Námsferli – Duolingo – Rússneska

Gunnar Friðfinnsson

Námsferli:  Duolingo – Rússneska

Námsferli

Í janúar 2016 ákvað ég að skrá mig á Duolingo.  Duolingo er tungumálavefur og „app“ sem gerir manni kleift að læra ýmis tungumál á gagnvirkan hátt. Námsferlið stendur ennþá yfir og standa vonir til að svo verði um aldur og ævi.

Námsferlið

Skráningarferli Duolingo er mjög einfalt og gerir mér kleift að skrá mig bæði með almennu netfangi eða í gegnum samskiptavefinn Facebook.  Þegar skráningu er lokið vel ég tungumál sem ég ætla mér að læra.  Þegar þetta er skrifað býður Duolingo upp á nám í 18 tungumálum og senn bætast níu við til viðbótar.  Ég valdi að læra rússnesku og er nú einn af 1,1 miljón nemendum sem stunda nám í rússnesku með Duolingo.  Duolingo er algjörlega ókeypis!

Íslenska tungumálið er ekki eitt af Duolingo tungumálunum og því er ekki hægt að vinna á Duolingo á íslensku.  Í mínu tilfelli læri ég því rússnesku á enskum grunni.

Þegar skráningarferli er lokið þarf nemandi að setja sér markmið um daglegt vinnuframlag í tungumálanáminu.  Hægt er að velja um fimm stig:

  • Basic (1 XP á dag)
  • Casual (10 XP á dag)
  • Regular (20 XP á dag)
  • Serious (30 XP á dag)
  • Insane (50 XP á dag)

XP stendur fyrir námsárangri eða vinnuframlagi innan Duolingo. T.d. er ein æfing 10XP og tekur hún allt að 10 mínútur að vinna. Ég hafði það að markmiði að ljúka 20XP á dag í rússnesku sem samsvaraði því að ljúka tveimur æfingum á dag.

Form verkefna innan Duolingo er margbreytilegt:

  • Endurskrifa það sem þú heyrir
  • Þýða talað mál yfir á ensku
  • Þýða skrifaðan texta yfir á ensku
  • Þýða enskan texta yfir á rússnesku
  • Þýða enskt talað mál yfir á rússnesku
  • Endursegja texta með aðstoð hljóðnema
  • Velja rétt orð líkt og í krossaprófum
  • Tímaverkefni

Líklega munu fleiri form af æfingum líta dagsins ljós þegar ég kemst lengra í rússneskunni.

Duolingo notast við leikjafræði í hönnun sinni á tungumálanáminu sem virkar mjög hvetjandi á mig sem námsmann.

Má lýsa því með eftirfarandi dæmum:

  • Þú færð fjögur líf (hearts) í hverri æfingu. Ef þú gerir villu í æfingu missirðu líf og ef þú missir fjögur líf þarftu að gera æfinguna aftur.
  • Þú getur ekki lokið t..d æfingu tvö án þess að hafa lokið æfingu 1.
  • Tungumálum er skipt upp í Level
  • Hægt er að vinna sér inn Lingots ýmsum hætti, t.d. með því að fara upp um Level, ná markmiðum sínum 10 daga í röð og með því að bæta við sig ákveðni hæfni. Ákveðinn fjöldi Lingots gerir þér kleift að sleppa úr degi, tvöfalda vinnuframlag, auka við tíma í tímaæfingum ásamt því að geta „keypt“ sér viðbótarpróf í tungumálinu. Má því segja að Lingot sé gjaldmiðill innan Duolingo.

Sérstaklega er vert að minnast á vinasamfélag Duolingo þegar rætt er um leikjafræði forritsins. Hægt er að finna vini á Facebook eða með netfangi og bjóða þeim í keppni innan Duolingo.

Þegar byrjað er að nota Duolingo er hægt að taka stöðupróf í því tungumáli sem skal læra.  Með því er komist hjá því að þeir nemendur byrji frá grunni í tungumáli sem þeir hafa forkunnáttu í.  Í mínu tilfelli þurfti ég ekki að taka það þar sem kunnátta mín í rússnesku var engin.

Duolingo býður upp á upprifjun með þeim hætti að ávallt er hægt að vinna aftur þær æfingar sem þú hefur lokið.  Kemur þetta sér mjög vel ef tekin hefur verið pása frá náminu í langan tíma, og einnig til að nota sem almenna upprifjun t.d. þegar þarf að æfa sig fyrir próf.  Nýtti ég mér það oft þar sem ég stundaði námið ekki alltaf reglulega eins og lagt var upp með í upphafi.

Rússneska tungumálanámið í Duolingo er eins og áður segir byggt upp á ákveðnum  fjölda levela.  Fyrsta level sem ég hef lokið var eingöngu byggt upp á 20 æfingum en level 2 er skipt upp í fimm hluta sem samtals samanstanda af  352 æfingum (sem er svaka slatti) og á ég talsvert eftir af því!  Eftir hvern hluta innan hvers Level er tekið próf.  Þar má hafa ákveðna yfirsýn yfir þá hæfni sem ég hef öðlast ásamt því að ég næ að vinna mér inn nokkra Lingots ef vel gengur.

Markmið

Markmið náms í Duolingo eru mjög einstaklingsmiðuð.  Yfirmarkmið stofnenda Duolingo er þó ljóst, en það er að kenna nemendum sínum tungumál að eigin vali, þeim að kostnaðarlausu. Leiðin að settu lokamarkmiði er þó sett í hendurnar á nemendum, bæði með því að þeir velja sér námsframvindumarkmið í upphafi og einnig er það einstaklingsbundið hversu mikilli hæfni nemandinn vill ná í viðkomandi tungumáli.

