Við upphaf námskeiðs er svo sannarlega að mörgu að hyggja. Í þessu bloggi mínu langar mig til að segja ykkur í mjög grófum dráttum hvernig tilhögun fyrsta morgunsins er hjá mér og hvaða þátta ég huga að með tilliti til skipulags í stofunni, væntinga þátttakenda o.fl. til þess að vel takist til. Bloggið gæti hugsanlega frekar höfðað til þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í kennslu með fullorðnu fólki þar sem ég nefni nokkra þætti sem reyndum kennurum gæti þótt sjálfsagðir. Þegar fólk er að fóta sín fyrstu skref í fullorðinsfræðslu þá má ekki gleyma að það sem reynsluboltum gæti þótt sjálfsagt vegna áunnar reynslu þarf ekki að eiga við í tilfelli nýliða.
Aðeins um upphafið
Síðastliðið eitt ár eða svo hef ég fengið að takast á við það skemmtilega verkefni í Mími símenntun að þróa talhópa fyrir útlendinga/innflytjendur sem eru á stigi 2-4 í íslenskunni. Að þeir séu á þessum stigum merkir að allir eru búnir með stig 1 og 2 en flestir eru á stigum 3 og 4 . Stigin segja til um það hvort þú sért byrjandi eða lengra kominn en þeir sem eru á stigi 1 kunna jafnvel ekkert í íslensku. Ég hafði verið að kenna stig 1-4 í tæp fjögur ár þegar ég fann að mér fannst veruleg þörf á því að þjálfa þátttakendur í íslensku tali og áttaði mig á áhuga fyrir slíkum námskeiðum hjá útlendingum.
Upphaf námskeiðs er alltaf spennandi en á sama tíma getur það verið nokkuð viðkvæmur tími, þar sem bæði þátttakendur og kennari geta fundið fyrir stressi. Ég viðurkenni það fúslega að ég var stressuð fyrir fyrstu námskeiðin sem ég kenndi fullorðnum innflytjendu fyrir rúmum fimm árum síðan. Streitan einkenndist aðallega af svefnleysi fyrir fyrsta námskeiðsdaginn! Ástæðan var sjálfsagt sambland af reynsluleysi en með tímanum og aukinni reynslu lærist manni svo ótalmargt og þá helst að „tækla“ nýjar og óvæntar aðstæður.
Að sjálfsögðu er það í okkar höndum, kennara, að hjálpa nemendum/þátttakendum á námskeiði að komast yfir upphafsstressið sem allra fyrst. Athafnir okkar í byrjun skipta sköpum og einnig hvernig við undirbúum námsumhverfi þeirra sem koma til okkar.
Eins og Hróbjartur hefur talað um oftar en einu sinni á þessu námskeiði þá skiptir gífurlega miklu máli að taka frá tíma fyrir upphaf og endi strax við skipulagningu námskeið og það þarf alltaf að reikna með tíma í þessa hluta.
Örlítill tékklisti
Áður en þátttakendur koma inn í stofuna mína hef ég farið yfir ákveðin atriði sem ég tel vera mikilvæga rútína til þess að allt sé eins og það á að vera. Ég er búin að kanna hvernig hitastigið er í stofunni, ef loftið er þungt lofta ég vel út. Hef það alltaf fyrir reglu að mæta cirka 40 mínútum áður en tíminn byrjar til að undirbúa stofuna. Sá undirbúningur felst í því að lofta út eða ef það er kalt inni í stofunni að hækka hitann þannig að hitastigið sé eðlilegt. Það er þó alltaf nauðsynlegt að spyrja þátttakendur hvernig þeim líður með hitastigið því ég get ekki einugis miðað hitann útfrá mér. Hitakerfi fólks er jú æði misjafnt. Ef einhverjum einum finnst t.d. of kallt í stofunni þá þarf að taka tillit til þess og loka glugga/gluggum. Hafið þetta í huga. Augljóst merki um þetta er t.d. ef einhver fer í úlpuna sína og er í henni! Þvínæst skrifa ég skipulags morgunsins í vinstra hornið á töflunni. Þar skrifa ég Skipulag dagsins og merki frá 1.- 7/8. Ef við förum fyrst í upprifjun þá skrifa ég 1. Upprifjun, 2. Segðu frá frétt, 3. Tölum saman o.s.frv. Í hægra horninu skrifa ég Heimavinna en ég gef alltaf kost á heimavinnu á námskeiðinu mínu fyrir þá sem vilja. Eftir að ég hef skrifað á töfluna athuga ég með tölvuna og geng einnig úr skugga um að skjávarpinn virki ef ég ætla að nota hann. Borðum og stólum er raðað upp útfrá því hvernig ég ætla að vinna með þátttakendum og einnig er gott að setja bækur, blöð eða spil á einn stað í stofunni ef það á að nota þess háttar námsgögn.
