Þarfagreining með Miðlunaraðferðinni (Metaplan)

Metaplan

Mynd 1. Úr bók Hróbjartar Árnasonar og Stig Skovbo (2010).

Ég var búinn að lofa mér því að skoða þarfagreiningu (e. needs analysis) fljótlega í tengslum við verkefnavinnuna mína í SFFF, þetta fyrsta stig kennsluhönnunar (e. instructional design). Hér er upphafsbloggið mitt í þeim hluta sem fjallar að mestu um notkun ,,Card Questions“ eða Miðlunaraðferðina (Metaplan).

Eins og hugtakið þarfagreining ber með sér þá styðst það við mat á þörfum (e. needs) og kemur fram sem ósamræmi á milli óskastöðu og þess ástands sem er viðvarandi, eða gloppu (e. gap) í árangri (Gagné, 2005). Við viðum að okkur og greinum upplýsingar (e. data) til að finna gloppurnar og fylla upp í þær svo unnt sé að bæta árangur skipulagsheildar. Allskonar ástæður eru fyrir myndun gloppa, t.d. vöntun á tækjum og tólum, slakt upplýsingaflæði eða vöntun á upplýsingum, þekkingu eða færni, fólk er jafnvel í rangri stöðu innan skipulagsheildar eða fær litla hvatningu (Hróbjartur Árnason og Skovbo, 2010).

Það var sunnudagur. Á meðan ég las mér til um þarfagreiningu rann allt í einu upp fyrir mér að morguninn eftir ætlaði ég að halda deildarfund með kennurum efsta stigs þar sem ræða átti nokkuð umfangsmikið efni – agastjórnunartæki skólans. Fyrr í vetur hafði verið óskað eftir eins konar stöðumati af hálfu kennara (þörfin var fyrir hendi og meginskilyrði þarfagreiningar þar með uppfyllt) en nokkur bið hafði orðið á umræðunni, merkilegt nokk vegna tímaleysis. Áður hafði ég stungið upp á því að funda sérstaklega um málefnið í stað þess að blanda því inn í umræðu um annað. Kennararnir voru sáttir með þá ráðstöfun en einhvern veginn sá ég fyrir mér að ég gæti ekki bara haldið svona ,,venjulegan“ fund þar sem allir sætu við borð og sumir tala á meðan aðrir þegja. Mér fannst ég yrði að stýra umræðum þannig að sem flestir tækju þátt í stað þess að ein til tvær raddir yfirgnæfðu allar hinar. Þetta er bara þannig málefni, það krefst lýðræðislegrar þátttöku. Miðlunaraðferðin myndi án efa hjálpa mér hér miðað við umræðu Hróbjarts og Skovbo í bók þeirra um þarfagreiningu (2010). Sjálfur hafði ég kynnst aðferðinni í kennslustund hjá Hróbjarti og vissi því vel að hún er sjónræn, lifandi og skemmtileg.

Nokkurn veginn svona sá ég deildarfundinn fyrir mér:

Metaplan 2

Mynd 2. Úr handbókinni Metaplan Basic Techniques (ó.d).

Á mánudagsmorgninum fór ég að huga að undirbúningi fundarins á meðan ég kepptist við að sinna öðrum föstum liðum starfs míns. Ég var spenntur, hlakkaði til en hafði auðvitað engan tíma í eitthvað föndur og svo átti ég náttúrulega engar svona fínar töflur eins og á mynd 2. Hvar var maskínupappírinn aftur geymdur og af hverju í ósköpunum áttum við ekki teiknibólur? Ég fann gulan pappírsafskurð í myndmenntastofunni til að nota sem strimla, tók alla tússa sem ég fann hjá ritaranum, gróf upp eina teiknibólukassann í stofnuninni, fann til rauða hringlaga límmiða hjá bókasafnsverðinum (eftir mikla leit), klippti til hvítan vélritunarpappír í fyrirsagnir og áttaði mig svo á því að í einhverjum kennslustofum væru til staðar ónotaðar korktöflur uppi á vegg, nægilega stórar til að hengja upp stórar arkir af maskínupappír (enda hvaða helvita maður notar þær í öllu rafræna náminu um þessar mundir?). Bingó! Þetta var komið og ég undirbjó ,,sviðið“ miðað við mynd 2.

Klukkan sló 14.00 og kennarar mættu í kennslustofuna. Þeir áttu nú ekki von á fundarskipulagi líku því sem nú blasti við þeim, en ég sá og heyrði að eftirvæntingin jókst í hópnum. Áður hafði ég farið yfir nokkrar helstu reglur margmiðlunaraðferðarinnar í huganum, aftur og aftur. Ég sá fundinn fyrir mér frá upphafi til enda. Fyrst var auðvitað að tryggja að öllum liði vel. Ég spurði kennarana hvort ásættanlegt væri að vinna í svo sem einn klukkutíma og hvort einhverjir þyrftu að vera annarsstaðar kl. 15.00, allt í anda fullorðinsfræðslu. Svo reyndist vera og þannig settum við tímamörkin í sameiningu, ásamt því að við ætluðum ekki að taka kaffipásu.

