Kynning þema á veffundi – Upphaf námskeiðs

Á veffundi þann 12. apríl 2016 kynnti ég þemað sem ég hafði valið mér, en það var upphaf námskeiðs sem hluti af kennslufræðilegu viðfangsefni.  Ég hélt að kynning mín tæki 13 mínútur (var búinn æfa mig) en hún endaði í rúmum klukkutíma.  Skemmtilegar umræður sköpuðust sem ég reyni að tíunda hér í þessu bloggi, það sem ég man eftir.

Hvað liggur að baki?

Þegar unnið er með upphaf námskeiðs þarf að hafa margt í huga; kennslufræðileg og fagleg rök, eigin reynsla og upplifun frá öðrum námskeiðum.  Má segja að notkun kennslufræðilegra raka í upphafi námskeiðs séu ákveðið regluverk sem gott sé að vinna eftir og faglegu rökin bæta síðan viðbótarþáttum við nálgun námskeiðsins hverju sinni.  Ef um er að ræða vana námskeiðshaldara geta þeir einnig byggt á reynslu sinni, þá einna helst á þann hátt að forðast aðferðir sem hafa ekki virkað og svo auðvitað einnig að notast við þær aðferðir sem hafa sýnt fram á hvað bestan árangur.  Upplifun námskeiðshaldara annars staðar frá gæti svo verið sá vettvangur fyrir að prófa sig áfram með nýjar aðferðir.

Námsumhverfi – Kennslustofan

Kennsluefni þessa áfanga hefur á mjög skýran hátt tekið á þessum þætti.  Uppröðun í námsumhverfi skiptir miklu máli og tengist að miklu leyti því hvaða kennsluaðferðum skuli beitt og hvaða kennslutæki eru notuð.  Mjög mikilvægt er einnig að líta til mögulegrar valddreifingar námskeiðsins þegar velja skal uppröðun og sérstaklega líta til staðsetningar kennara.  Hefur hann fasta stöðu á námskeiðinu, jafnvel staðsettur hærra, eða notast hann við púlt?  Borð nemenda er svo uppsett eftir því hvaða hlutverki þeir gegna á námskeiðinu, eru þeir hlustendur, er unnin hópavinna og hversu gott þarf aðgengi kennara að vera að nemendum.  Fleiri þættir koma auðvitað til.  Aðrir þættir líkt og birta, hiti og loftgæði námsumhverfisins skipta einnig miklu máli varðandi líðan nemenda á námskeiðinu.

Umræða skapaðist um stöðu kennara, t.d. hvort það væri virkilega svo að hann væri staðsettur hærra en aðrir.  Slík staða er enn algeng meðal kennara í austur evrópu og einnig má finna dæmi þess hér á landi, en þar sé byggt á „gömlum grunni“ t.d. upphækkanir kennaraborða í formi palla sem ekki er hægt að fjarlægja nema með töluverðum kostnaði.

Námsumhverfi – Nemandinn

Það sem helst þarf að hafa í huga varðandi hlutverk nemandans í námsumhverfi er að honum líði almennt vel frá upphafi.  Með því að hafa „allt“ tilbúið þegar nemandi mætir, t.d. ljósrit og önnur gögn er tengjast námskeiðinu, aðgangur að tækjum sé góður og síðast en ekki síst að hann hafi yfirsýn yfir þær veitingar sem eru í boði  á námskeiðinu eru auknar líkur á að stuðla að slíkri vellíðan.

Námsumhverfi – Kennarinn

Mér fannst nauðsynlegt að hafa þennan lið sem hluta af námsumhverfi þó ég hafi ekki rekist á hann í námskeiðsgögnum. Klæðnaður kennara og hreinlæti kennara getur haft mikil áhrif þegar skapa skal trúverðugleika hjá nemendum, og skal hafa í huga að ákveðinn klæðnaður getur hæft efni námskeiðsins betur en annar. Sem dæmi má nefnda að leiðbeinandi skyldi frekar mæta í lopapeysu eða vinnuskyrtu og sleppa jakkafötunum ef námskeiðið er um nýjar aðferðir í rúningu sauðfés.  Einnig er viðmót kennara mikilvægur þáttur og má þar helst nefna jafnréttissjónarmið, hlutleysi og hvernig hanna dreifir eða notar vald sitt.  Ekki má heldur gleyma að nota eingöngu „inniröddina“.

