Hvað reikna ég með að þátttakendur geri til að ná markmiðum námskeiðsins?
Námskeiðið er tækifæri og vettvangur fyrir þátttakendur til að afla sér fræðilegrar og hagnýtrar þekkingar á viðfangsefninu: Að skipuleggja nám fyrir aðra.
Í námskeiðslýsingu eru nokkur hæfniviðmið sem ættu að leggja línurnar um það sem leitað er að í námsmati. Við verðum að meta verkefni þátttakenda bygg á því sem stendur í námskeiðslýsingunni og einkum hæfniviðmiðunum.
- Leiðsögn (kennarinn)
- [ábendingar um] námsefni (bóka og lesefnislistar og annað efni frá kennara og öðrum á námskeiðinu)
- Námsumhverfi (kennslustofur o.s.frv. og vefumhverfi)
- Aðhald (dagsetningar, verkefni, próf
- Námsmannahópur (bekkjarsystkin, aðrir þátttakendur)
Sjálfstæðir fullorðnir námsmenn
Stór hluti þess að taka þátt í námskeiði á meistarastigi, og einkum og sér í lagi þar sem markmið námsins er að undirbúa þátttakendur undir leiðtogahlutverk í mennta og fræðslumálum, er að axla ábyrgð á sjálfum sér sem námsmanni og þátttakanda í hópi fólks sem er að læra saman.
Þetta þýðir að ákveða sjálf/ur hvað þú lest og hvaða verkefni þú vinnur og hvernig. – Vissulega eru leiðbeiningar um verkefni og er nauðsynlegt að fara eftir þeim: það er í fyrsta lagi vegna þess að það gæti verið eitthvað sérstakt sem kennari vilji að maður læri með því að fara í tiltekið ferðalag og í gegnum tiltekin verkefni á tiltekinn hátt… EN mér finnst alltaf mikilvægt að fólk hugsi alvarlega um það hvernig það sjálft sjái fram á að fá sem mest út úr þeim verkefnum sem það vinnur. Námið snýst jú um það meðal annars að þú verðir færari um að vinna ákveðin verk á þeim stað sem þú stefnir á eða ert þegar á. Og áhugahvötin er gjarnan meiri ef maður sér tilgang í námsefninu og verkefnunum, líka þegar maður velur þau sjálf eða setur sitt eigið mark á þau. Þá er gjarnan auðveldara að heimfæra nam upp á eigin raunverulegu aðstæður ef námsverkefnin líkjast því sem maður muni gera síðar. Í öðru lagi skiptir máli að fara eftir leiðbeiningunum til þess að kennarinn geti almennilega gefið viðbrögð og metið verkefnin.
Þátttaka í hópi námsmanna
Það er ástæða fyrir því að fólk hittist á staðlotum, kennslustundum, fundum og að við höldum úti námskeiðsvefjum og Facebook hópum fyrir námskeið… Það er vegna þess að við trúum því að fólk læri betur, dýpra og varanlegar með því að læra með öðru fólki. Aðrir nemendur geta verið fyrirmynd. Maður lærir gjarnan af því að sjá aðra glíma við það sama og maður sjálfur… og jafnvel fatta námsefnið… þannig að það hjálpar okkur sjálfum að læra að sjá aðra læra. Þá eru nemendur á námskeiði líka námsgögn eða þeir geta vísað á þau. Við getum séð námskeið sem verkefni þar sem nemendahópurinn er sameiginlega að vinna að ákveðnu marki og með því að hjálpast að gengur þeim öllum betur. Þess vegna geri ég það sem ég get til að stuðla að félagslegum samskiptum, en þú verður líka að grípa boltan og taka þátt. Það munar um þig! Það sem ég vonast til að sjá er að þáttakendur hjálpist að, styðji hver við annan, gefi af sjálfum sér… leyfi öðrum að sjá hvernig þeir eru að glíma við námsefnið, bendi hinum á áhugavert námsefni sem þeir rekast á. Lesi yfir hver fyrir annan (við lærum af því að lesa annarra verk með gagnrýnum augum)… Það að gefa af sér er ekki tímaeyðsla heldur græðir þú á því!
Æfast í sumum hlutum sem leiðtogar gera
Ef þú ætlar að axla ábyrgð sem leiðtogi á þínu sviði… og það er full ástæða fyrir þig að gera það. Þá eru alls konar hlutir sem leiðtogar gera sem þú getur prófað á námskeiði eins og þessu. Í dag er Internetið eitt verkfærið sem leiðtogar þurfa að temja sér að nota. Félagsmiðlar bjóða fólki ótrúlegan aðgang að því fólki sem manni hefur verið trúað fyrir… en hvernig notar maður þá sem leiðtogi??? Námskeið eins og þetta er kjörinn vettvangur til að koma sér yfir „þröskuldinn“ og prófa einfalda hluti eins og að bregðast á hjálpsamlegan og jákvæðan hátt við því sem aðrir gera og segja. Að gefa af sér, ábendingar, pælingar, reynslusögur og tilvísanir í gott efni. Að skrifa bloggfærslur þar sem maður pælir í áhugaverðum hlutum. Þetta vonast ég til að sjá hjá ykkur öllum á einhvern hátt.
