu/pdfs/instructor/coursedescriptionstyleguide.pdf sótt á netið þann 3. apríl 2016

http://blog.lern.org/how-to-write-successful-course-descriptions sótt á netið þann 3. apríl 2016

 

 

Skildu eftir svar