Námsferli á netinu- spænskunámskeið

Spænskunámskeið á netinu: Douling.com

-Það að kunna tungumál getur opnað nýjan heim- 🙂

 

20160126_154333.jpg

Ég hef undanfarnar vikur verið á vefnámskeiði fyrir byrjendur í spænsku. Þetta námskeið er að finna á eftirfarandi slóð

https://www.duolingo.com/skill/es/Basics-1

Duolingo.com er gagnvirkur vefur þar sem þú getur lært nokkur tungumál.

Námskeiðslýsing:

Námskeiðið er mjög aðgengilegt á netinu og við allra hæfi. Ekki er flókið að taka þátt og helsta sem rekur mann áfram í upphafi er áhuginn á að læra tungumálið, smá forvitni líka og ekki er verra að það sé ókeypis. Þetta vefnámskeið er hægt að finna á 23 tungumálum og birtist bæði sem netforrit og einnig er hægt að verða sér út um forritið í snjallsíma. Yfir 100 milljónir manna um allan heim eru skráðir notendur.

Námið er byggt upp þannig að notað er stigakerfi til að hvetja þig áfram og tungumálið er kennt í litlum köflum. Mikil áhersla er lögð á orðaforða og málfræði sömuleiðis. Hægt er að velja þann grunn sem boðið er upp á og þá er líka hægt að taka stöðupróf fyrir þá sem lengra eru komnir.  Hæfniviðmið er lagt til grundvallar og þátttakandi verður að ná ákveðninni færni til að fara á næsta stig. T.d. fyrir hvert rétt svar fæst eitt stig, en fyrir hvert rangt svar tapast eitt. Þá eru einnig tímamæld verkefni í boði þegar ákveðinni færni hefur verið náð.

Markmið:

Meginmarkmið námskeiðsins er ekki skýrt og kemur ekki nægilega vel fram í upphafi. Þátttakandin rennir því dálítið blint í sjóinn og tekur slaginn eins og hann kemur fyrir. Tilgangur námskeiðsins er að koma þátttakendum í gegnum 10 kennslustig sem eru þyngdarmiðuð og hægt er að læra allt upp í 2000 orð á námskeiðinu. Vefurinn fylgist vel með framgöngu og framvindu þátttakenda og í námsferlinu sést vel hvað nemandinn á nákvæmlega erfitt með í náminu og hvað mætti betur fara hjá honum. Endurgjöf er þess vegna mjög góð og gefur greinagóðar upplýsingar um námsframvinduna.

Kennsluaðferðir: Kennsluaðferðin sem er notuð er algerlega gagnvirk og um sjálfsnám þátttakenda er því að ræða. Það sem hefur jákvæð áhrif á námsáhuga þátttakenda er að viðfangsefnið er við hæfi hvers og eins og er mátulega örgrandi, hvorki of létt né of þungt.  Þetta námskeið er því byggt upp þannig að verkefnum þess er skipt niður eftir þyngdarstigi þar sem þátttakendur hafa val um það hvar þeir byrja eins og hverjum og einum hentar. Innan hvers stigs eru fjölbreyttar leiðir í náminu og margt hægt að gera til að efla tungumálakennsluna. Árangur nemenda kemur strax fram og uppbyggingin námskeiðins er fjölbreytt. Endurgjöf er regluleg og heldur því nemandanum við efnið.

Upphaf og endir:

