Röð atburða í kennslu

rod

ATH þessi texti er í vinnslu…

Pælingar um það hvernig maður raðar efni upp þegar maður skipuleggur nám fyrir aðra geta verið ótrúlega spennandi og við hvert skref er hægt að skoða marga möguleika. Kennslufræði – eða það fag sem sem Evrópubúar kalla „didaktík“ – snýst um hugmyndir um- og rökstuðning fyrir því hvernig maður skipuleggur kennslu. Hún býður alls konar meginreglur sem geta hjálpað fagmanninum að velja og rökstyðja val sitt, en það væri blekking að halda því fram að til væru „patent“ lausnir og að við gætum svarað spurningunni í 5 eða 7 auðveldum skrefum. Aftur á móti er skynsamlegt að nýta sjónarmið, meginreglur (principles) og viðmið sem geta upplýst vinnu fagmannsins. Því fullorðinsfræðarinn er fagmaður, sérfræðingur i því að skipuleggja og leiða námsferla sem stuðla að námi: Varanlegum breytingum á þekkingu, hæfni og eða viðhorfum þátttakenda. Fagmennska þessi er studd af í ákvörðunum sínum og rökstuðningi af rannsóknum og kenningum úr mörgum rannsóknasviðum svo sem námssálarfræði, félagsfræði og heimspeki.

Á grundvelli þessa fræðilega bakgrunns hefur fólk gjarnan komið sér saman um svo kallaðar kennslufræðilegar meginreglur („didaktische Prinzipien“, „Learrning Principles“) sem geta upplýst ákvarðanir og rökstuðning fagmannsins.

Vangaveltur um uppröðun þátta á námsferli geta snúist um atriði sem má flokka í að minnsta kosti tvö svið: Athafnir/atburði og aðferðir annars vegar og innihald hins vegar. Þannig spyrja menn sig: „Hvernig byrja ég námskeið?“ Hvað gerist næst? Byrja ég á að vekja áhuga á efninu, eða hjálpa þátttakendum að kynnast?  „Hvernig blanda ég saman aðferðum'“ Byrja ég á leik, eða fyrirlestri, einstaklingsvinnu eða hópavinnu? … og hvað svo? Sömuleiðis má spyrja um innihald: Byrja ég á „byrjuninni“ eða „niðurstöðunni“ gef ég þátttakendum gróft yfirlit yfir fræðasviðið eða efni námskeiðsins eða byrja ég á því að kafa á dýptina á einu atriði til að gefa þátttakendum dæmi um áhugaverða spurningu sem skiptir máli á námskeiðinu?

Þessum spurningum þurfum við að svara fyrir hvert einasta námsferli sem við skipuleggjum og stýrum og meginreglur, rannsóknir og kenningar nýtast okkur til að taka ákvarðanir og rökstyðja þær. Byrjum á því að skoða Hvernig við getum raðað saman atburðum og aðferðum – slíkar pælingar gefa okkur nokkurs konar beinagrind eða ramma sem við getum síðan fyllt út í með innihaldi.

Hér á eftir fara nokkrar pælinga um uppröðun atriða á násmkeiði. Eins og er eru þetta aðallega hugmyndir mínar byggðar á reynslu og uppsafnaðri þekkingu, en ekki fræðilega skipulagður texti.

Upphaf, miðja og endir

Ætli það sé ekki þekktasta form eða uppbygging á fyrirbæri að gefa því upphaf, miðju og enda: Höfuð, búk og hala. Forrétt, aðalrétt og eftirrétt. Forstofu, hýbýli og útgang. Inngang meginefni og niðurstöðu. Það má færi fyrir því mörg góð rök að við séum vel undirbúin að mæta nýjum fyrirbærum á þennan hátt. Námsferli hlýtur að hefjast einhvern vegin og enda á tiltekinn hátt. Miðjan snýst um innihaldið, vinnuna, ávinninginn af þátttökunni, það efni og /eða hæfni sem við tökum með okkur heim að ferlinu loknu.

