Svona af því að við erum líka að þjálfa okkur í að vera leiðtogar þá eru hér smá pælingar í sambandi við leiðtogahlutverkið og muninn á leiðtoga og stjórnanda. Gaman væri að heyra ykkar vangaveltur.
Ég lít svo á að það að vera leiðtogi sé ekki endilega hlutverk einnar manneskju heldur geti verið á hendi nokkurra einstaklinga sem allir eiga það sameiginlegt að búa yfir leiðtogahæfileikum. Flestir geta því verið leiðtogar sem hafa hæfileika til þess eða hafa fengið þjálfun, þekkingu eða bakgrunn til þess. Fólk verður ekki sjálfkrafa leiðtogar af því að gegna yfirmanns- eða leiðtogastöðu. Slíkt ræðst frekar af því hvort viðkomandi hafi leiðtogahæfileika að upplagi eða hafi fengið tækifæri til að þjálfa þá upp heldur en af þeirri stöðu sem viðkomandi gegnir. Að mínu mati er líka hægt að vera leiðtogi á einum stað, eða í einu hlutverki, en ekki öðrum. Almennt fer leiðtogahæfni því eftir persónu og hæfileikum. Það er hægt að þjálfa upp þessa eiginleika en fólk er misjafnlega móttækilegt fyrir kennslu og þjálfun í þessu eins og öðru. Síðan getur fólk verið misjafnlega áhugasamt um að vera leiðtogar eftir því í hvaða aðstæðum og hlutverki það er á hverjum tíma. Í kennslustofunni þarf kennarinn að vera leiðtogi ef allt á að ganga upp á sama hátt og fyrirliðinn er leiðtogi liðs síns í fótboltaleik. Oftast veit kennarinn meira um efnið en nemendurnir. Stundum er fyrirliðinn líka bestur í fótbolta í liðinu en þó oftar þannig að hann er það ekki, heldur velst einfaldlega sá í þetta hlutverk sem er bestur til að leiða liðið áfram innan sem utan vallar.
Hackman og Johnson (2013) ræða um muninn á leiðtogum og stjórnendum. Þar segir að stjórnendur séu þeir sem gera hlutina rétt en leiðtogar séu þeir sem gera réttu hlutina. Stjórnendur tengist gjarnan stöðugleika og sátt en leiðtogar átakatímum, breytingum og nýsköpun. Góður leiðtogi þurfi að vera fær í samskiptum og að virkja hóp til að gera eitthvað markvisst. Hann þurfi að vera duglegur að hrósa fólki, vera trúr markmiðum sínum en jafnframt raunsær og hafa hagsmuni fyrirtækis í fyrirrúmi. Stjórnandi sé aftur á móti nákvæmur og samkvæmur sjálfum sér en hann þurfi líka að vera sveigjanlegur. Í Goffey og Jones (2000) kemur fram að hvetjandi leiðtogar viðurkenni veikleika sína, séu næmir á aðstæður, átti sig á hver raunveruleg þörf teymis er og veiti hana.
Leiðtogar í röðum kennara sem deila sérþekkingu sinni og annarri þekkingu og reynslu með öðrum kennurum stuðla að bættu kennsluumhverfi. Þeir eru færir um að umbreyta kennslustofum í lærdómsumhverfi sem hentar hverjum og einum nemanda og kenna með skilvirkum kennsluaðferðum. Þeir leggja áherslu á nám nemenda, ásamt mikilvægi sjálfsstyrkingar og samvinnu. Kennaraleiðtogar leiða innan og utan skólastofunnar. Þeir rækta einnig leiðtogahæfni hjá öðrum kennurum í þeim tilgangi að hafa áhrif á þróun skólastarfs (Lumpkin og Claxton, e.d.).
Heimildir
Goffee, R. og Jones, G. (2000). Why should anyone be led by you? Harvard Business Review, 78(5), 63-70.
Hackman og Johnson, Leadership: A Communication Perspective Long Grove, Ill.: Waveland Press.
