Námskeiðsauglýsing og blogg

Námskeiðsauglýsing

Tungumálaforrit í kennslu – látum þau nota þessa blessuðu síma!

Ertu tungumálakennari í grunn- eða framhaldsskóla og langar að auka fjölbreytni í kennslu? Finnst þér baráttan við símana í kennslustofunni töpuð? Hefurðu jafnvel áhuga á að bæta við enn einu tungumálinu? Ef svo er, þá er þetta námskeið fyrir þig. Að loknu námskeiðinu muntu geta með tölvum og snjalltækjum, notað Duolingo og önnur tungumálaforrit í kennslu tungumálaáfanga þinna og í eigin frítíma.  Námskeiðinu er skipt í þrjá hluta.  Í fyrsta hluta muntu tileinka þér notkun á nemendahluta Duolingo forritsins.  Í öðrum hluta muntu tileinka þér notkun á kennarahluta Duolingo forritsins sem kallast Duolingo Classroom. Í þriðja hluta muntu kynnast öðrum forritum sem einnig er hægt að nota sem verkfæri í tungumálakennslu ásamt því að taka þátt í faglegri umræðu um mögulegar kennsluaðferðir með notkun forritanna. Á námskeiðstímanum og að honum loknum mun kennari halda uppi umræðu og svara spurningum þínum og annarra þátttakenda á umræðuvef námskeiðsins.  Fullkominn tölvubúnaður verður á staðnum en ef þú átt snjalltæki hvet ég þig eindregið til að mæta með þau!

Og mundu…. Þetta eru ekki bara forrit fyrir nemendur þína heldur þig líka!!!!!

Dagskrá og efnisþættir námskeiðs:

  1. Hluti – Laugardagurinn 3. september kl. 13:00 – 17:00
  • Kynning á Duolingo
  • Duolingo appið – Notkun snjalltækja
  • Val á tungumáli og þyngdarstigi
  • Verkefnavinna – Verkefnaáætlun – Punktasöfnun og hæfnisstig
  • Yfirlit – Einkunnir
  • Duolingo samfélagið og tenging þess við Facebook
  1. Hluti – Laugardagurinn 10. septemer kl. 13:00 – 17:00
  • Kynning á Duolingo Classroom
  • Skráning nemenda á Doulingo Classroom
  • Gerð nemendahópa innan Duolingo Classroom
  • Hönnun verkefna – punktakerfi og hæfniviðmið
  • Samvinna nemenda innan Duolingo Classroom
  • Yfirlit verkefnavinnu og einkunna
  • Námsleikir á Duolingo Classroom
  1. Hluti – Laugardagurinn 17. september kl. 13:00 – 17:00
  • Kynning og notkun á öðrum tungumálaforritum
    • Busuu
    • Babbel+
    • Memrise
    • Livemocha
  • Umræða um kennsluaðferðir með notkun tungumálaforrita

Leiðbeinandi: Gunnar Friðfinnsson, Framhaldsskólakennari, viðskiptafræðingur og áhugamaður um rússnesku

Staðsetning: Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum – Tölvustofa á 4. hæð

Léttar veitingar verða á staðnum.

Námskeiðsgjald: 15.000 kr. (Fæst endurgreitt úr Vísindasjóði KÍ)

Vinsamlegast tilkynnið skráningu á gunnar@fiv.is eða í síma 691-1166.

 

Blogghlutinn 

Þegar ég skrifaði námskeiðslýsinguna hafði ég það að markmiði að hafa hana mjög lýsandi.  Mikilvægir þættir sem skal hafa í huga eru:

  • Hvað mun þátttakandi hafa lært í lok námskeiðsins?
  • Hvað mun hann fá út úr námskeiðinu?
  • Hverjir eru efnisþættir námskeiðsins? („Writing good course descriptions“, 2012)

Með því að notast við hæfniviðmið námskeiðsins í námskeiðslýsingu gerir þátttakandi sér grein fyrir því hver staða hans verður að loknu námskeiði. Þau viðmið gera einnig grein fyrir því hvað þátttakandinn fær út úr námskeiðinu bæði út frá faglegu og persónulegu sjónarhorni.  Með því að hafa ítarlega dagskrá námskeiðsins sem hluta af námskeiðslýsingu er það mat mitt að þátttakandi geri sér eins vel grein fyrir efni námskeiðsins og kostur er.