Kennsluaðferðir í formi verkefna sem áður hefur verið lýst, eru allar gagnvirkar, eru einnig breytilegar og áherslur þar um breytast einnig.  Ástæðan fyrir því er að höfundar nýta upplýsingar frá nemendum sínum sem finna má í gagnabönkum Duolingo, til þess að meta hvaða aðferðir nýtast vel og hverjar ekki og haga síðan framtíðarþróun forritsins eftir þeim niðurstöðum. Leikjafræðin er þeirra hugmynd að því að draga úr félagslegri einangrun og leiða sem oft vill skapast í netnámi/fjarnámi.  Líkt og fram hefur komið hér að ofan er námið verkefna- og endurtekningamiðað en þó með þeirri nýbreytni að nemendur eru að keppast við að ná markmiðum sínum og eru verðlaunaðir á ákveðinn hátt ef slík markmið nást. (Matthew Streeter. e.d.) og (John Grego. 2012)

 

Fræðin

Ef ég vildi tengja upplifun mína af Duolingo við hugmyndafræði Knowles myndi ég líta þannig á að Duolingo sé lausnamiðað nám og að tilgangur námsins sé skýr en um leið einstaklingsmiðaður.  Persónulega hef áhuga á að ferðast og hef undanfarin ár aflað mér fjölda vina í Austur – Evrópu í starfi mínu sem kennari.  Allir eiga þessir vinir það sameiginlegt að kunna rússnesku að einhverju eða öllu leyti, en aftur á móti er enskukunnátta þeirra oftast nær afar takmörkuð.  Lít ég því á rússneskunám mitt sem ákveðna lausn á því hvernig ég get haldið áfram og bætt samband mitt við þá ásamt því að það mun koma sér vel fyrir mig þegar ég mun ferðast til Austur – Evrópu. Námi mitt hjá Duolingo byggir á sjálfstæðum vinnubrögðum og ábyrgðin liggur eingöngu hjá mér sem notanda og ég stýri því hvernig ég haga vinnu minni innan forritsins. Því miður finnst mér ég ekki geta nýtt mér fyrri reynslu í þessu námi, nema þá á þann hátt að ég hafi reynslu af því að geta ekki tjáð mig við erlenda félaga mína og þá notað þá reynslu sem hvata í námi mínu. (Merriam, Caffarella og Baumgartner 2007, bls.84-87)

Duolingo er áhugaverð lausn þeirra fullorðnu nemenda sem hafa lítinn tíma aflögu til náms. Hönnuðir þess höfðu þennan hóp sérstaklega í huga þegar notkunareiginleikar forritsins voru þróaðir, að það væri hægt að nota það hvar og hvenær sem er.  Snjallforrit Duolingo í símum er þar mjög mikilvægur þar sem nemendur geta nýtt „dauðan tíma“ í að ná daglegum markmiðum sínum, t.d. í strætó, kaffitímum, vaktavinnu, uppi í rúmi og jafnvel á klósettinu. Neikvæðir hindrandi þættir sem fullorðnir námsmenn upplifa eiga að mínu mati ekki við um Duolingo.  Námskeiðið er frítt, álagið er valkvætt og erfitt væri að sjá lítið sjálfstraust og hræðslu við mistök sem einhverja óyfirstíganlega hindrun hvað þetta nám varðar. (John Grego. 2012)

 

Endirinn

Ég veit ekki hvenær og hvort ég kem til með að klára rússnesku námskeiðið á Duolingo þar sem ég geri mér ekki enn grein fyrir umfangi þess.  Ég hef þó lokið yfir 100 verkefnum í rússnesku síðan ég byrjaði, tel það nokkuð góðan árangur og langar í raun ekki að hætta.

Eftir því sem ég hef lesið er ákveðin eftirfylgni í boði fyrir nemendur sem ljúka námskeiðum sínum. Þau geta tekið að sér þýðingar á tímaritsgreinum með aðstoð samnemenda sinna innan Duolingo ásamt því að endurtaka æfingar til að viðhalda hæfni sinni. Það verður spennandi að sjá hvað tekur við að námskeiðinu loknu.

Það er mitt mat að Duolingo er gott námstæki, en ekki eitt og sér.  Með annars konar tungumálanámi t.d. með notkun annarra tungumálaforrita sem hafa annars konar kennslufræðilega nálgun tel ég að hægt sé að ná töluvert góðum árangri í tungumálanámi.  Lestur tímarita og notkun samskiptaforrita við rússneskumælandi aðila myndi síðan gefa punktinn yfir i-ið.

Вполне вероятно, что , когда я встретиться с вами в следующий раз, когда я могу говорить с вами на русском языке. Вызов вас сделать то же самое .

 

Heimildir

 

Matthew Streeter. án ártals. Mixture modeling of individual curves. Sótt 24. Apríl 2016 af: https://www.duolingo.com/register

John Grego. 2012. Duolingo Effectiveness study. Sótt 24. Apríl 2016 af: https://s3.amazonaws.com/duolingo-papers/other/vesselinov-grego.duolingo12.pdf

Merriam, S. B., Caffarella, R. S. og Baumgarthner, L.M. (2007). Learning in adulthood: A comprehensive guide. (3 útg.) SanFrancisco: Jossey- Bass

Skildu eftir svar