Nýsköpun í skólastarfi

nýsköpun

Hefur þú velt fyrir þér hvernig grunnskólinn undirbýr nemendur fyrir 21. öldina? Er eitthvað sem við getum gert öðruvísi? Langar þig að kynnast kennsluháttum í nýssköpun- og frumkvöðlamennt og fá stuðning sem nýtist þér í starfinu?

Hvernig væri að taka þátt í vinnustofu sem er hugsuð fyrir kennara í grunnskólum sem langar til að kynnast nýsköpun og frumkvöðlamennt og nýta sér hana í sinni kennslu.

Við hittumst í þrjú skipti og vinnum saman og jafnframt fá þátttakendur aðgang að vefsíðu með námsefni, hugmyndum og verkefnum. Áframhaldandi vinna og stuðningur fer fram á vefsíðunni en einnig verða skipulagðir fundir yfir veturinn í samráði við þátttakendur.

Námskeiðið fer fram í Setri skapandi greina við Hlemm undir handleiðslu kennara í Félagi kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt dagana:

  1. september kl. 15.00 – 18.00
  2. september kl. 15.00 – 18.00
  3. september kl. 15.00 – 18.00

Verð kr. 6.000.

Skráning á solveighrafnsdottir@gmail.com

 

Hugleiðingar um auglýsingaskrifin

Þegar ég skrifaði auglýsinguna um námskeiðið hér að ofan hafði ég í huga nokkur ráð sem ég fann um slík skrif. Á netinu eru fjölmargar lýsingar á því hvernig best sé að hafa námskeiðslýsingar og auglýsingar um námskeið og eru dæmi um nokkrar slíkar í heimildaskrá. Sumar leiðbeiningarnar eru fyrir námskeið í stofnunum eins og skólum, aðrar um netnámskeið og eru menn ekki alltaf sammála um hvað sé við hæfi. Við skrif auglýsingarinnar þáði ég sum af þessum ráðum en hunsaði önnur.

Eitt að því sem margir tala um er mikilvægi þess að hafa heiti námskeiðisins lýsandi og þannig að það höfði til markhópsins. Ég reyndi þetta með því að kalla námskeiðið „Nýsköpun í skólastarfi“ því í mínum huga tengi ég hugtakið nýsköpun við það að eitthvað spennandi sé að fara að gerast og með því að tengja það við skólastarf er ég að reyna að höfða til kennara.

Sem leiðir hugann að markhópnum. Í svo til öllum leiðbeiningunum sem ég las var talað um mikilvægi þess að skilgreina markhópinn, þekkja hann og tala beint til hans. Minn markhópur er grunnskólakennarar og eftir að að hafa starfað lengi sem slíkur tel ég mig vita eitthvað um væntingar þeirra.

Fyrst og fremst held ég að þeir hafi þær væntingar til námskeiðs að það nýtist þeim beint í kennslu. Einnig hef ég oft upplifað að við kennarar höfum ekki mikla þolinmæði að sitja undir löngum fyrirlestrum eða glærusýningum heldur viljum tala við kollegana og drífa okkur í að „gera eitthvað“. Til að koma til móts við þetta læt ég koma fram í auglýsingunni að námskeiðið sé hugsað sem vinnustofa og að námsefni, hugmyndir og verkefni séu aðgengileg á vefsíðu. Það að þátttakendur hafi aðgang að hugmyndum og verkefnum held ég að sé mikilvægt, bæði tímasparnandi og hagnýtt fyrir þá. Oft getur verið erfitt að breyta út frá vananum og gera eitthvað nýtt og á það líka við um kennara sem vilja prófa sig áfram með nýjar kennsluaðferðir. Með því að taka fram að boðið verði upp á áframhaldandi stuðning, bæði á netinu og með fundum, er ég að láta kennarana vita að þeir verði ekki einir á báti.

Tímasetning námskeiðisins skiptir miklu máli, ég læt fundina byrja í lok vinnutíma kennaranna (miðað við að flestir séu með fasta viðveru til 16.00) en þó ekki það snemma að miklar líkur séu á að enn sé kennsla í grunnskólum. Margir grunnskólar eru þó með kennslu til 16.00 og því eru fundirnir ekki á sama vikudegi. Þessi atriði finnst mér skipta máli, það er sjálfsagt að stjórnendur skóla samþykki endurmenntun á vinnutíma en einnig finnst mörgum kennurum erfitt að fella niður kennslu. Það að hafa stutt á milli fundanna tel ég að stuðli að því að tengja betur saman hópinn og mynda sterkara bandalag fyrir veturinn. Og ég ákvað að hafa námskeiðið í byrjun september, þá er skólastarfið komið af stað og skólabyrjunarstressið farið. Það má þó velta fyrir sér hvort betra væri að hafa námskeiðið í ágúst þegar kennararnir eru að skipuleggja lotur fyrir veturinn.

Margir þeirra sem skrifa leiðbeiningar um námskeiðslýsingar tala um að hafa hana stutta og auðlæsilega og sumir benda jafnvel á að hún megi ekki vera leiðinleg. Það er hægara sagt en gert en ég reyndi að hafa mína lýsingu alla vega ekki of langa. Það varð þó á kostnað þess að telja upp hvaða hæfni þátttakandi hefði öðlast í lok námskeiðisins sem er eitt af því sem talið er mikilvægt. Ég reyndi í staðinn að setja smá vísbendingu um þessa hæfni – og jafnframt að höfða til þeirra kennara sem hafa þörf fyrir breytingar á skólastarfinu. Ég sá í einhverjum leiðbeiningunum að það væri klisja að tala um 21. öldina en ákvað að gera það samt.

Ég ákvað að nota „þú“ og „við“ í byrjun sem talið er af mörgum virka betur en skipti svo yfir í „þátttakendur“ í síðustu málsgreininni – ég veit ekki af hverju, mér fannst það bara passa betur.

Að lokum vil ég taka fram að skipulag á þessu námskeiði er á byrjunarstigi og ég hef ekki rætt við einn eða neinn um staðsetningu þess né leiðbeinendur. Ég setti bara kennara frá FNF og þeirra fundaraðstöðu í auglýsinguna því það er það sem mér finnst henta best. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þeirra starfsemi á:  http://www.fnf.is

Heimildir

http://spie.org/education/information-for-instructors/spie-instructors/course-description-format sótt 2.3 2016.

https://www.youtube.com/watch?v=IFA9yDFrYiE sótt 2.3 2016.

http://unex.uci.edu/pdfs/instructor/coursedescriptionstyleguide.pdf sótt 2.3 2016.

https://www.mtu.edu/registrar/pdfs/course-proposal-guide/Writing%20a%20Course%20Description.pdf sótt 2.3 2016.

https://creative.uoregon.edu/how-write-twenty-five-word-course-description sótt 2.3 2016.

http://blog.lern.org/how-to-write-successful-course-descriptions sótt 2.3 2016.

https://www.onlearningpoint.com/writing-good-course-description/ sótt 2.3 2016.

 

Skildu eftir svar