Rödd nemandans – Öflug saman

Almennar upplýsingar um ráðstefnuna Rödd nemandans

Hér kemur bloggfærsla mín um það að taka þátt í námsferli en þann 10. febrúar sl. tók ég þátt í ráðstefnu um nemendamiðað skólastarf. Um ráðstefnuna sjálfa mun ég ræða almennt og leggja á hana persónulegt mat. Síðan fjalla ég um eina af málstofunum sem ég sótti í kjölfar hennar og leitast þá við að fara í fræðilegri greiningu og mat.

Um var að ræða svokallaða Öskudagsráðstefnu grunnskólakennara sem haldin er ár hvert á vegum Kennarafélags Reykjavíkur, Reykjavíkurborgar og félags skólastjórnenda á hótel Hilton Reykjavík Nordica. Þar var meðal annars rætt um hvernig hægt sé að auka áhrif nemenda á nám sitt og gera skólastarf lýðræðislega en yfirskrift ráðstefnunnar var Rödd nemandans.

1

Mynd 1. (Reykjavíkurborg, 2016)

Hér er síðan slóð á nánari upplýsingar um ráðstefnuna http://reykjavik.is/frettir/rodd-nemandans-oskudagsradstefnan

Uppbygging ráðstefnunnar

Um 600 kennarar og annað skólafólk mætti á ráðstefnuna. Eftir tónlistaratriði í upphafi og setningu steig nemandi úr Háaleitisskóla á svið og deildi sýn sinni á fyrirmyndarkennara. Fræðsla fór að mestu leyti fram á hefðbundnu fyrirlestrarformi auk þess sem sýnd voru lýsandi myndskeið inn á milli sem tengdust þema ráðstefnunnar. Markmið hennar var að vekja athygli á lýðræðislegu skólastarfi þar sem nemendur taka þátt í að móta skólastarfið og hafa áhrif á eigið nám. Þrír stórir skjáir voru á vegg andspænis salnum þangað sem upplýsingum var varpað þannig að fundargestir náðu að fylgjast vel með framvindu mála.

2

Mynd 2: Ráðstefnusalurinn. Úr safni höfundar

Að loknum pólitískum fyrirlestri Skúla Helgasonar um stefnu Reykjavíkurborgar í skólamálum var komið að aðalfyrirlesara ráðstefnunnar, Rekha Bhakoo (sjá mynd 3) en hún er skólastjóri Newton Farm skólans í London http://www.newtonfarm-harrow.co.uk Nemendur hans, sem eru flestir af erlendu bergi brotnir, hafa sýnt framúrskarandi námsárangur þrátt fyrir að skólinn sé staðsettur í einu af fátækrahverfum borgarinnar.

3

Mynd 3. (Reykjavíkurborg – Organization, 2016)

Eitt helsta einkenni skólans er að ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru ofin inn í allt fagstarf hans. Bhakoo nefndi erindi sitt Promoting Pupil Voice through UNICEF Rights Respecting Schools. Hún flutti það á lifandi og skemmtilegan hátt og sló á létta strengi inn á milli með sögum úr starfinu. Bhakoo hélt athygli minni og fundargesta óskiptri þann tíma sem hún var í pontu með fjölbreyttum fyrirlestri. Hún festi sig ekki í þurrum upptalningum, tölum og staðreyndum heldur talaði líka út frá myndum og sýndi myndband sem nemendur skólans höfðu tekið. Þar þau sögðu þau frá skólanum og reynslu sinni af náminu http://www.newtonfarm-harrow.co.uk/welcome/ Að fyrirlestri hennar loknum mætti á svið Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla og frístundasviðs ásamt nemanda úr Árbæjarskóla og spjölluðu þeir saman á léttum nótum um efni fyrirlesturs Bakoo og hvernig væri að vera nemandi í skóla þar sem leitast væri við að koma á nemendalýðræði. Áhugavert var að hlusta á samtal þeirra félaga og þetta uppbrot varð til þess að meira líf komst í salinn og léttara varð yfir gestum.

Þá voru hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs vegna grunnskólastarfs afhent en að mínu mati hefði átt að finna annan vettvang fyrr afhendingu þeirra þar sem þau féllu ekki að þema ráðstefnunnar og afhendingin sjálf tók of langan tíma. Tímasetningar fóru þar af leiðandi úr skorðum sem olli því að fólk lét sig hverfa af svæðinu. Næst tóku við málstofur.

Málstofur – mat og greining

Á seinni hluta ráðstefnunnar var hægt að velja um sex málstofur sem tengdustu með einum eða öðrum hætti yfirskrift ráðstefnunnar. Þetta voru málstofur um gildi samvinnunáms, einstaklingsmiðað nám, fjölmiðlalæsi, reynslu af nemendamiðuðu skólastarfi, upplýsingatækni í skólastarfi og nemendaþing og nemendalýðræði.

