Enska er alheimstungumál og skemmtileg líka!
Viltu dusta rykið af enskukunnáttu þinni? Þá er þetta námskeið tilvalið fyrir þig!
Námskeið í ensku fyrir fullorðna sem vilja dusta rykið af enskukunnáttu sinni og hafa áhuga á að öðlast færni í að bjarga sér á tungumálinu í ræðu og riti. Nú eða bara sér til ánægju og yndisauka.
Viðfangsefni
Á námskeiðinu er stefnt að því að þátttakendur æfist í grunnþáttum í ensku með áherslu á skilning, orðaforða, talað mál og ritun. Fjölbreyttum aðferðum í tungumálakennslu verður beitt, svo sem hlustunar-, tónlistar- og talaðferð. Leikir í tungumálakennslu og margt fleira. Verkefnin sem verða unnin miða að því að vera einföld og hagnýt.
Markmið
Helstu markmið námskeiðsins eru:
- Að þjálfa skilning.
- Að auka almennan orðaforða sem tengist daglegum athöfnum.
- Að æfa talmál sem tengist daglegum athöfnum.
- Að efla færni í að rita einfaldan texta.
Nánari upplýsingar
Námskeiðið er 16 kennslustundir eða 4 skipti. Frekari upplýsingar um námskeiðið er að fá hjá Þórgunni Stefánsdóttur enskukennara, af lífi og sál, til margra ára í síma 557-2233 eða ths42@hi.is. Skráning á sama stað.
Kennt verður á þriðjudögum og fimmtudögum í september frá kl. 16:00-19:00.Staðsetning: Foldaskóli GrafarvogiVerð: kr. 25.000 (námsefni innifalið)
Hvað lærði ég um gerð námskeiðslýsingar? Örstutt blogg
Þegar ég fór að velta fyrir mér að skrifa námskeiðslýsingu varð mér fyrst hugsað til þess að hafa hana hnitmiðaða, stutta og skýra. Ég velti fyrir mér hvað þyrfti að koma fram og reyndi að setja mig í spor þátttakanda. Hvað myndi ég vilja sjá sem þátttakandi? Ég byrjaði á að móta uppkast eftir að hafa gluggað í heimildir á netinu. Ég nýtti mér greinar sem Hróbjartur benti á á FB síðu námskeiðsins og sú fyrsta sem ég skoðaði var að finna á Onlinelearningpoint.com. Þar er meðal annars mælt með að eftirfarandi þættir komi fram:
- Hvað hefur þátttakandinn lært að loknu námskeiði
- Hvað fær hann út úr námskeiðinu
- Hver er efni og innihald námskeiðsins
- Hversu langan tíma tekur námskeiðið
Mér fannst lærdómsríkt að sjá dæmi um samfelldan texta sem innihélt þessi atriði. Þessar upplýsingar nægðu mér samt ekki því mér fannst vanta meira kjöt á beinin.
Ég skoðaði síðan greinina Writing Effective Course Descriptions en þar fannst mér ég fá góðar leiðbeiningar sem ég gat nýtt mér við samningu námskeiðlýsingarinnar. Þar er bent á að heiti námskeiðsins þurfi að vera grípandi svo fólk fái áhuga á að lesa meira. Ýmsar hugmyndir eru viðraðar í þessu samhengi svo sem að nota húmorinn, tala til fólks eða nota einfaldan og jákvæðan titil. Að mínu mati þarf þarf fólk síðan að vega og meta hvaða aðferð er við hæfi að nota og þá fer það eftir hvers eðlis námskeiðið er. Mér fannst áhugavert að sjá að viðbrögð þess sem les námskeiðslýsingu ráðast á fyrstu 5-7 orðunum í titlinum. Les viðkomandi áfram eða ekki …
Síðan er rætt um form á opnunarsetningum og gefin dæmi um þær, meðal annars að nýta sér að spyrja spurninga eða koma með skilgreiningu, lýsa svo námskeiðinu í stuttu máli og setja inn áhugaverða lýsingu á þér sem kennara. Þá fannst mér flott að fá dæmi um sagnir sem sterkt er að nota í lýsingum. Ég mæli með þessari grein og finnst ég hafa lært heilmikið af henni. Læt þetta duga hér um námskeiðslýsingar.
Heimildir
Onlinelearningpoint.com. (2011) Writing Good Course Description. Sótt af https://www.onlearningpoint.com/
Instructor Tip Sheet #1. (e.d.) Writing Effective Course Description. Sótt af http://www.edinaschools.org/cms/lib07/MN01909547/Centricity/Domain/45/Instructor%20Tip%20Sheet.pdf
Mjög greinagóð lýsing hjá þér Þórgunnur, stutt og hnitmiðuð. Ég er alveg viss um að þú átt eftir að selja vel á þetta námskeið og lýsingin fangar.
Gangi þér vel með framhaldið,
Bestu kveðjur,
Sigfríður