Þá er komið að þriðju og síðustu kennsluaðferðinni sem ég valdi að skrifa um í tengslum við nám fullorðinna og kallast hún samvinnunám. Fyrir er ég búin að skila inn lýsingu á aðferðunum lausnaleitarnámi og spurnaraðferð.
Hér er þá stutt lýsing á samvinnunámi sem gerð eru nánari skil á námsbrautarvefnum okkar http://namfullordinna.is/ eins og hinum tveimur aðferðunum.
Samvinnunám (e. Cooperative Learning)
Markmið aðferðarinnar
Markmið aðferðarinnar er að stuðla að virkri þátttöku, eflingu samstarfs og að allir fái jöfn tækifæri til að taka þátt. Þá styrkir hún sjálfstæða hugsun, samskiptahæfni, úrvinnslu og miðlun.
Lýsing
Samvinnunám er nokkurskonar regnhlífarhugtak yfir nám og kennslu þar sem nemendur vinna saman á markvissan hátt í hópum að lausn viðfangsefna. Þessi gerð vinnubragða eykur virðingu og samkennd meðal nemenda þar sem taka þarf tillit til skoðana og álits annarra. Við samvinnunám vinna nemendur í hópum og bera jafna ábyrgð á því að leysa það viðfangsefni sem þeir fá í hendurnar. Segja má að þeir séu þess vegna háðir vinnuframlagi hvers annars líkt og oft gerist í daglegu lífi. Samvinnunám hefur allaf bæði félagsleg og fræðileg markmið en margar rannsóknir hafa sýnt að aðferðir skilar nemendum góðum árangri í námsgreinum og er vel til þess fallin að auka félagslega færni nemenda, samvinnu, hjálpsemi tillitssemi, þolinmæði og færni til að leysa ágreining.
Sé samvinnunám nýtt í kennslu þurfa nemendur að mynda sér skoðanir og setja þær fram. Jafnframt þurfa þeir að átta sig á að hægt er að sjá hlutina frá mismunandi sjónarhornum því fólk er ekki alltaf á sömu skoðun.