Í mörgum tilfellum borgar sig að nota 2. persónu orð í stað orða líkt og þátttakandi eða nemandi og sú aðferð talin tengja betur við mögulega þátttakendur.  Notkun á áhugaverðra staðreynda, húmors, ábendinga um kosti námskeiðsins, staðhæfinga, spurninga, lausn á vandamálum reynast einnig vel. (Top tips for writing course descriptions. e.d.)

Eðli námskeiðsins og markhópur þess er þannig uppbyggður að mér er óhætt að nota orð í annarri persónu sbr. þú, þig, þið o.s.frv.  Með því verður námskeiðslýsingin persónulegri og meira aðlaðandi fyrir mögulega þátttakendur.

Með því að bæta við í sviga undir heiti námskeiðsins: „Látum þau nota þessa blessuðu síma“ og svo sem spurningu: Finnst þér baráttan við símana í kennslustofunni töpuð?“ reyni ég að tengja við vandamál sem langflestir kennarar glíma við í kennslustofu sinni og bjóða upp á ákveðna lausn við því vandamáli.  Setningin „Látum þau nota þessa blessuðu síma“ þjónar einnig þeim tilgangi að gera titil námskeiðsins áhugaverðari og meira grípandi þar sem hann einn og sér er það ekki.

Með því að byrja námskeiðslýsinguna á nokkrum spurningum reyni ég að fá mögulega þátttakendur til að tengja við efni námskeiðsins og láta þá finna að þeir séu hluti af þeim markhóp sem námskeiðið er ætlað.

Með því að enda eiginlegan texta námslýsingarinnar á orðunum: Og mundu…. Þetta eru ekki bara forrit fyrir nemendur þína heldur þig líka!!!“  reyni ég að sýna fram á að efni námskeiðsins er ekki eingöngu starfstengt heldur gæti það einnig höfðað til þeirra á persónulegum grunni og  áhugasviði.

Leiðbeinandinn er einnig hluti af því sem mögulegir þátttakendur kynna sér og getur haft áhrif á þátttöku þeirra.  Jafnvel þótt leiðbeinandi sé mjög menntaður höfða aðrir þættir þó meira til þátttakenda, s.s. reynsla leiðbeinandans af viðfangsefni námskeiðsins, ástríða hans og möguleg persónuleg nálgun hans við þátttakendur. (Instructor Tip Sheet #1 Writing effective Course Descriptions . e.d.)

Með því að bæta því við að ég sé áhugamaður um rússnesku tel ég að mögulegir þátttakendur námskeiðsins geri sér grein fyrir því að ég notfæri mér efnisþætti námskeiðsins reglulega sjálfur og hef því fulla trú á að slíkur hugbúnaður virki.  Út frá því telji þeir að leiðbeinandinn hafi raunverulegan áhuga á viðfangsefninu og komi til með koma efni námskeiðsins vel frá sér.

Heimildir:

Writing good course descriptions.(2012). Sótt 3. apríl 2016 af: https://www.onlearningpoint.com/writing-good-course-description/

Top tips for writing course descriptions.  Sótt 3. apríl 2016 af: http://ihlearningcenter.org/Vendors/center/handouts/TopTips.pdf

Instructor Tip Sheet #1 Writing Effective Course Descriptions.  Sótt 3.apríl 2016 af: http://www.edinaschools.org/cms/lib07/MN01909547/Centricity/Domain/45/Instructor%20Tip%20Sheet.pdf

One thought on “Námskeiðsauglýsing og blogg”

  1. Mjög greinagóð lýsing hjá þér Gunnar, stutt og hnitmiðuð. Lýsingin er þess eðlis að mig langaði strax að skrá mig á þetta námskeið. Ég er fullviss um að tungumálakennarar eiga sko eftir að grípa gæsina og mæta á þetta námskeið.

    Það sem mér fannst helst vanta er gott heiti á námskeiðið- eitthvað sem grípur lesandann strax í upphafi.
    Ég er alveg viss um að þú átt eftir að selja vel á þetta námskeið og lýsingin fangar.
    Gangi þér vel með framhaldið,
    Bestu kveðjur,
    Sigfríður

Skildu eftir svar