Söguform og gjafmildi

Simon Sinek er enskur rithöfundur og þekktur fyrir bækur sínar Start with why: How great leaders inspire everyone to take action (2009) og Leaders eat last: Why some teams pull together and others don´t (2014). Síðasta árið hef ég verið að hlusta á hann á youtube. Mig langar allavega á benda ykkur á þennan fína fyrirlestur.
Simon leggur áherslu á þá aðferð að nota söguformið til að hefja kynningu/námskeið. Ég veit af eigin raun að sú aðferð svínvirkar.
Einnig deilir hann þeirri pælingu með okkur að besti hvatinn til að kynna hugmynd er þegar hún kemur í anda gjafmildis. Á síðasta ári fór ég á námskeið hjá Endurmenntun sem heitir „Hvernig nota ég facebook sem markaðstæki.“ Hvers vegna gerði ég það? Jú, ég er að selja vörur sem ég skapa sjálf og mig langaði að læra nokkur góð og gagnleg „markaðstrix“. Bæði Simon og kennarinn á námskeiðinu sem ég fór á töluðu um mikilvægi gjafmildis og auðmýktar. Forðastu í lengstu lög að selja, selja, selja heldur er farsælla að hafa gjafmildi að leiðarljósi í markaðssetningu. Þannig að þegar þú gefur eða deilir hugmyndum með öðrum án þess að ætlast til nokkurs skapaðs á móti þá færðu fólkið með þér. Hér liggur lykillinn og hvers og eins að meta hvernig hann er notaður. Í þessum þankagangi byrjar einnig traustið að þróast og samvinnuþýði þeirra sem þú vinnur með eykst. Hér varar Simon okkur einnig við það að tala of mikið um okkur sjálf, hvað við höfum áorkað og bendir okkur einnig á að tölfræðilegar staðreyndir eru ekkert sérstaklega heillandi (allavega ekki í byrjun).

6 thoughts on “Söguform og gjafmildi”

 1. Takk fyrir þetta Ingibjörg. Þetta innlegg er mjög áhugavert og ég tengi það við sem hefur komið fram á námskeiðinu um „opnun“ eða byrjun á námskeiði og hversu mikilvægt er að undirbúa þann hluta vel. Mér finnst áhugavert að heyra um bakgrunn kennara en þá frekar um reynslu þeirra en menntun og gráður 🙂 Reynslan hefur í mínum huga meira vægi því þegar kennarar hafa reynt á eigin skinni það sem þeir eru að kenna eru þeir trúverðugri – þó að nám og fræðin séu auðvitað góður grunnur að byggja á.

  1. Sammála þér Hildur að reynslan hefur meira vægi en menntun og gráður. Persónuleg þykir mér t.d. alltaf jafn gaman að segja mínum nemendum (sem eru útlendingar, flestir innflytjendur á Íslandi)
   að ég hafi líka verið í þeirra sporum eða nýbúi í Svíþjóð og farið á sænskunámskeið líkt og þau eru á núna. Síðan spjöllum við um kosti og galla þess að vera búandi í landi öðru en því sem við fæddumst/ólumst upp í. Öll eigum við oftast þá sameiginlegu reynslu að hjartað slær í heimalandinu okkar – ég get alltaf tengt við það hjá þeim þar sem árin mín úti í Gautaborg voru tæplega 7. Takk fyrir að bregðast við blogginu mínu hér kæra Hildur. Gangi þér vel í þínu!

 2. Takk, Ingibjörg fyrir innleggið,

  Gaman að hlusta á Simon í þessum stutta og grípandi fyrirlestri og skemmtilegt þegar hann líkir kynningu við ferðalag með ákveðnum endapunkti þar sem allt kemur heim og saman.

  Söguformið finnst mér oftast standa fyrir sínu og líkt og Simon segir að fólk sé þá búið að æfa, eða segja öðrum söguna sína áður en hún er nýtt. Ég hef nýtt mér þetta form í byrjun kennslustunda með nemendum og fyrir stuttu þá nýtti ég hana í enskukennslu á unglingastigi. Nemendur áttu semsagt að flytja stuttan fyrirlestur og viðfangsefnið var frjálst nema að því leyti að það átti að tengjast þeim sjálfum. Ég byrjaði á því að segja þeim sögu af sjálfri mér frá grunnskólaárunum og sagan sló í gegn, ef svo má að orði komast. Í kjölfarið fékk ég frábær verkefni frá nemendum.

  Ég tek síðan undir orð Simon þegar hann segir að upptalning fyrirlesara á gráðum sínum o.s.frv. sé ekki sérlega grípandi í byrjun fyrirlestar en það eru ófáir fyrirlestrar sem ég hef verið viðstödd þar sem einmitt er byrjað á slíku. Slíkt ætti að koma síðar ef það er nauðsyn.

  Með kveðju, Þórgunnur

  1. Sæl Þórgunnur. Takk fyrir viðbrögðin við blogginu mínu 🙂

   Gott hjá þér að nýta söguformið með nemendum þínum. Algjör snilld hjá þér að nýta þér það í enskukennslu með nemendum á unglingastigi. Mér finnst flott hjá þér að ákveða að verkefnið átti að tengjast þeim sjálfum því sjálfið er þeim auðvitað næst og flestum finnst skemmtilegt að segja frá eigin reynslu – af eigin skinni 😉 Gaman að heyra að þessi vinna gekk svona vel.

   Kær kveðja, Ingibjörg

 3. Takk fyrir, Ingibjörg.
  Mér þótti þetta áhugaverður fyrirlestur og fékk mig til að hugsa um hve oft ég hef notað þessa byrjun með nemendum mínum – sem eru börn. Í kjölfarið vilja þau svo gjarnan líka segja frá og það getur virkað vel til að fá þau til að tengja við námsefnið. Það getur reyndar stundum verið snúið að stýra þessum frásögnum þeirra (sérstaklega ef þau eru ung) og passa upp á að allir fái að tjá sig og allir hlusti á hina 🙂
  Eitt sem ég tók eftir við fyrirlesturinn (og truflaði mig smá) var að Simon horfir ekki í myndavélina – ég fór meira að segja að spá í hvort að það væri viljandi og einhver kennslufræðileg rök að baki 🙂

  1. Takk fyrir viðbrögðin Sólveig.
   Ég skil hvað þú meinar þegar þú segir að það geti verið snúið að stýra umræðum þannig að allir nemendur fái tækifæri til að tjá sig og hin haldi einbeitingu allan tímann. Ég var fyrir nokkrum árum að kenna 8 ára börnum og einnig 5-6 ára börnum í íslenskuvali. Þá miðaði ég stundum við hálfa til eina mínútu þegar við ætluðum að ræða eitthvað ákveðið og þá vorum við búin að koma okkur saman um þennan tíma þannig að allir virtu tímamörkin. 🙂
   Ég var líka búin að taka eftir þessu með Simon (reyndar í öðru youtube myndbandi þar sem hann er reyndar í viðtali) að hann horfði ekki á viðmælanda sinn. Ég hugsa að þetta sé feimni (jafnvel e-ð annað) en nei, líklegast ekki kennslufræðileg rök á bakvið þetta 😉 Gangi þér vel.

Skildu eftir svar