Striginn (e. Canvas) við hönnun námskeiðs

BMC

Ég er að nýta mér handbókina Business Model Canvas (Osterwalder, A., & Pigneur, Y, 2010) í tengslum við námskeiðið. Ég þekkti Strigann (e. Canvas) fyrir og í fyrstu leit hann út fyrir að vera nokkuð flókið tæki en þegar maður hefur mótað hann að sínum hugmyndum þá er þægilegt að nýta hann við uppbygginguna. Í skjölunum hans Hróbjarts eru líka fínar upplýsingar.

Lagt er upp með níu þætti (e. Building Blocks) í Striganum en þeir eru markhópar (e. Customer Segments), virðisskapandi þættir (e. Value Propositions), boðleiðir (e. Channels), samskipti við viðskiptavini (e. Customer Relationships), tekjustreymi (e. Revenue Streams), lykilstarfsemi (e. Key Activities), lykilauðlindir (e. Key Resources), lykilsamstarfsaðilar (e. Key Partners) og kostnaðarsamsetning (e. Cost Structure). Með Striganumer hægt að leika sér, ef svo má að orði komast, nota suma þætti hans og raða upp eftir eigin mati á mikilvægi.

Kannski hefur einhver gagn af þessum útskýringum mínum á einingunum níu sem ég vann upp úr bókinni.

Byggingareiningarnar níu

  1. MARKHÓPUR (Customer Segments)    

Fyrirtæki/stofnun þjónar einum eða fleiri markhópum. 

Fyrirtæki hvorki vex né dafnar án arðbærra viðskiptavina. Hópur viðskiptavina telst vera markhópur ef hann uppfyllir ákveðin skilyrði s.s. þarfir hans krefjast og réttlæta sérstakt framboð, hægt er að ná til hópsins með mismunandi dreifileiðum, hann er tilbúinn til að greiða fyrir þá þjónustu sem boðið er upp á og afkoma hópsins er mismunandi.

  1. VIRÐISSKAPANDI ÞÆTTIR (Value Propositions)

Leitast við að leysa vandamál viðskiptavina og fullnægja þörfum þeirra með virðisskapandi þáttum.

Virðisskapandi þættir eru ástæða þess að viðskiptavinir snúa sér fremur til eins aðila en annars. Þeir leysa vandamál viðskiptavinar eða svara þörfum hans. Hver virðisskapandi þáttur samanstendur af vörum eða þjónustu sem kemur á móts við þarfir markhópsins. Sumir þættir geta verið nýir af nálinni en aðrir geta verið svipaðir og eru í boði á markaðnum en þó með einhverri viðbót eða nýjung. Þjónusta sem sniðin er að sérstökum þörfum markhóps skapar verðmæti.

  1. BOÐLEIÐIR (Channels)

Virðisskapandi þættirnir eru fluttir til viðskiptavina í gegnum samskipti, dreifingu og söluleiðir.  

Samskipta-, dreifinga- og söluleiðir fyrirtækis tengja það við viðskiptavini og að finna rétta blöndu boðleiða sem fullnægja því hvernig viðskiptavinir vilja láta ná í sig skiptir sköpum við að koma vöru á markað. Boðleiðir gegna nokkrum hlutverkum s.s. að efla vitund viðskipavina um vöru og þjónustu og að leggja mat á vöru fyrirtækis, gera viðskiptavinum kleift að versla mismunandi vörur og þjónustu og að flytja vöru til viðskiptavinar.

  1. SAMSKIPTI VIÐ VIÐSKIPTAVINI ( Customer Relationship)

Samskipti við viðskiptavini eru stofnuð og haldið við innan hvers markhóps. 

Hægt er að greina á milli nokkurra flokka tengsla við viðskiptavini, sem geta verið til staðar, einn eða fleiri í einu. Þeir eru persónuleg þjónusta, sérsniðinn persónuleg þjónusta, sjálfsafgreiðsla, sjálfvirk þjónusta. Netsamfélag er einnig dæmi um tengsl en slík samskipti miða að því að notendur skiptist á þekkingu og leysi vandamál hvors annars með samskiptum á netinu.