Gagne9atburdir Kennslu

Níu atburðir Gagné

Níu atburðir kennslu sem Robert Gagné kynnti til sögunnar eru trúlega ein þekktasta leiðin til að hugsa um skipulagningu námsferla. Hann sá fyrir sér 9 atburði sem borgaði sig að fara í gegnum þegar maður vill hjálpa fólki að læra. Skoðum þá alla í röð:

1) Ná athygli

Segja má að allt nám hljóti að byrja á athygli. Það sem við veitum athygli getur haft áhrif á okkur og við náum að vinna með það. (Undantekining: Vissulega lærum við margt án þess að veita því athygli. Lærdómur sem byggir á áreiti og viðbrögðum (stimulus – responce) getur leitt til breytinga á hegðun og getur jafnvel komist upp í vana. Margir ávanar verða til án þess að maður veiti því sérstaka athygli. En það er örugglega forsenda náms (skipulagðrar vinnu með þeim tilgangi að auka þekkingu eða hæfni) að veita því athygli sem maður ætlar sér að læra. Kennari sem ætlar að hjálpa hópi fólks að læra eitthvað þarf því að gera eitthvað til að ná eða grípa athygli þáttakenda námsferlis.

Það eru nokkrir hlutir sem mætti skoða hér. Eins og hvað það er sem dugar til að ná athygli fólks. Við könnumst örugglega við að nýjung, breyting eða eitthvað óvænt vekur gjarnan athygli. Sömuleiðis atriði sem eru einhverja hluta vegna á „óskalistanum“. Þegar við eru svöng – eða matmálstími nálgast – þá tökum við frekar eftir mat en ella. Vikurnar eftir að við kaupum nýjan bíl sjáum við samskonar bíla úti um allt. Hlutir sem tengjast áhugamálum okkar,virðast gagnlegir eða svara þörf, hvort sem hún er persónuleg eða tengd vinnunni geta vakið athygli. Þetta og annað sem við vitum um athygli ættum við að nýta okkur þegar við viljum ná athygli nemenda okkar.

Hvað gerir  Hank Green í þessu myndbandi til að fá áheyrandann til að hlusta?

Að hverju ætti athyglin að beinast? Eitt sem við vitum um fullorðna námsmenn almennt er að þeir eru uppteknir, hafa margt á sinni könnu og meta þess vegna tíma sinn mikils. Þar af leiðandi má ætla að það skipti máli að draga athygli þeirra að hlutum sem tengjast náminu sem framundan er og þáttum sem geta stutt við þetta nám. Þar mætti nefna atriði sem gefa til kynna að það sem þátttakendur muni læra með því að fara í gegnum námsferlið muni gagnast þeim. Að reynslan verði ánægjuleg og að þú, sem kennari – leiðbeinandi eða fararstjóri, hafir vit á því sem er til umræðu eða getir amk. leitt hópinn „að grænum grundum“ eða að innihaldi og reynslu sem geti hjálpað þátttakendum að ná markmiðum sínum og koma ríkari frá reynslunni en þeir komu til hennar. Það er margt sem bendir til þess (Kannski er það bara heilbrigð skynsemi) að fólk lærir frekar hluti sem það trúir og það trúir frekar fólki sem það treystir og álítur trúverðugt.

Aðferðir sem gætu nýst í upphafi til að ná athygli þáttakenda eru margar og val þeirra byggir vissulega á tilgangi, innihaldi og samhengi námsferilsins en það er algengt að hvetja kennara og aðra ræðumenn til að opna með einhvers konar „kveikju“. Það getur verið stutt kynning, eða vinna einstaklinga eða hópa sem dregur athygli þátttakenda að viðfangsefni námskeiðs og fær þá til að takast á einhvern hátt á við innihaldið og hvernig það tengist þeim sjálfum.

Sjá sérstaka færslu um upphaf námsferla

Gagnlegar aðferðir til að nota í upphafi gætu verið:

1-2 og allir (þar sem þátttakendur vinna fyrst einir með spurningu frá þér, síðan 2-4 saman í litlum hópum og að lokum er umræðan færð yfir í allan hópinn. Þannig má spyrja um væntingar til námskeiðs, viðhorfum eða miðlægum þáttum í á viðfangsefni

Hóphugarkort: Þátttakendur búa til sameiginlega mynd af því sem þeir vita þegar um viðfangsefni dagsins eða ákveðna þætti þess: Það mætti spyrja „Hvaða reynslu hafið þið af X“ eða „Hvað finnst ykkur skipta máli þegar…“

Myndskeið: Það má syna myndband sem sýnir dæmi um viðfangsefnið, niðurstöðu, vel heppnaða útfærslu af því sem á að kenna eða sem útlistar vandann, eða aðalatriði viðkomandi málefnis eða fyrirbæris.