Ég sótti málstofuna Öflug saman ásamt 25 öðrum þátttakendum og mun flétta saman uppbyggingu, mati og greiningu á henni eins og kostur er. Málstofunni stjórnuðu þær Guðrún Ragnars og Aldís Yngvadóttir, sérfræðingar í kennslufræði Pestalozzi http://infed.org/mobi/johann-heinrich-pestalozzi-pedagogy-education-and-social-justice/%20%20

Það fyrsta sem ég gaf auga þegar ég kom inn í kennslustofuna var uppröðun borða en mikilvægt er að huga að hvaða uppröðun hentar best í kennslustofu til að hún styðji sem best við þá kennsluhætti sem kennari hefur hugsað sér að nota í kennslunni. Uppröðunin getur líka haft áhrif á hverskonar andrúmsloft skapast því samskipti milli annars vegar þátttakenda og svo hins vegar á milli þátttakenda og kennara geta verið misjöfn eftir sætauppröðun (Hróbjartur Árnason, án ártals). Í kennslustofunni var fjórum borðum raðað saman sem er í takt við svokallaða fiskibeinauppröðun (sjá mynd 4) en þar verða til litlir hópar og vinnur hver hópur saman sem eining og eru samskipti á milli hópa takmörkuð (Hróbjartur Árnason, án ártals).

4

Mynd 4. (Hróbjartur Árnason, án ártals)
Hróbjartur Árnason (1997) líkir hönnun námskeiðs/málstofu við samloku sem eru ólíkar að gerð, í mörgum lögum og með fullt af ólíkum hráefnum. Þannig þurfum við að skipuleggja námskeið/málstofu og huga að ólíkum þörfum og smekk fólks. Ég hafði á tilfinningunni að þessi málstofa samrýmdist samlokukenningu Hróbjarts en þær stöllur byrjuðu á að ræða um hugmyndafræði samvinnunáms (e. cooperative learning) http://www.co-operation.org/?page_id=65A og kynntu aðferðina sem áhrifaríka kennsluaðferð sem stuðlar að virkri þátttöku, eflingu samstarfs og að allir fái jöfn tækifæri til að taka þátt. Á eftir kynningunni fengum við síðan að prófa ýmsar hagnýtar æfingar þar sem okkur var gert að nýta samvinnunám við lausn verkefna.

Gagné o.fl. (2005) ræða um að kennsla sé byggð upp á níu þáttum þar sem hver þáttur styður hver annan. Í svo stuttu námskeiði sem um er að ræða mátti greina notkun nokkurra þessara þátta hjá kennurunum. Fyrsti þáttur sem Gagné o.fl. nefna einkennist af því að ná athygli þátttakenda. Ýmsum aðferðum má beita til þess svo sem að gera eitthvað óvænt sem vekur athygli. Í upphafi málstofunnar hófst til dæmis einstaklingsvinna þar sem þátttakendur voru beðnir um að skrifa niður átta heiti á bláum, mjúkum hlut. Þetta kom á óvart þar sem yfirskrift málstofunnar var samvinnunám. Við fengum mínútu til verksins og síðan voru umræður um afraksturinn og hvernig okkur hefði liðið á meðan við unnum það.

Næst vorum við beðin um að raða okkur í stafrófsröð án þess að tala en það hjálpaði okkur að kynnast eða „brjóta ísinn” (Hróbjartur Árnason, 1997). Til þess nýttum við okkur ýmiskonar táknmál og að því loknu var okkur skipt í fjögurra manna hópa eftir stafrófsröð. Því næst unnum hóparnir saman í mínútu og fengu það verkefni að skrá átta leiðir til að baða hund. Þessi vinna gekk mun betur en einstaklingsvinnan í byrjun málstofunnar en með þessum tveimur verkefnum sýndu kennarar okkur fram á muninn á einstaklingsvinnu og samvinnunámi (e. cooperative learning) og vísuðu í heimasíðuna Kagan Publishing and Professional Development http://www.kaganonline.com/ til frekari upplýsingaöflunar um kennsluaðferðina. Segja má að þar með hafi ísinn verið brotinn og líflegar umræður hófust í bland við hagnýta verkefnavinnu sem er í samræmi við Hróbjart Árnason (1997) sem talar um að stjórnendur leggi sig fram um að virkja þátttakendur á meðan á fræðslu stendur með hópvinnu, spurningum og fleiru. Stjórnendur þurfa að upplýsa um markmið með námskeiði Gagné o.fl. (2005). Það gerðu stjórnendur námskeiðsins en þau voru meðal annars að læra hagnýtar aðferðir sem nýst gætu okkur í starfi. Við fengum að æfa okkur í notkun svokallaðrar mottuaðferðar (e. team mats).

5

Mynd 5. Dæmi um mottuaðferð. Úr safni höfundar

Við fengum í hendurnar fjóra mismunandi lista og áttum að nota þá til að skipta mottunni í fernt svo sæist að allir hefðu tekið þátt. Síðan skrifuðu hópmeðlimir um hverjir væru kostir samvinnunáms og hvenær hægt væri að nota það í kennslu. Svona tæki sáum við fyrir okkur að væri gott að nota til að virkja alla nemendur í ákveðnum verkefnum, svo sem hugmyndavinnu í tengslum við þemavinnu. Því næst fengum við í hendurnar neðangreint eyðublað, um samvinnu í námi, en án myndanna sem á því eru. Við fengum myndirnar sérstaklega og verkefni okkar að finna út við hvaða texta hver mynd passaði (Sjá mynd 5). Þetta verkefni kallaði á samvinnu og virkni allra í hópnum.