Generalprufa

Annar þáttur sem er kannski ekki að finna í námsgögnum með beinum hætti er  nauðsyn generalprufunnar áður en námskeið hefst.  Mikilvægt er að mæta t.d. daginn áður, prófa og nota allan þann tækjakost sem verður á námskeiðinu, ganga um stofuna, ímynda sér helstu þætti námskeiðsins og gera sér í hugarlund hvernig þeir koma til með að virka á  námskeiðinu. Það dregur úr trúverðugleika leiðbeinandans ef hann hefur ekki þekkingu eða úrræði til að láta öll kennslutæki virka sem skyldi.

Byrjunin – Mættu fyrr

Nauðsynlegt er fyrir leiðbeinanda að mæta fyrr en nemendur á námskeiðsdegi.  Hlutverk hans á þeim tíma er t.d. að hella upp á kaffi, kveikja á nauðsynlegum tækjum, raða borðum og stólum, dreifa ljósritum og einnig að athuga birtu- og hitastig námsumhverfisins. Ef leiðbeinandi notast við Welcome Card hvort sem um er að ræða spjald á hurð skólastofunnar eða sem upphafsglæru á fyrirlestri er þetta rétti tíminn til þess að klára það mál!  Ef þessir hlutir eru tilbúnir líður nemanda betur þegar hann mætir á námskeiðið og leiðbeinandi öðlast þá ímynd að hann sé skipulagður og hafi metnað fyrir námskeiðinu.  Kennari með allt á síðustu stundu gefur til kynna að námskeiðið sé ekki efst í forgangsröð hans þann daginn.

Áhugaverð umræða skapaðist um þennan hluta með tengingu við prófatíma í skólum.  Ef kennari hefði ofangreind atriði í huga á prófatíma stuðlaði hann að minni prófkvíða og aukinni vellíðan nemenda, bæði fyrir próf og á meðan prófi stendur.

Byrjunin – Móttaka nemenda

Þegar nemendur mæta á námskeiðið er mikilvægt að leiðbeinandi sé til staðar og taki á móti þeim, búi yfir vingjarnlegu viðmóti og stuðli þannig að því að öryggi skapist hjá nemendunum og að búa þeim til ákveðinn upphafspunkt á námskeiðinu.

Á veffundinum skapaðist umræða um það hvort rétt væri að þakka nemendum fyrir að mæta á námskeiðið og sýndist sitt hverjum.  Í stað þess væri frekar hægt að lýsa yfir ánægju með áhuga þeirra á efni námskeiðsins, lýsa yfir tilhlökkun með að vinna með þeim og aðrar nálganir voru einnig ræddar.  Tilgreindi ég að þakklætið gæti verið af fjárhagslegum toga þar sem nemendur væru oftar en ekki að kaupa ákveðna vöru/þjónustu af leiðbeinanda og fyrir það bæri að þakka.  Eftir á að hyggja tel ég að ákvörðun um þetta atriði sé einstaklingsbundið og tengist efni og formi námskeiða hverju sinni.

Byrjunin – Tímasetning

Sérstök áhersla var lögð á að leiðbeinandi byrjaði á réttum tíma.  Með því má koma í veg fyrir þá upplifun nemenda sem mættu á réttum tíma að þau skiptu minna máli en þeir nemendur sem ekki væru mættir.  Einnig beri að forðast það í lengstu lög að verðlauna nemendur sem mæta seint með slíkri háttvísi.  Ef um mörg námskeið er að ræða getur slík stundvísi/óstundvísi leiðbeinandans smitast yfir til nemenda með tilheyrandi kostum eða ókostum.  (Gleeck e.d)

Skapaðist umræða um þetta á veffundinum og einnig komu fram þau rök að sumir nemendur stunduðu það markvisst að mæta seint í tíma og notuðu slíka hegðun sem ákveðna stýringu eða „statement“ sem veldur eingöngu neikvæðum áhrifum á námskeiðum.

 Byrjunin – Kennari kynnir sig

Kynning kennara hefur það að markmiði að skapa tengsl við nemendur og auka á eigin trúverðugleika.  Með því að segja einnig frá menntun sinni, reynslu og áhuga hans á viðfangsefni námskeiðsins og tilgreina ástæður þess að hann ákvað að halda námskeiðið, eykur hann á fyrrgreindan trúverðugleika.  Slík kynning skal vera eins stutt og kostur og forðast skal langlokur og reynslusögur á þessu stigi námskeiðsins.

