Námskeiðslýsing og blogg

Hér er þitt tækifæri til að æfa þig í íslensku tali

Langar þig til að þjálfa og bæta færni þína í frásögn og samræðum í jákvæðu og hvetjandi námsumhverfi? Viltu skerpa á framburði, setningafræði og grundvallarmálfræði í íslensku?   Á talþjálfunarnámskeiðinu „Tölum saman!“ færðu þjálfun í samræðum um áhugaverð málefni gegnum fjölbreytta nálgun sem Ingibjörg leiðir. Lagt er uppúr því að höfða til áhugasviðs hvers og eins og unnið með persónuleg námsmarkmið þátttakenda.

Eftir námskeiðið muntu meðal annars:

  • Vera líklegri til að hefja samræður um ýmis málefni á íslensku
  • Geta talað um hversdagleg/mikilvæg/persónuleg málefni  s.s. veðrið, ferðalög, minningar, fréttir daglegs lífs o.fl.
  • Hafa sett þér persónuleg markmið í íslenskunni
  • Hafa skerpt á framburði, setningarfræði og grundvallarmálfræði í íslensku.
  • Vera fúsari að tala og hlusta á íslenskt mál
  • Hafa öðlast meira sjálfstraust til að tala íslensku

Kennari: Ingibjörg Kr. Ferdinandsdóttir stýrir námskeiðinu en hún á að baki fimm ára farsæla reynslu af íslenskukennslu fyrir útlendinga. Hún leggur einlægan metnað í að skapa jákvætt og hvetjandi námsumhverfi/samfélag þar sem öllum líður vel með að tjá sig á íslensku.

 

Dagana 18. apríl- 23. maí.

Morgunnámskeið: Mánudaga og miðvikudaga klukkan 9:10-11:30

Staður: Mímir símenntun Höfðabakka 9

Verð: 25.000 krónur

Skráning: mimir@mimir.is eða í síma 5801800

 

Um námskeiðslýsingar – bloggfærsla

Hvað þarf námskeiðslýsing/auglýsingin á námskeiðið þitt að hafa til að trekkja að fólkið sem þú þarft að ná til? Hér koma nokkur gagnleg ráð og hugmyndir sem hafa reynst vel við gerð námskeiðslýsinga og ég nýtti mér við gerð auglýsingarinnar hér að ofan.

Titillinn þarf að tala til áhugahvatar lesandans eða þarfa og skiptir því miklu máli. Með titlinum færðu tækifæri til að fanga athygli lesandans og hann þarf að vera grípandi, stuttur og á jákvæðu nótunum.  Það er áhrifaríkt að segja við lesandann að þetta sé hans/hennar tækifæri til að æfa sig í íslensku tali. Öll viljum við að sjálfsögðu fá okkar tækifæri og grípa þau. Það þykir vænlegt til árangurs að ávarpa lesandann í 2.persónu  s.s. að nota „þú“ og því nota ég þann stílinn. Titillinn verður persónulegri með þessu móti og ég kann vel við þann háttinn. Námskeiðið mitt er í þeim anda og það er tekið fram í eftirfarandi kynningu á kennaranum : „Hún leggur einlægan metnað í að skapa jákvætt og hvetjandi námsumhverfi þar sem öllum líður vel með að tjá sig á íslensku.“   Eftir að hafa breytt námskeiðslýsingunni úr þessari ópersónulegu og fjarlægu…:

„Áhersla er lögð á að þjálfa færni í frásögn og samræðum í mismunandi aðstæður þar sem skerpt er á framburði, setningafræði og grundvallarmálfræði. Þú færð þjálfun í samræðum um áhugaverð málefni gegnum fjölbreytta nálgun sem kennari leiðir, m.a. með efni af samfélagsmiðlum, í gegnum ýmis spil, með leikjum og með hjálp tónlistar. Lagt er uppúr því að höfða til áhugasviðs hvers og eins og unnið með persónuleg námsmarkmið þátttakenda.“

…Yfir í eftirfarandi:

„ Langar þig til að þjálfa færni þína í frásögn og samræðum í jákvæðu og hvetjandi námsumhverfi? Viltu skerpa á framburði, setningafræði og grundvallarmálfræði í íslensku?  Á talþjálfunarnámskeiðinu „Tölum saman!“ færðu þjálfun í samræðum um áhugaverð málefni gegnum fjölbreytta nálgun sem Ingibjörg leiðir, m.a. með efni af samfélagsmiðlum, í gegnum ýmis spil, með leikjum og með hjálp tónlistar. Lagt er uppúr því að höfða til áhugasviðs hvers og eins og unnið með persónuleg námsmarkmið þátttakenda.“

Þá líður mér mun betur með þessa auglýsinguna mína.

Megin markmið námskeiðsins míns er að ná til erlends fólks sem langar að æfa sig að tala íslensku í ólíkum aðstæðum hversdagsins og bæta kunnáttu sína í málinu.  Með því að spyrja spurninga í upphafssetningunum held ég áfram að vera á persónulegu nótunum þar sem ég tala beint til lesandans. Sérfræðingar í hönnun námskeiðslýsingar mæla með því að þátttakendur viti hvað þeir muni græða á námskeiðinu eða gefa upp lokamarkmið t.d.:

Geta talað um hversdagleg/mikilvæg/persónuleg málefni s.s. veðrið, ferðalög, minningar,     fréttir daglegs lífs ,hafa sett þér persónuleg markmið í íslenskunni, hafa skerpt á framburði, setningarfræði og grundvallarmálfræði í íslensku.

Fókusinn er á þátttakandanum sem ég vil fá á námskeiðið mitt og innihaldi námskeiðsins. Hér er athyglin ekki á mér kennaranum/námskeiðshaldaranum heldur er vænlegt að hafa 15-20 orð um praktíska reynslu og/ eða áhuga  í tengslum við efnið. Ég notaði 40 orð til að lýsa mér og mínum bakgrunni. Sjálfsagt þurfa orðin að vera fleiri á íslensku þar sem enskumælandi námskeiðshaldarar komast upp með að nota færri orð! Að lokum er mælt með því að skáletra upplýsingar um tímabil námskeiðsins, tíma, stað, verð og skráningu.  Ekki er mælst til þess að feitletra verðið.

Það var áhugavert og lærdómsríkt að lesa sér til um þá þætti sem námskeiðshaldari þarf að hafa í huga við gerð námskeiðslýsingar/auglýsingar og komu að góðu gagni við gerða auglýsingarinnar.

 

Auglýsingin verður  á ensku, pólsku, arabísku, þýsku, lettnesku, litháísku, lettnesku, rússnesku, Tagalog,spænsku, frönsku, portúgölsku og tyrknesku. 

 

 

Heimildir

Instructor Tip Sheet #1 Writing Effective Course Descriptions  sótt af vef 20.mars 2016 http://www.edinaschools.org/cms/lib07/MN01909547/Centricity/Domain/45/Instructor%20Tip%20Sheet.pdf

9 Tips for Continuing Education Course Description Formats sótt af vef 2. apríl 2016 http://blog.lern.org/blog/bid/127410/9-Tips-for-Continuing-Education-Course-Description-Formats

Five Tips For Writing Online Course Descriptions That Sell (Udemy Course Lecture) Sótt af vef 19. mars 2016 https://www.youtube.com/watch?v=IFA9yDFrYiE

 

 

Skildu eftir svar