Harvard ManageMentor (HMM) er námsvettvangur ætlaður til að styrkja leiðtoga- og stjórnendahæfni þátttakenda (Harvard Business Publishing). Eins og gefur að skilja er markhópurinn leiðtogar, stjórnendur og aðrir þeir sem standa frammi fyrir áskorunum í daglegu starfi. HMM er aðgengilegt á nokkrum tungumalum, m.a. ensku, portúgölsku og frönsku. Þar er að finna 40 efnisatriði sem hægt er að fara í gegnum. Á mínum vinnustað höfum við aðgang að HMM og ég valdi námskeiðið „Developing Employees“.
Markmið námskeiðsins (topic objectives) eru skilgreind í upphafi:
Markmiðin eru í samhengi við það sem þjálfunin inniheldur en ef litið er til þess sem Mager (1997) telur að markmið eigi að innihalda þá eru ofangreind markmið ekki nógu skýr. Í þessum markmiðum kemur ekki skýrt fram hvað þátttakandi á að kunna að námskeiði loknu eða hvernig það er mælt. Segja má að athöfnin (performance) sé nokkuð sýnileg í þessum markmiðum en að skilyrðin (conditions) og mælikvarða (criteria) skorti.
Um er að ræða rafrænt námskeið sem þátttakendur (með aðgang að HMM) geta nálgast þegar þeim hentar. Á upphafssíðu námskeiðsins er boðið upp á stutta kynningu (discover) á viðfangsefninu sem veitir þátttakendum innsýn í það sem koma skal. Námskeiðinu er skipt í nokkra hluta (sjá mynd Get started) og má sjá tímaviðmið fyrir hvern og einn hluta. Þátttakendur þurfa að klára fyrsta hluta til að fara í þann næsta og svo koll af kolli. Hver hluti er þrískiptur þar sem þátttakendur læra (learn), æfa (practice) og að lokum íhuga (reflect) hvernig viðkomandi hluti muni nýtast og hvað þátttakandi tekur með sér eftir að hafa farið í gegnum hann.
Námskeiðið er byggt upp á því að þátttakandi lesi texta um viðfangsefnið en auk þess eru stutt myndbönd í hverjum hluta sem ýmist veita innsýn (insight) eða heilræði (tips). Meðal þeirra sem tala á myndböndunum eru ráðgjafar, rithöfundur og stjórnendur sem segja frá eigin reynslu í viðkomandi hluta. Einnig er leikið efni þar sem þátttakendum er sýnt hvernig á ekki að nálgast viðfangsefnið (Wrong Way), hvernig ráðgjafi aðstoðar (Ask the coach) og að lokum hvernig æskilegt er að nálgast viðfangsefnið (Better Way). Þátttakendum stendur einnig til boða frekara lesefni (Read More) auk þess sem þeir geta hlaðið niður gögnum (Download Tool) sem tengjast viðfangsefninu og þeir geta notað í starfi sínu.
Í æfingahlutanum (practice) eiga þátttakendur ýmist að lesa stuttar lýsingar (case) sem eiga við viðfangsefnið og velja úr svarmöguleikum eða svara spurningum með eigin orðum. Í þeim verkefnum sem þátttakendur velja úr svarmöguleikum fá þeir strax endurgjöf og eiga möguleika á að velja annað svar ef þeir hafa ekki svarað rétt í fyrstu tilraun.
Þegar þátttakandi hefur farið í gegnum alla þættina þreytir hann próf þar sem hann þarf að hafa sex atriði rétt af sjö til að klára námskeiðið. Þegar því er lokið er komið að því sem kallað er On-the-Job:
Með þessu er verið að tryggja að þátttakandi leggi niður fyrir sig hvernig hann ætlar að nýta það sem hann hefur lært á námskeiðinu; hann þarf að meta færni sína í viðkomandi þætti, velja einn af hæfniþáttum til að vinna með næstu 90 daga, skilgreina aðgerðir í þessu sambandi og að lokum íhuga árangurinn. Þátttakendur eru hvattir til að deila árangrinum með yfirmanni sínum enda litið á námsferlið sem lið í þeirra eigin starfsþróun.
Ég valdi að vinna með hæfniþáttinn Help Employees Create And Implement Development Plans og þegar ég hafði lokið við að skilgreina aðgerðir fékk ég tölvupóst til áminningar um að ég hafi 90 daga til að vinna með hæfniþáttinn auk þess sem þær aðgerðir sem ég tilgreindi koma fram í póstinum.
Eins og gefur að skilja er hér um að ræða sjálfsnám þar sem þátttakendur velja sér viðfangsefni sem hentar og skipuleggja námsferlið eftir hentugleika. Þeir geta ráðið á hvaða hraða þeir taka námskeiðið, við hvaða aðstæður og hvaða aðferðir þeir nota (að glósa hjá sér, taka skjáskot o.s.frv.).