  1. TEKJUSTREYMI (Revenue Streams)

Tekjustreymi verður til vegna virðisskapandi þátta sem viðskiptavinum er boðið upp á með góðum árangri. 

Tekjustreymi stendur fyrir þá peninga sem fyrirtæki/aðilinn fær frá hverjum markhóp. Draga verður gjöldin frá tekjunum til að fá út hagnað. Það eru til ýmsar leiðir til að skapa tekjur, s.s. sala vöru eða þjónustu.

  1. LYKILAUÐLINDIR (Key Resources)

Lykilauðlindir eru eignir sem krafist er svo hægt sér að bjóða upp á ofangreindar einingar…

Lykilauðlindir er hægt að flokka niður á eftirfarandi hátt: Áþreifanlegar eignir eins og byggingar, farartæki og vélar, óáþreifanlegar eignir s.s. höfundaréttur og gagnagrunnar. Mannauður, þar sem auðlindin byggir á starfsfólkinu og að síðustu fjármagn.

  1. LYKILSTARFSEMI (Key Activities)með nokkrum lykilauðlindum.

Lykilstarfsemi fyrirtækis þarf að samanstanda af nokkrum mikilvægum þáttum svo rekstur þess gangi upp. Að ákveða þessa þætti er það mikilvægasta sem fyrirtæki gerir svo rekstur skili hagnaði. Lykilstarfsemi er mismunandi eftir gerð viðskiptalíkans. Fyrir hugbúnaðarfyrirtæki á borð við Microsoft hlýtur lykilstarfsemin t.d. að snúast um þróun hugbúnaðar.

  1. HELSTU SAMSTARFSAÐILAR (Key partners)                                                              

Einhverri starfsemi er úthýst og sumar auðlindir eru keyptar utan fyrirtækisins.

Það getur verið gagnlegt að greina á milli þriggja hvata að samstarfi eða hagræðingar/hámörkunar og stærðarhagkvæmni, draga úr áhættu og óvissu og kaup á tilteknum auðlindum og starfsemi.

  1. KOSTNAÐARSAMSETNING (Cost Structure)                                                          

Liðir viðskiptalíkans leiða til kostnaðarsamsetningar.

Augljóslega ætti að lágmarka kostnað í öllum viðskiptalíkönum en lágmörkun kostnaðar er mikilvægari í sumum en öðrum. Þess vegna getur verið gagnlegt að greina á milli tveggja grófra flokka, eða viðskiptalíkana sem lágmarka kostnað annars vegar og hins vegar þeirra sem hámarka virði.

 

Gaman væri að heyra hvort einhver ykkar er að nota hann?

Bestu kveðjur,

Þórgunnur

 

Heimildir

Osterwalder, A., & Pigneur, Y. (2010). Business model generation: a handbook for visionaries, game changers, and challengers (2. printing. ed.). Amsterdam: self published.

2 thoughts on “Striginn (e. Canvas) við hönnun námskeiðs”

  1. Sæl Þórgunnur.

    Reglulega áhugavert að lesa um Strigann. Takk fyrir þetta. Mörg góð og gagnleg ráð þarna í tengslum við almenna markaðssetningu og þess vegna höfðaði þetta reyndar mjög mikið til mín 🙂 þar sem ég hef áhuga á slíku. Mér þykir liður 4 sérstaklega áhugaverður Samskipti við viðskiptavini því þau þarf að grandskoða með þarfir þeirra í huga.

    Mér leikur forvitni á að vita þar sem þú segir að þú hafir skoðað þetta módel sérstaklega í tengslum við námskeiðið þitt. Þarft þú sjálf að sjá um markaðssetninguna á því eða er eitthvað fyrirtæki/símennntunarstöð sem sér um hana?
    Kær kveðja, Ingibjörg

    1. Takk Ingibjörg fyrir þetta,

      Ég er ekki komin svo langt að hugsa um hvort ég muni gera alvöru úr að halda námskeiðið mitt. Ég nýti í raun Strigann til að halda utan um uppbyggingu námskeiðsins. Ég hef áður notað hann við uppbyggingu viðskiptaáætlunar og líkaði það vel þannig að úr varð að ég nýtti mér hann núna.

      kv. Þórgunnur

Skildu eftir svar