6

Mynd 6. Um samvinnu í námi. Þýtt af Aldísi Yngvadóttur og Guðrúnu Ragnars. Úr safni höfundar

Einnig vorum við beðin um að rifja upp það sem við vissum um samvinnunám og er það í samræmi við Gagné o.fl. (2005) þar sem talað er um að rifja upp forþekkingu á efninu ásamt því að kynna þátttakendum innihald námskeiðsins en því miðluðu kennararnir með skjásýningu og umræðu.

Flest af því sem fram kom á ráðstefnunni var áhugavert og þá sérstaklega fyrirlestur Rekha Bakoo. Málstofan var þó gagnlegri og skemmtilegri því þar voru okkur veitt verkfæri til að vinna með í kennslu og okkur gafst jafnframt tækifæri til að æfa aðferðir (e. learning by doing). Eins var okkur bent á hinar ýmsu vefsíður sem áhugavert er að skoða í tengslum við samvinnunám svo sem http://www.kaganonline.com/gallery/ og http://padlet.com/pascale_mompoin/g24777zjlaqn Það sat ýmislegt eftir hjá mér að lokinni málstofunni þrátt fyrir að hún spannaði einungis um klukkustund. Hver mínúta var nýtt með fjölbreyttum verkefnum og hagnýtt að fá að prófa að gera hlutina.

Það stakk þó í stúf að annar stjórnandi málstofunnar fór ekki úr yfirhöfninni á meðan á henni stóð sem gaf þátttakendum þá tilfinningu að best væri að drífa þetta af og láta sig hverfa. Endir málstofunnar var einnig heldur snubbóttur því allt í einu voru allir staðnir upp og létu sig hverfa en mikilvægt er að stuðla að góðum endi slíkra viðburða (Hróbjartur Árnason, 1997., Gagné o.fl., 2005). Útkoma námskeiðs byggir á frammistöðu þátttakendanna sem sýnir hvort þeir hafa náð að tileinka sér ákveðna þætti námsins. Kennari þarf því að hafa ákveðnar leiðir til að meta hversu árangursrík kennslan hefur verið fyrir þátttakendur. Slíkt mat getur leitt í ljós hvort kennslan hafi mætt markmiðunum sem sett voru (Gagné o.fl., 2005) en í raun fór ekki fram neitt mat í lok málstofunnar þar sem einungis var um tiltölulega stutta kynningu á samvinnunámi að ræða en ég saknaði engu að síður faglegri lokunar.

 

Heimildaskrá

Gagné, R. M., Wager, W. W., Golas, K. C., og Keller, J. M. (2005). Principles of Instructional Design (5. útgáfa). Belmont: Wadsworth, Cengage Learning.

Hróbjartur Árnason. (1997). Aðferðir fullorðinsfræðslunnar: Samlokan. Sótt af http://uni.hi.is/jol9/files/2012/11/samloka1.pdf

Hróbjartur Árnason. (2011). Virkum þátttakendurna. Nokkrar hugmyndir og aðferðir til að virkja þátttakendur á námskeiðum, í málstofum og á fundum. Sótt af https://dl.dropboxusercontent.com/u/3415448/VirkjumThatttakendurna2010.pdf

Hróbjartur Árnason. (án ártals). Námsumhverfið. Kennslustofan. Stuðst við Mosher: Training for Results (1996) bls. 51-59 í endursögn Höllu Svavarsdóttur.

Reykjavíkurborg. (2016). Fréttasafn. Sótt af sótt af http://reykjavik.is/frettir

Reykjavíkurborg – Organization. (2016, 11. febrúar). Forsíða. Sótt af https://www.facebook.com/Reykjavik/

 

 

 

Þórgunnur Stefánsdóttir 22. febrúar 2016

 

 

7 thoughts on “Rödd nemandans – Öflug saman”

  1. Þetta hefur greinilega verið ágætlega heppnuð ráðstefna. Mér finnst líka áhugavert að taka eftir því sem þú sagðir um annar málstofukennarinn hafi ekki farið úr kápunni og hvað málstofan hafði snubbóttann endi, það eru þessi „litlu atriði“ sem geta haft áhrif okkar upplifun. Skemmtileg vinna og skemmtilegar umræður og svo búið!!! vantar lokin og umræðu. Þetta getur setið í manni og haft virkileg áhrif á upplifun okkar af viðburðinum. En takk fyrir að deila upplifun þinni með okkur:-) kveðja Anna

  2. Sæl, takk fyrir þessa rýni. Mér fannst hún gefa góða mynd af því hvernig ráðstefnan og málstofan fóru fram. (Ég var þar ekki sjálf 🙂 en hef heyrt í kennurum sem voru á ráðstefnunni). Ég held að ég muni nýta mér það í framtíðinni að skoða námskeið á þennan hátt. kv. Sólveig

Skildu eftir svar