Þess vegna ætla ég að leyfa mér það að koma með breytingu á námsmati. Til þess að við náum markmiðum námskeiðsins sýnist mér nauðsynlegt að setja nýtt verkefni á listann, sem heitir „Þátttaka á vefnum“ og felst í því að gera eitthvað af því sem ég skrifaði hér fyrir ofan. Verkefnið yrði metið til 10% af einkunn. Það minnkar vissulega valmöguleikana, en ég sé enga aðra leið.
SEM sagt…verkefnin eru:
A) Allir nota allt námskeiðið til að búa til námskeiðsmöppu á pappír um sjálfvalið efni sem inniheldur allt sem þarf til að keyra námskeiðið / námsferlið skilað 8. apríl
B) Allir búa til markmið (hjálpast að við að skrifa þau og skila svo einu pdf skjali með yfirmarkmiði fyrir námskeiðið (læra að hjóla) og 3 atferlismarkmið (a. hjóla 200m, b. beygja, c. bremsa)
C) Allir skila stuttu sjálfsmati í lok námskeiðsins
D) Allir taka þátt í hópverkefni þar sem þeir prófa að skipuleggja námskeiðið með ólíkum aðferðum: Með því að nota „Business Model Generation“ eða „Design Thinking“ aðferðirnar til að skipuleggja ímyndað námskeið
E) NÝTT allir taka virkan þátt í því sem gerist á námskeiðsvefinn námskeiðsins (Facebook , námskeiðsvefnum og námsbrautarvefnum) og skila þremur „skýrslum“ um þessa þátttöku. Ég bið ykkur um að senda mér í tölvupósti (hrobjartur@hi.is) stutta skýrslu um ykkar framlag til námskeiðsins 1. mars, 1. apríl og 2. maí. Ég mun svo nota þau og það sem ég sé á vefnum til að gefa einkunn fyrir þennan hluta. Þegar ég tala um þátttöku þá á ég við:
- Að hvetja og styðja við hina þátttakendurna með uppbyggjandi viðbrögðum við því sem þeir setja á vefinn og taka umræðuna þegar þeir bjóða upp á það, hvort sem það er á FaceBook, námskeiðsvefnum eða námsbrautarvefnum.
- Benda okkur á gagnlegt efni, annað hvort með stuttri færslu á FB, bloggfærslu á námskeiðsvefinn eða slóð með skýringu í gegnum Diigo (Það birtist þá í hópnum okkar og á forsíðu námskeiðsvefsins)
- Skipuleggja og halda utan um þriðjudagsfund (ákveða byrjun, kennsluaðfeðir og leiða atburðinn)
- Skrifa fundargerð (þar sem þú segir frá kennsluaðferðum og stutt um innihald þriðjudagsfundar)
- Annað sem þér dettur í hug að miðla, deila með okkur, fá okkur til að tala um o.s.frv. á námskeiðinu
F-I) Sjálfvalin verkefni fyrir 20% af einkunn. Flest þeira fela í sér að kynna eitthvað efni fyrir öðrum og birta það á opnum vef námskeiðsins eða námsleiðarinnar.
ATH: Þátttaka hefur alltaf verið hluti af mati á námskeiðum hjá mér og langflestum öðrum sem ég þekki til… núna gleymdi ég að taka það með í skipulagi mínu i upphafi. Ég var m.a. svo upptekinn af því að búa til lista yfir áhugaverð valkvæð verkefni að þetta datt út af listanum. Ég vona að þið takið þetta ekki stirt upp, og hvet þig til að hafa beint samband við mig ef þér finnst ástæða til að ræða þetta. Við komumst þá að samkomulagi 😉
Mér líst vel á þetta, ég er svolítið týnd hér í Grundarfirði:-) Núna er ég mest að lesa, aðeins búin að setja niður hvað ég vildi hafa í námskeiðsmöppunni.
Smá vangavelta, námskeiðslýsingin sem á að vera í möppunni er það ca 5% verkefni? Þannig að ef ég tel það, auk þess að skrifa rannsóknargrein og taka þátt í suttu námsferli þá er ég komin með 20%? kveðja Anna Rafnsd
Nei. Námskeiðslýsingin er bara hluti af námskeiðsmöppunni og þiðfáið Tækifæri til að sýna hana og fá umræðu um hana.
OK, skil:-) kveðja Anna
Ég var að velta því fyrir mér hvort mæting á þriðjudagsfundina, hvort sem hún var á netinu eða í Stakkahlíðinni gilti ekki líka sem innlegg undir E-lið þ.e. virkni á námskeiðinu.
Kv. Sigurborg
Vissulega @sigurborghronn. En eins og þú sérð þá er ég með þessu að reyna að gera það áhugaverðara fyrir ykkur að vera virk á vefjum námskeiðsins. Og ég geri það í þeirri von að það leiði til þess að þið í starfi ykkar eigið auðveldara með að axla ábyrgð sem leiðtogar og nýtið netið til þess 😉