Líðan alveg í upphafi
Ég byrja á því þegar þátttakendur mæta að fá þá til að merkja með punkti við viðeigandi broskall hvernig þeim líður (sjá mynd hér fyrir neðan). Með þessu móti sé ég hvernig fólkinu mínu líður í upphafi. Einn nemandi talaði t.d. um það að fyrra bragði fyrsta námskeiðsdaginn (7.mars) að henni liði ekki nógu vel því hún hafði sofið illa um nóttina vegna kvíða fyrir námskeiðið. Ég hafði þá tækifæri til að hughreysta hana og segja henni að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur því hún væri komin á góðan stað og hér væri engin pressa. Það getur verið góð leið að kanna líðan þátttakenda fyrsta dag námskeiðs og aftur síðasta námskeiðsdaginn. Með þessu móti getur kennarinn metið líðan í upphafi og við enda námskeiðs.
Það er oft talað um að kennarinn hafi mikil „völd“ og situr við stjórnvölinn í kennslustofunni. Vissulega er þetta rétt þar sem hann ber ábyrgð á því að þátttakendum sé boðið uppá öruggt og gefandi námsumhverfi þar sem fólk fær fjölmörg tækifæri til að prófa sig áfram í nýja málinu (í þessu tilviki).
Hvernig eru þessar námstýpur?
Þá þarf kennari einnig að hafa í huga í framhaldinu að þátttakendur eru misjafnir eins og þeir eru margir og læra á ólíkan máta. Hver og einn hefur sinn námsstíl. Hægt er að skipta þörfum fullorðinna námsmanna (þegar kemur að því hvernig þeir vilja hafa námið skipulagt) í þrjá meginflokka en auðvitað ber að varast að alhæfa eða setja merkimiða á fullorðið fólk! Þetta er þó áhugaverð skipting hjá Conti og Kolody og hægt að hafa hana til hliðsjónar við skipulagningu kennslu. Sumir þátttakendur eru mjög stefnufastir og vilja fara ákveðna leið og fylgja henni. Þess háttar námsmenn vilja skýrt skipulag, skýr verkefni og allar tímasetningar (tímarammar) þurfa að vera á hreinu. Aðrir eru lausnamiðaðir þ.e.a.s þeir velja sér eigin leiðir, hafa þörf fyrir að segja sögur, nota dæmi og eiga það til að fresta. Áhugadrifnir námsmenn einfaldlega elska að læra, þeir læra best á bólakafi í sínum verkefnum, vilja tengjast öðrum þátttakendum, námið þarf að vera skemmtilegt og þessum námsmönnum getur auðveldlega leiðs ef námsefnið höfðar ekki til áhugasviðs þeirra. Það getur verið skemmtilegt fyrir þig sem lest þessi orð að hugsa t.d. út frá þér sjálfri/sjálfum undir hvaða flokk þú sérð þig.