Fyrst áttu kennararnir að líma rauða límmiða á skalnum ,,mjög sátt/ur“ til ,,mjög ósátt/ur“ sem ég teiknaði á eina örkina. Bros- og fýlukall var notaður sem tákn fyrir ofan og neðan kvarðann. Síðan setti ég fram þrjár spurningar, ein spurning á eina örk örk hver, spurningar sem ég taldi vera í rökréttu samhengi við málefnið. Svo bað ég kennarana að skrifa svör eða hugmyndir á gulu miðana til að hengja á arkirnar. Hver og einn fékk tvo til þrjá miða og túss til að skrifa með. Sem betur fer fékk ég nokkra í hópnum til að aðstoða mig við að dreifa miðum, safna þeim saman aftur og festa á töfluna við viðeigandi spurningu á meðan ég las upp hvert svar (að gera þetta einn hefði orðið svo tímafrekt). Ég sá og fann að það vakti mestu eftirvæntinguna að heyra svörin. Síðan voru þau flokkuð og við ræddum málin stuttlega við hverja spurningu. Í lokaspurningunni (sem fjallaði um úrbætur) fengu allir þrjá rauða miða til að líma við þær tillögur sem þeim þótti falla best í kramið hjá sér.

Svona leit afraksturinn út hjá okkur eftir fundinn:

039

Mynd 3. ÞHG.

Eins og sést kannski á klukkunni á veggnum þá héldu tímamörkin nokkuð vel en þegar myndin er tekin þá er fundi lokið og kennarar horfnir til annarra starfa. Allt gekk vel, eiginlega vonum framar, og við fengum fram ágætis (jafnvel óvæntar) upplýsingar um stöðu málefnis í stofnuninni sem nauðsynlega þurfti að tæpa á. Það sem mér fannst þó standa upp úr var auðvitað hversu sjónrænt og lýðræðislegt skipulag margmiðlunaraðferðarinnar er. Enginn einn yfirgnæfði fundinn með sínum eina rétta sannleika heldur tóku allir þátt og allir komu skoðunum sínum á framfæri. Meira að segja voru þarna svör eða ábendingar sem gat verið erfitt að koma með fram undir nafni.

Já, mikið var ég nú ánægður með að hafa barið í mig kjark til að breyta til í daglegu fundahaldi og nýta þá aðferðarfræði sem manni er kennd í stjórnunarnáminu (er það ekki í samræmi við forystuhugtakið?). Miðlunaraðferðin er auðvitað bara ein aðferð við að afla upplýsinga vegna þarfagreiningar. Þær eru margar til en meira um það í næsta bloggi.

Þorvaldur H. Gunnarsson.

Heimildir:

Gagné, R., Wager, W., Golas, K. og Keller, J. (2005). Principles of instructional design. Belmont: Wadsworth/Thomson Learning.

Hróbjartur Árnason og Skovbo, S. (2010). Training needs assessment: An inspirational handbook for designers of learning processes. Strategic capacity building in companies: – the first step. Sótt af http://www.vuxped.nordvux.net/kogebog_vers.1.0.pdf\nhttp://issuu.com/mryntietgen/docs/kogebog_vers1.0_print_lille

Metaplan GmbH. (ó.d.). Metaplan basic techniques: Moderating group discussion using the metaplan approach (handbók). Sótt af http://www.sswm.info/sites/default/files/reference_attachments/METAPLAN GMBH b ny Metaplan Basic Techniques.pdf

7 thoughts on “Þarfagreining með Miðlunaraðferðinni (Metaplan)”

  1. Virkilega gaman að lesa þetta hjá þér Þorvaldur. Þetta hefur greinilega verið velheppnaður fundur. Ég held (veit í mínu tilviki) að við séum svo fljót að grípa í það sem við kunnum. Okkur langar að breyta til en svo leggur maður ekki í það, það gæti misheppnast. Svo við höldum áfram að gera það sem við þekkjum og kunnum þrátt fyrir að það gangi kannski ekki sértaklega vel, oft gengur það vel – ekki misskilja mig:-) Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér starfsmannafundum í vinnunni, þeir eru alltaf eins. Leikskólastjórinn reynir að halda stjórn, gengur það nú ágætlega, hún sendir alltaf út dagskrá fundarins og svo er hún útprentuð á að borðum fyrir þá sem vilja skoða. Ég ætti kannski að fá að prufa, setja dagskrána upp svona, hafa spurningu til að svara, gera eitthvað til að gera fundinn „huggulegri“ og sjá hvort hann verði þá „efnismeiri“ ef svo má segja. Tek þig mér til fyrirmyndar Þorvaldur, spjalla við stjórann á morgun og sé hvort ég geti ekki gert eitthvað sniðugt á starfsmannafundi í næstu viku:-) kveðja Anna

  2. Til hamingju með þetta Þorvaldur og gaman að fá innsýn í þennan flotta fund hjá þér 🙂 Já við erum svo föst í daglegum venjum og rútínum okkar og þess vegna er svo frábært að fá tækifæri til að spreyta okkur á því sem við erum að læra. Þetta gefur manni sko byr undir báða vængi. Takk fyrir 🙂

  3. Gaman að heyra af því hvernig þú nýtir miðlunaraðferðina og virkjar þar með fundarmenn til þátttöku Þorvaldur. Þetta er eitthvað sem mætti gera meira af á fundum almennt. Áhugavekjandi og sjónrænt 🙂

    ,,Enginn einn yfirgnæfði fundinn með sínum eina rétta sannleika heldur tóku allir þátt og allir komu skoðunum sínum á framfæri.“ Mjög góður punktur!

    Kv. Þórgunnur

Skildu eftir svar