Umræða skapaðist á veffundi hvor menntun leiðbeinanda væri mikilvæg í slíkri kynningu, og var niðurstaðan að mínu mati sú að ef menntun hans tengdist efnis námskeiðsins skyldi hún tilgreind, annars ekki.

Byrjunin – Skipulag

Mikilvægt er að veita nemendum hagnýtar upplýsingar áður en kennsla hefst.  Gott er að fara yfir helstu tímasetningar á námskeiði, staðsetningu salerna og kaffistofu, eðli veitinga og staðsetningu ljósrita og annarra gagna er tengjast námskeiðinu.  Einnig er vert að tilgreina mögulegar aðstæður sem geta skapast á námskeiðstíma og geta haft truflandi áhrif, t.d. brunaæfing.

Hróbjartur kom inn á mjög áhugaverða viðbót sem ég hafði aldrei leitt hugann að, en það er staðsetning brunaútganga og viðbrögð ef neyðarástand skapast í námsumhverfinu.

Byrjunin – Markmið

Ástæður þess að leiðbeinandi fer yfir markmið námskeiðs í upphafi eru margvíslegar. Það er talið auka áhuga nemenda á efni námskeiðsins og sýn þeirra á mögulega áunna þekkingu og hæfni eftir að námskeiði lýkur verður skýrari.  Ef leiðbeinandi opnar síðan á umræðu um markmiðin hafa nemendur færi á að tjá sig um eigin markmið og hvað þeim þykir áhugaverðast af þeim markmiðum sem nefnd eru.  Heimfærsluumræða á þessu stigi er einnig mikilvæg þar sem nemendur geta mögulega gert sér grein fyrir praktískum notum þeirrar þekkingar og færni sem námskeiðinu er ætlað að veita þeim.

Byrjunin – Form/kennsluaðferðir

Ef leiðbeinandi kynnir sérstaklega kennsluaðferðir og hlutverk sitt á námskeiðinu ásamt hlutverki nemenda t.d. í formi verkefna, samvinnu og hópavinnu er það mitt mat að hann auki öryggi nemenda á námskeiðinu.  Með því að fara einnig yfir námsmatsaðferðir eykur hann fyrrgreint öryggi enn frekar. Nemendur viti hverju skal búast við af kennara og eigið hlutverk á námskeiðinu er ljóst frá upphafi.

Byrjunin – Nemendur kynna sig

Kynning nemenda hefur margvísleg áhrif og kosti í för með sér.  Ef nemandi kynnir sig t.d. með nafni, menntun, starfi, reynslu og væntingum hefur það þau áhrif fyrir nemendur að þeir kynnast innbyrðis og stuðla þar með að jákvæðara námsumhverfi.  Einnig verða væntingar þeirra ljósar öðrum nemendum og smita jafnvel út frá sér. Fyrir leiðbeinandann er þetta einnig mikilvægt. Hann öðlast mikilvægar upplýsingar um nemandann t.d. í formi forþekkingar, og auðveldar honum að tengja við bakgrunn nemenda í umræðu og rökstuðningi sínum á námskeiðinu.  Þar að auki getur þetta stuðlað að áhrifaríkari hópmyndun á námskeiðinu ef leiðbeinandi æskir slíks kennsluforms.

One thought on “Kynning þema á veffundi – Upphaf námskeiðs”

  1. Skemmtileg umfjöllun hjá þér, Gunnar og gagnleg. Góðir punktar þínir um ,,generalprufu“ og ,,námsumhverfi -kennari. Þá er ég sammála því sem þú tiltekur í eftirfarandi lið:

    Kynning kennara hefur það að markmiði að skapa tengsl við nemendur og auka á eigin trúverðugleika. Með því að segja einnig frá menntun sinni, reynslu og áhuga hans á viðfangsefni námskeiðsins og tilgreina ástæður þess að hann ákvað að halda námskeiðið, eykur hann á fyrrgreindan trúverðugleika. Slík kynning skal vera eins stutt og kostur og forðast skal langlokur og reynslusögur á þessu stigi námskeiðsins.

    Með kveðju, Þórgunnur

Skildu eftir svar