Segja sögu: Sögur eru frábær leið til að ná til fólks, grípa athygli þeirra og hjálpa þeim til að muna. Mannkyn vandi sig á að geyma þekkingu og visku kynslóðanna í sögum. Grímsævintýrin og margar sögur gamla testamentisins eru góð dæmi um sögur sem geyma upplýsingar um það hvað það er að vera manneskja og sem hjálpar fólki að takast á við lífið. Söguformið virðist hafa áhrif á marga þætti náms, hugsunar og minnis þannig að það reynist okkur auðvelt að muna þær og draga lærdóm af þeim. Persónuleg saga, klípusaga eða reynslusaga gæti þannig gripið athygli þátttakenda í upphafi og jafnvel gefið þeim beinagrind til að hengja á, nýja þekkingu sem safnast saman yfir dagana.

Sýna dæmi: Dæmi geta verið kjörin til að grípa athygli og skapa löngun til að læra það sem námsferlið snýst um. Þú gætir byrjað á að sýna niðurstöðuna: „Þegar þessi tími er búinn munið þið geta…  bakað svona köku, klippt þessa klippingu, smíðað svona skáp“

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um atriði / aðferðir sem má beita í upphafi til að gípa athygli þáttakenda. En þegar athyglinni er náð tekur alvaran við og þá er um að gera að skaða raunhæfar væntingar um framhaldið.

2) Útskýra Markmið

Oftast nær hafa námsferli tiltölulega skýran tilgang og markmiðin eru vel skilgreind. Námskeið getur verið útfærsla eða hluti af tiltekinni námskrá sem er samin af öðrum og er hluti af námi, námsleið eða leið að tilteknu skírteini. Á hinum öfganum getur námskeið verið opið í báða enda… yfirmarkmið getur verið að hjálpa fólki að komast lengra með tiltekna hæfni, eins og að mála með olíu, eða leika á hljóðfæri eða elda hollari mat eða nota Word við ritvinnslu. En spurningin um það hvernig málverk, tónverk eða uppskriftir verða notaðar eða nákvæmlega hvaða aðgerðir í ritvinnslu verða æfðar og hvaða færni verður þjálfuð sérstaklega þarf ekki endilega að vera ljóst fyrr en þátttakendur hafa safnast saman og rætt saman um eigin væntingar og þarfir. – Það þykir t.d. ákaflega mikilvægt þegar maður vinnur með fullorðnum námsmönnum að tryggja það að þeir hafi áhrif á markmiðssetningu námsferlis að einhverju leiti, enda er ákaflega algengt að fullorðið fólk horfi til þess að geta nýtt það sem það lærir við tiltekin störf í vinnu eða á heimili. Þannig að ef þeir hafa hönd á plóginum hvað markmiðssetningu snertir eru meiri líkur á áhuga og gagnlegu námi.

Vissulega þarf kennari eða sá sem skipuleggur námskeiðið að hafa lagt mikla vinnu í að ákveða og velja markmið fyri námsferlið og i upphafi er nauðsynlegt að fara yfir þau en eftir aðstæðum, tilgangi og samhengi er rétt að finna leiðir til að virkja þátttakendur í tengslum við umræður um markmið.

  1. A) Þegar markmið námsferlis eru kynnt getur verið gott að leggja áherslu á að tala um það hverju þátttakandi verður nær að námskeiði loknu – eða kennslustund: Það getur verið jafn gagnlegt að hafa skýra hugmynd um það sem tiltekin kennslustund / kafli / módúll námskeiðs snúist um eins og heilt námskeið. Þar má telja upp og útskýra hvað þátttakandinn mun vita og geta/kunna þegar ferlið er búið. Ef námsferlið endar með namsmati er rétt að útskýra hvaða þekking og færni verða metin og hvernig.
  2. B) Það eru til margar leiðir til að fá þátttakendur til að vinna með markmið sín. Einföld leið sem ég nota mikið er að fá þátttakendur til að skrá og vinna með væntingar sínar til námskeiðsins. Þar nota ég gjarnan hóphugarkort eða aðferðina 1-2 og allir en það er til fjöldi annarra líka.
  3. C) Í tengslum við markmiðin getur verið rétti tíminn líka til að ræða aðferðir sem verða notaðar á námskeiðinu.