Byrjendur (eins og ég) hefja námskeiðið á 1. grunni og eiga að fara í gegnum ákveðið námsefni og orðaforðasúpu til að efla orðaforða og auka skilning. Þegar því stigi er lokið með viðunandi árangri færist þátttakandinn ofar eftir því sem námsframvindan er jákvæð og skilningur eykst. Hér er algerleg um gagnvirka þátttöku að ræða. Þú hefur stjórn á því hvenær þú lærir og á hvaða hraða. Endurgjöf er markviss og skýr og birtist í formi  hvatningar og hrós eftir því sem við á. Ef námið er ekki stundað nægilega vel og með jöfnu millibili fær þátttakandinn áminningu og góðfúslega ábendingu um að stunda námið reglulega og jafnt og þétt. Kennslustundin er þannig uppbyggð að þú færð tækifæri til að tala, hlusta og skrifa tungumálið sem þú ert að læra. Nálgunin er því fjölbreytt og snertir bæði hlustun/hljóðkerfisvitund, talað mál og ritun. Þá er reglulega í boði að taka áfangapróf en það er val um það hvenær viðkomandi er tilbúin í slíkt. Í lokin veistu nákvæmlega hver staða þín er á námskeiðinu og þá er hægt er að fara á næsta stig fyrir ofan ef viðunandi námsárangur hefur náðst.

Samanburður við kenningar: Þegar rýnt er í námskeiðið og það skoðað í ljósi kenninga um fullorðinsfræðu má sjá margt sem fellur vel að þeim og annað sem betur mætti fara. Í fyrsta lagi eru markmið námskeiðsins ekki nægilega skýr að mínu mati og þyrfti sá þáttur endurskoðunar við. En samkvæmt fræðunum um fullorðinsfræðslu eiga markmiðin að vera skýr og sýnileg þátttakendum þannig að þeir viti nákvæmlega til hvers er ætlast. Þá er ekki síður mikilvægt að skipuleggjendur viti hvert verið er að fara og hver útkoman á að vera (Mager,1997). Þá er tæknin nýtt til hins ýtrasta á þessu námskeiði og komið er á móts við námslegar þarfir þátttakenda og virkni þeirra er alger. Þetta er í einnig í takt við fræðin þar sem lögð er áhersla á að nýta tæknina í kennslu til að virkja þátttakendur sem best (Giannoukos ofl., 2015). Þá þarf líka að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir sem miða að því að efla og hvetja nemendur í náminu og vefnámskeiðið reynir að flestu leyti að hafa kennsluna fjölbreytta þó svo að námið fari eingöngu fram á netinu. Fjölbreyttar kennsluaðferðir skipta því miklu máli bæði í fullorðinsfræðslu og í kennslu almennt (Ingvar Sigurgeirsson, 2013).

Mat á námskeiðinu: Að mínu mati var námskeiðið skemmtilegt og gaman að sjá framfarirnar á þessum vikum meðan á námskeiðinu stóð. Ég get núna sagt nokkrar setningar með góðu móti og þekki orðið mörg orð á spænsku. Ég mæli með því að þeir sem vilja láta drauma sína rætast og hafa áhuga á að læra nýtt tungumál prófi að taka þátt í duolingo- námskeiði á netinu. Námskeiðsferlið er þægilegt, skemmtilegt og auðvelt í notkun.

 

Heimildir:

 

Giannoukos, G., Besas, G., Galiropoulos, C og Hioctour,V. (2015). The Andargogy, the

Social Change  and the Transformative Learning Educational Approaches in Adult Education. Journal of Education and Practice, 6 (10),46-50.

 

Ingvar Sigurgeirsson. (2013). Litróf kennsluaðferðanna. Reykjavík: Iðnú.

 

 

Mager, R. F. (1997). Preparing instructional objectives: A critical tool in the development of

            effective instruction (3. útgáfa). Atlanta: CEP Press.

 

 

 

2 thoughts on “Námsferli á netinu- spænskunámskeið”

  1. Sæl vertu og takk fyrir góða umfjöllun um námsferlið sem þú tókst þátt í. Við lesturinn vaknaði hjá mér áhugi á að kynna mér Douling.com þannig að þú kveiktir hjá mér áhuga með skrifum þínum. Mér finnst áhugavert að heyra hversu nálgunin er fjölbreytt og hún snerti bæði hlustun, talað mál og ritun. Verandi tungumálakennari þá skiptir það mig miklu máli að vera með fjölbreytni í kennslu og þannig næst oftast bestur árangur.

    Gangi þér vel í áframhaldandi spænskunámi.
    Góðar kveðjur, Þórgunnur

Skildu eftir svar