Harvard ManageMentor (HMM) fellur vel að kenningu Knowles um fullorðna námsmenn (Merriam o.fl. 2007), t.d. ef HMM er notað í starfsþróun stjórnenda (t.d. í framhaldi af frammistöðusamtali):
- Fullorðnir námsmenn þurfa að vita ástæðu fyrir náminu; í framhaldi af frammistöðusamtali ætti að vera ljóst af hverju þeir eru hvattir til að taka ákveðin námskeið á HMM.
- Fullorðnir námsmenn eru ábyrgir og vilja því hafa eitthvað um skipulag námsins að segja; á vel við í þessu samhengi þar sem stjórnendur geta ráðið töluverðu um framgang námskeiðsins.
- Nám fullorðinna er byggt á reynslu þeirra; hægt er að velja viðfangsefni á HMM eftir því sem hentar reynslu og bakgrunni hvers og eins.
- Fullorðnir námsmenn vilja skýra tengingu við daglegt líf og starf; á vel í þessu samhengi þar sem stjórnendur velja sér viðfangsefni stjórnunar sem hentar þeim.
- Fullorðnir námsmenn vilja að innihaldið sé afmarkað frekar en almennt; viðfangsefni á HMM eru vel afmörkuð og stjórnendur geta valið það sem þeir þurfa helst að styrkja sig í.
- Innri hvöt er áhrifaríkari þáttur í námi fullorðinna en ytri umbun; stjórnendur geta með námskeiði á HMM eflt sig í stjórnendahlutverkinu sem svo getur leitt til meira sjálfstrausts og aukinnar starfsánægju.
Ég er ekki stjórnandi með mannaforráð en fór í gegnum námskeiðið með það að markmiði að sjá hvort það hentar þeim stjórnendum sem ég vinn með og þá hvernig hentar best að kynna þeim þennan möguleika í fræðslu og starfsþróun. Mér fannst námskeiðið skemmtilegt, það er hnitmiðað og heldur manni við efnið með verkefnunum (practice). Framsetning á efninu er góð, textinn skýr og gott að hafa myndböndin til að brjóta upp. Ég tel að sú eftirfylgni sem boðið er upp á þ.e. að skilgreina aðgerðir til að ná betri tökum á ákveðnum hæfniþætti, sé góð þó auðvitað sé það alltaf undir þátttakandanum komið hvort hann nýti sér hana. Ég held að þessi leið geti hentað stjórnendum vel þar sem þeir ráða alfarið ferðinni. Stjórnendur eru gjarnan uppteknir og telja sig því oft ekki geta gefið sér tíma í staðbundin námskeið sem eru t.d. í hálfan dag. Því getur sjálfsnámið sem HMM býður upp á hentað vel, eina sem þarf er nettenging og heyrnartól (eða gott næði). Hagnýtar leiðbeiningar fylgja námskeiðunum og í einhverjum tilfellum tilbúin gögn (t.d. eyðublöð) sem stjórnendur geta notað í störfum sínum. Helsta kostinn tel ég vera hvað viðfangsefnin eru afmörkuð og því auðvelt fyrir þátttakendur að velja viðfangsefni við hæfi auk þess sem yfirferð verður ekki of yfirgripsmikil í hvert skipti.
Heimildir:
Harvard Business Publishing. (e.d.). Harvard ManageMentor. Sótt af http://www.harvardbusiness.org/harvard-managementor
Mager, R. F. (1997). Preparing instructional objectives: A critical tool in the development of effective instruction (3. útg.). Atlanta: CEP Press.
Merriam, Sharan B. o.fl. (2007). Learning in Adulthood. A Comprehensive Guide (3. útg.). San Fransisco: Jossey-Bass.
Sæl Hildur og takk fyrir þessa námskeiðslýsingu. Eru námskeiðin kynnt á einhvern hátt hjá ykkur? Eða starfsmenn hvattir til að kynna sér þau?
kv. Sólveig
Sæl
Við kynnum þau ekki sérstaklega en vekjum athygli stjórnenda á þeim og reynum að halda þessum möguleika að þeim þegar talað er um þjálfun fyrir stjórnendur. Við vitum ekki hvort við munum áfram hafa aðgang að þessu eftir sameiningu við annað fyrirtækja, kemur í ljós 🙂
Kveðja,
Hildur
Sæl Hildur og takk fyrir gagnlega námskeiðslýsingu og áhugavert að sjá hvernig þú fléttar fræðin – Knowles – inn í greiningu þína.
Gangi þér sem best í þínu,
kveðja, Þórgunnur