Lumpkin, A., Claxton, H. og Wilson, A. (e.d.) Key characteristics of teacher leaders in schools. Administrative Issues Journal: Connecting Education, Practice, and Research, 4,(2), 59-67. doi:10.5929/2014.4.2.8
Gaman að lesa þetta hjá þér Þórgunnur. Já við getum flest öll þjálfað upp leiðtoga eða stjórnunarhæfileika. En sumir eru fæddir leiðtogar og sýna það strax, á unga aldri. Mér finnst svo gaman að sjá börnin á leikskólanum, þar sér maður hverjir hafa meðfædda leiðtogahæfileika, það er ótrúlega gaman að fylgjast með hvernig leiðtogarnir leiða hópinn áfram í leik. Mér finnst líka það sem þú sagðir með að vera leiðtogi í ákveðnum hlutverkum, eða í ákveðnum verkefnum. Held að það sé málið, það er auðveldara að „virkja“ leiðtogann þegar maður er öruggur með sig, í öruggum aðstæðum. Stundum getur maður samt verið leiðtogi þó maður sé óöruggur. Ef þið hugsið málið, dettur ykkur þá ekki í hug einhverjar aðstæður þar sem þið voruð óörugg en leidduð samt hópinn? Kannski var það af því að þið skynjuðuð að þrátt fyrir óöryggi ykkar þá voru þið samt öruggi aðilinn í hópnum? kveðja Anna
Takk kærlega fyrir viðbrögðin Anna, já það er alveg rétt að sumir virðast fæddir leiðtogar og það er kúnst að verða góður leiðtogi. Í mínu starfi hef ég upplifað í nemenendahópi bæði slæma og góða leiðtoga. Yfirleitt getur þó viðkomandi kennari innrætt börnum gefandi leiðtogahæfni.
Athyglisvert þar sem þú segir
,,Ef þið hugsið málið, dettur ykkur þá ekki í hug einhverjar aðstæður þar sem þið voruð óörugg en leidduð samt hópinn? Kannski var það af því að þið skynjuðuð að þrátt fyrir óöryggi ykkar þá voru þið samt öruggi aðilinn í hópnum.“
Mikið til í þessu og kannski eitthvað sem við getum t.d. tengt daglegu lífi.
Með kveðju, Þórgunnur
Takk fyrir þessar pælingar Þórgunnur.
Ég hef líka velt fyrir mér hlutverki leiðtoga og hverjir séu eiginlega leiðtogarnir í skólastarfinu – ég starfa í grunnskóla.
Skólastjórinn þarf að vera stjórnandi en á líka að veita skólanum faglega forystu. Ég held að mikilvægur hluti af þessari faglegu forystu sé að finna og virkja leiðtoga í starfsmannahópnum. En til að starfsmenn finni sig í hlutverki leiðtogans þarf stjórnun skólans að vera með þeim hætti að þeir upplifi að þeir hafi raunveruleg áhrif.
Kennarar eru stærsti hópur fagmanna innan veggja skólans og hlutverk þeirra og þátttaka í skólaþróun skiptir öllu máli. Ef skólastjóranum sem faglegum leiðtoga tekst ekki að kveikja áhuga, vilja og samstöðu í kennarahópnum ganga breytingar hægt fyrir sig.
Ég held að í raun sé mikilvægt að virkja leiðtoga í öllum hópum skólans, bæði hjá starfsmönnum og nemendum.
Kv. Sólveig
Mikið var gaman og fræðandi að lesa greinina þína Þórgunnur. Ég er sammála þér þegar þú segir að flestir ættu að geta þjálfað sig í að vera góðir leiðtogar. Sumir virðast þó einhvern veginn eiga auðveldara með að leiða hóp en aðrir og það er ekki nokkur vafi á því að persónuleiki fólks spilar þar stórt hlutverk.