Aðeins meira um upphafið
Fyrsta daginn ætlum við að kynnast svolítið og skapa andrúmsloft sem byggist á vinsemd, öryggi og virðingu. Fólki þarf að líða vel sem er í nýjum aðstæðum og með nýju fólki og því er mikilvægt að kennarinn sé vinalegur og hlýlegur og ekki er verra að hafa smá húmor með í farteskinu. Þátttakendur byrja á því að merkja hvernig þeim líður. Þvínæst kynni ég mig og þau kynna sig stuttlega með nafni og segja hvað þau eru búin að búa lengi á Íslandi. Síðar þennan morgun verða þau í pörum með lengri kynningu á hvort öðru. Eins og fram hefur komið í öðru bloggi frá mér er gott að byrja námskeið á reynslusögu. Ég byrja t.d. oft mín námskeið á því að segja þátttakendum frá minni reynslu af því að vera innflytjandi í Svíþjóð og hafi farið á nokkur sænskunámskeið þar. Ég þekki á eigin skinni tilfinninguna að skilja ekki og pirringinn sem gerjast í því en síðar gleðina sem felst í því að byrja að skilja nýja málið og í framhaldinu nota það. Með þessu móti brýt ég ísinn og segi þeim að ég hafi verið í þeirra sporum s.s. hinum megin við borðið. Ég tala hvorki um gráðurnar mínar úr háskóla, né hvað ég hef afrekað í lífinu, það skiptir engu máli hér. Við tölum frekar um reynslu. Til hvers að tala um sameiginlega reynslu? Jú, því hún hjálpar okkur að mynda tengsl og þannig myndast smám saman traust. Eftir þetta spjall ræði ég praktíst atriði við nemendur. Þau þurfa að vita hvar þau geta lagt bílnum sínum (ef þau eru á bíl), hvar má reykja fyrir utan húsið, s.s. hvar stubbahúsið er (ef við á), fer með þau í smá rúnt um Mími og sýni þeim hvar þau geta keypt sér kaffi, hvar snyrtingin er og hægt er að kaupa sér snarl. Síðan komum við aftur inní stofuna.
Kynnumst betur
Þegar við erum búin að fara yfir praktísku atriðin er kominn tími til að kynnast aðeins betur. Við byrjum á þankahríð í sameiningu og ég skrifa hugmyndir fólksins upp á töflu – alls konar spurningar sem við notum þegar við kynnumst. Á þennan hátt get ég skoðað íslenskuþekkingu þátttakenda á námskeiðinu og metið hvaða grunn þau hafa – og reynslu. Eftir að hafa skrifað heilmargar spurningar á töfluna velja þátttakendur a.m.k átta spurningar og spyrja sessunaut sinn. Hér verður svo oft til lifandi og skemmtilegt andrúmsloft og þetta spjall tekur allt upp í hálftíma. Síðan kynna þau sessunaut sinn (bara í sætunum sínum en sumir vilja gjarnan koma upp að töflu og þá er það snilldin ein – gott ef fólk þorir að brjótast úr úr þægindarammanum sínum). Í byrjun námskeiðs getur verið gott að hafa athyglina á öðrum en manni sjálfum þ.e.a.s það getur verið léttara að segja frá öðrum þegar feimnin er jafnvel hvað mest. Hér notar fólkið spurnarorð líkt og „hvað?“, „hvenær?“, „hvaðan?, „hvernig?“ o.fl. því þau kalla á opin svör. Það er þarft að spyrja opinna spurninga (sem við gefum mikið af á þessu talnámskeiði mínu!) en ekki spurninga sem hægt er að svara með já eða nei (lokaðar spurningar) ef þú vilt að þátttakendurnir bæti við tungumálakunnáttu sína. Almennt þegar við vinnum í framhaldinu með opnar spurningar þá er þarft að hafa í huga að spyrja spurninga sem byggja á reynslu og áhugasviði þátttakendanna svo samræðurnar verði áhugaverðar og við hæfi. Eðlileg venjuleg samtöl geta einkennst af eyðum og hiki og það er allt í góðu. Fólk þarf að finna að það getur tjáð sig eðlilega og frjálslega á talnámskeiði. Eftir að hver og einn hefur kynnt sessunaut sinn klöppum við fyrir því og skoðum næst væntingar þátttakenda til þessa námskeiðs.