Þú talar um gjafmildi í röðum kennara sem deila sérþekkingu sinni, reynsu og þekkingu með öðrum kennurum og þannig stuðli þeir að bættu kennsluumhverfi. Það er ekki nokkur vafi á því að þetta flokkist einnig undir fagmennsku kennarans. Ef við viljum t.d. þróa okkur og/eða bæta okkur í starfi þá setjumst við niður með öðrum kennurum og tölum um það sem við erum að gera, hvernig og hvað gengur vel eða ekki nógu vel. Við berum saman bækur okkur og speglum okkur í reynslu kollega okkar.
Varðandi leiðtogahluverkið þá hefur mér þótt árangursríkt að deila því með nemendum mínum. Hvað meina ég með því? Jú, stundum upplifir maður að t.d. þátttakandi á námskeiði hefur mikla leiðtogahæfileika og þá er um að gera að nýta þann kraft.
Á síðasta ári var ég með þrítuga erlenda kona (á íslenskunámskeiði hjá mér) sem hafði mikla löngun til að tjá sig um heimaland sitt. Ég bauð henni (einslega) hvort hún vildi prófa að halda kynningu um landið og virkja nemendur í örlitla verkefnavinnu í kjölfarið. Hún tók hugmyndinni fagnandi og þá uppgötvaði ég hæfileika sem ég hafði ekki tekið eftir hjá þessum hæglynda nemanda. Þessi kona var með litla menntun en hún var fæddur leiðtogi! Hún fékk alla með sér og eftir kynninguna og vinnuna í kjölfarið áttum við gott spjall.
Ég held að flestir leiðtogar eigi það sameiginlegt að þeir horfa raunsæjum augum á kosti sína og galla. Þeir þekkja styrkleika sína og nýta sér þá til góðs og öðrum til uppbyggingar. Einnig tel ég að þeir séu gagnrýnir á sig í þeim tilgangi að verða betri. Þeir rækta án efa með sér dyggðina að hlusta á aðra – ekki einungis til þess að svara heldur til þess að skilja. Góður leiðtogi hlustar á nemendur/þátttakendur eða „fólkið sitt“ því væntingar þess og vonir skipta hann máli til þess að halda áfram. Gangi þér vel í þínu leiðtogahluverki!
Kær kveðja, Ingibjörg
Sæl Ingibjörg og takk fyrir þetta,
Gaman að heyra sögu þína af nemanda þínum á íslenskunámskeiðinu því svona reynslusögur vekja mann líka til umhugsunar og maður lærir af þeim.
Bestu kveðjur,
Þórgunnur
Sæl og blessuð Sólveig og takk fyrir viðbrögð þín. Þeir eru margir leiðtogarnir í skólastarfinu og virkir og gefandi leiðtogar er nauðsynlegir á öllum sviðum þjóðfélagsins. Mér finnst athyglisvert þar sem þú segir
,,Ég held að mikilvægur hluti af þessari faglegu forystu sé að finna og virkja leiðtoga í starfsmannahópnum. En til að starfsmenn finni sig í hlutverki leiðtogans þarf stjórnun skólans að vera með þeim hætti að þeir upplifi að þeir hafi raunveruleg áhrif.“
Góður punktur!
Með kveðju,
Þórgunnur
Takk fyrir þetta, gaman að lesa hugleiðingar þínar varðandi leiðtogahlutverkið. Ég hef sjálf mikið hugsað um þetta undanfarið og þá kannski sérstaklega hver munur er á stjórnanda og leiðtoga! Ég vil trúa því að við getum öll þjálfað okkur í því að vera leiðtogar, ég held að þetta sé ekki að öllu leyti meðfæddur hæfileiki þó við sannarlega sjáum oft á unga aldri að börn hafa mismikla leiðtogahæfileika.
Ég vil bara trúa því að við lærum svo lengi sem við lifum og að við getum öll þjálfað okkur í að verða betri leiðtogar ef viljinn er fyrir hendi 🙂
Takk Ragnhildur, sammála þér með að maður læri svo lengi sem maður lifir og hefur viljann til þess. Maður getur nefnilega ótrúlegustu hluti þegar viljinn er fyrir hendi:) Gangi þér vel í þínu leiðtogahlutverki.
Bestu kveðjur, Þórgunnur