Öruggt námsumhverfi og væntingar í byrjun
Öruggt námsumhverfi er forsenda þess að fullorðið fólk hefji og stundi nám að einhverjum tagi. Þá má ekki gleyma að nám fullorðinna þarf að hafa tilgang því ef það hefur hann þá er nokkuð öruggt að áhuginn fylgir með. Hér spilar því áhugasvið fullorðinna gríðarlega miklu máli og því einstaklega mikilvægt í upphafi að kanna hvar áhuginn liggur og byggja á honum. Eftir að ég byrjaði að kynna mér andragogyu eða fullorðinsfræðslu hef ég haft það sem rútínu á mínum talnámskeiðinu að fá þátttakendur til að skrá niður og segja mér og samnemendum frá væntingum sínum til námskeiðsins í byrjun. Það er gaman að segja frá því að þessa nálgun lærði ég á námskeiðinu Nám og aðstæður fullorðinna á síðustu önn. Þá útlistar fólk hvað það vill læra á námskeiðinu ( í raun hvað það vill fá útúr þessu fimm vikna talnámskeiði), hvernig því finnst best að læra og hvar áhuginn þeirra liggur (hver eru áhugmál þín/hvað finnst þér gaman að gera?). Í framhaldinu er ég komin með gróft yfirlit yfir það hvað þátttakendur vilja fá útúr námskeiðinu, hvernig þeir læra best og hvar áhugi þeirra liggur. Ég mæli með þessu fyrir þá sem hafa ákveðinn „slaka“ á sínum námskeiðum ef þið skiljið hvað ég meina. Nemendur fá í upphafi námskeiðs (í 1.tíma) námskeiðslýsingu og yfirmarkmið en þeir fá að vita að markmiðin munu taka breytingum með tilliti til þeirra eigin markmiðssetningar. Markmiðssetning, hugleiðingar og mat á því sem maður er búinn að læra eru góðar aðferðir til að skilgreina væntingar og námsárangur í byrjun. Ekki má heldur gleyma við upphaf að ef fyrri reynsla af námi eða reynslan af náminu núna er neikvæð getur það haft mikil áhrif á árangurinn. Tilfinning fyrir árangri skapar jákvæða og góða ímynd af námi, en bara það að hafa sjálfur trú á eigin hæfileika er ekki alltaf nóg. Væntingar kennarans til þátttakandans skipta einnig miklu máli varðandi námsárangurinn. Kennarinn þarf að hafa skýrar, en raunsæjar væntingar til hvers einasta þátttakanda. Þegar þátttakendur hafa möguleika á að sýna hvað þeir kunna, upplifa framfarir og eru teknir alvarlega verða þeir áhugasamari um að standa sig. Allir þurfa að finna til sín, hver á sinn hátt. Þegar kennsla er skipulögð þannig að samskiptin eru raunveruleg og þátttakendur geta notað það sem þeir kunna eykst áhuginn og námið hefur tilgang. Nemendurnir eru virkir og taka mikinn þátt í námsferli sínu. Raunveruleg og gagnleg þátttaka skiptir fullorðna þátttakendur megin máli.
Blossinn í blálokin
Í lok dagsins er góð leið að enda á „blossanum“. Þá spyr kennarinn „hvað lærðir þú í dag? – nefndu eitthvað eitt“/“hvað tekur þú með þér eftir þennan morgun?“. Með þessu móti fá þátttakendur tíma til að meta og/eða ígrunda stuttlega það sem þeir lærðu og kennarinn getur metið hvað þátttakendur námu þann daginn. Að endingu er vert að minna á að þegar kemur að því að velja aðferðir og tækni sem henta hverju sinni í kennslunn þá er sjálfsþekking kennarans, þekking hans á því hvernig nemendur hans læra á sem farsælastan hátt, samhengi námsefnis við veruleikann og aðstæðurnar sem skipta sköpum.
Nokkur góð og gagnleg ráð í framhaldinu
- Þegar við hittumst síðan næst eru eftirfarandi þættir mikilvægir: 1) Að byrja daginn á upprifjun 2) Kynntu nýtt efni í litlum skömmtum og fáðu þátttakendur til að þjálfa sig í því sem lagt er fyrir. 3) Spurðu opinna spurninga og kannaðu viðbrögð þátttakenda 4) Vertu með sjónrænar stoðir/myndir/ módel. 5) Leiðbeindu og gefðu dæmi áður en nemendur byrja að vinna með efnið. 6) Kannaðu skilning. 7) Obtain a high success rate 8) Bjóddu uppá „vinnupalla“ (e. scaffolds) fyrir erfið verkefni. 9) Farðu fram á og fylgstu með sjálfstæðri framkvæmd. 10) Virkjaðu nemendur í vikulegri eða mánaðarlegi endurskoðun.
Heimildir
Galbraith, M. (2004). Adult learning methods: a guide for effective instuction (9.kafli Conti, G.J., & Kolody, R.C. Guidelines for Selecting Methods and Techniques ). Malabar, Fla.:Krieger Pub.Co.
Gibbons, P. & Samuelsson, I. (2010). Stärk språket, stärk lärandet: språk-och kunskapsutvecklande arbetssätt för och med andraspråkselever i klassrummet. Hallgren & Fallgren: Stockholm
Hróbjartur Árnason. (2016). Hvernig velja á aðferðir? Glærur frá kennara.
Ingibjörg Kr. Ferdinandsdóttir. (2016). Eigin reynsla úr kennslu.
Mager,R,M. (1997). Preparing Instructional Objectives – A critical tool in the development of effective instruction. CEP PRESS A division of The Center for Effective Performance, Inc. Atlanta, Georgia
Rosenshine, B. (2012). Principles of Instruction Research- Based Strategies That All Teachers Should Know. American Educator 2012
Sæl Ingibjörg og takk fyrir innlegg þitt, það er gagnlegt og gott. Ég hef litla sem enga reynslu af kennslu fullorðinna, en hef mikla reynslu af kennslu á öllum stigum grunnskólans, því kemur sér vel fyrir mig að heyra af reynslu þeirra sem starfa á akrinum. Ég hef þó fulla trú á að innlegg þitt nýtist öðrum sem hafa reynsluna því við erum öll ólík og gerum hlutina á mismunandi hátt. Eins lærir maður oftast eitthvað nýtt með þvi að kynnast því hvernig aðrir vinna og framkvæma hlutina.
Áhugavert er að lesa um skiptingu Conty og Kolody um svokallaðar námstýpur því í raun sér maður strax í grunnskóla hvernig námstýpur hver og enn nemandi er. Þar skiptir líka miklu máli að skapa þannig andrúmsloft og aðstæður að nám geti farið fram en það miðast oft við að halda uppi ákveðnum aga og leitast við að koma til móts við þarfir hvers og eins.
Bestu kveðjur og gangi þér vel,
Þórgunnur
Takk kærlega fyrir þetta Ingibjörg, þetta er mjög gagnleg lesning.
Ég hef ekki markvisst verið að kenna á námskeiðum og hef einmitt verið að huga að hvernig best er að hafa upphafið á námskeiðinu mínu. Þetta gagnast án efa í þeirri vinnu og mjög gott að fá innsýn í hvernig þú, svona reyndur kennari fullorðinna, skipuleggur þig.
Ég hef einmitt gert ráð fyrir að þátttakendur myndu kynna sig og gera grein fyrir væntingum, reynslusögu og kanna líðan – en á eftir að útfæra það frekar.
Kveðja,
Hildur
Sæl Ingibjörg og kærar þakkir fyrir þetta framlag.
Mér finnst það mjög hjálplegt þar sem ég hef litla sem enga reynslu af því að kenna fullorðnum. Sérstaklega finnst mér gott að geta tengt þetta við þá reynslu sem ég hef af því að kenna börnum og unglingum og er núna 🙂 að vinna að því að nýta þá reynslu og það sem ég hef verið að lesa um fullorðinsfræðslu til að skipuleggja námskeiðið mitt.
Kv. Sólveig
Sæl Ingibjörg og kærar þakkir fyrir gott blogg 🙂
Hér er margt áhugavert sem þú bendir á. Já upphafið skiptir svo sannarlega máli og getur hreinlega skipt sköpum fyrir framgang námskeiðsins. Mér fannst athyglisvert þar sem þú kemur inn á það hversu mikilvægt er að huga að aðbúnaði öllum með góðum fyrirvara. Stofunni, hitastiginu, kennslugögnum og tæknimálum. Allt þetta verður að vera á tæru fyrir hverja kennslustund. Það er afar þýðingarmikið. Námstýpurnar og hversu ólík við erum er nauðsynlegt að hafa á bak við eyrað þegar skipuleggja á námskeið fyrir fullorðna. Þá er líðan þátttakenda mjög mikilvægur þáttur og eitthvað sem við leiðbeinendur verðum alltaf að hafa í huga. Það fer nefnilega ekki fram neitt nám ef um mikla vanlíðan er að ræða hjá þátttakendum. Ég á sko sannarlega eftir að nýta mér ýmislegt fyrir námskeiðið mitt sem þú bendir á.
Kærar þakkir fyrir og bestu kveðjur,
Sigfríður