3) Rifja upp forþekkingu

Það eru margar ástæður fyrir því að hjálpa þátttakendum til að rifja upp það sem þeir vita þegar um námsefni námsferilsins. Einna skírasta ástæðan liggur í því að þegar við lærum nýja hluti reynist það auðveldast þegar við getum tengt hið nýja við eldri þekkingu. Þegar fólk þarf að læra alveg nýja hluti fer mikil orka i að gefa henni form eða beinagrind og það ferli hægir á námi og veldur jafnvel óöryggi. Aftur á móti ef námsmaður veit hvernig nýja efnið tengist því sem hann/hún veit fyrir og hvort það sé viðbót við eldri þekkingu eða andstætt henni, þannig að hann þurfi að aflæra hið gamla auðveldar námið, reynist auðveldara að bæta nýju við. Sömuleiðist getur það virkað hvetjandi að upplifa að maður viti þegar heilmikið um viðfangsefnið og það verði því létt verk að bæta við nýju. Þegar námsmaður gerir sér grein fyrir stærra samhengi þess sem hann er að læra, gerir sér gein fyri gagnsemi þess eða sér hvernig námsefnið tengist eigin reynslu hans verður auðveldara að vinna nýju þekkingunni stað í minninu og sjá fyrir sér hvernig hún muni nýtast á hagnýtan hátt.

Aðferðir fyrir þessa vinnu eru margar, þar koma fyrst í hugann: Umræður, kortaspurningar, hópaumræður, hugarkort, þankahrið, 1-2 og allir eða kallspurning.

4) Kynna innihald

Öll skipulögð námsferli snúast um það að auka þekkingu og/eða færni þátttakenda á einhvern hátt og jafnvel að gefa þeim tækifæri til að vinna með viðhorf sín í leiðinni. Það þýðir að hluti af vinnu þátttakenda er að takast á einhvern hátt við upplýsingar og búa til nýja þekkingu í gegnum þá vinnu. Við erum vön því að það sé kennarinn – eða einhver sérfræðingur sem kemur inn á námskeið/námsferli – sem miðlar upplýsingum munnlega og/eða myndrænt. Þetta á örugglega uppruna sinn í sagnahefðum mannkyns og síðar prédikununum og miðlunarhlutverkum presta og svo kennara, sem gjarnan voru þeir fáu sem bjuggu yfir þekkingu og miðluðu af henni til annarra. Með því að safna mörgum saman á sama tíma var hægt að miðla sömu upplýsingum til margra á sama tíma. Tímarnir hafa breyst á margan hátt. Nútíma tækni hefur t.d.  leitt til þess að gífurlegt magn upplýsinga er aðgengilegt flestum jarðarbúum næstum hvar og hvenær sem er. Ný og vel staðfest þekking á því hvernig fólk lærir hefur undanfarna áratugi einnig ítrekað undirstrikað fullyrðingar marga heimspekinga fá fyri tímum um að fólk læri best með því að vinna sjálft með upplýsingar eða fyrirbærið sem það vill læra. Þess vegna er það ákaflega spennandi verkefni þess sem skipuleggur nám fyrir aðra, að ákveða hvernig upplýsingum verður miðlað til þátttakenda í því augnamiði að þeir læri sem mest og sem best. Kennarinn þarf að spyrja sig hvenær er gagnlegt að halda fyrirlestur og útskýra upplýsingar og/eða tala við þátttakendur um innihaldið og hvenær er gagnlegt að láta þá sjálfa afla upplýsinganna og vinna úr þeim eða hvernig áhugaverð blanda af báðu gæti litið út.

Að sjálfsögu eru til ótal leiðir til þess að koma innihaldi á framfæri. Fyrirlestrar eru kannski það fyrsta sem okkur dettur í hug. Að dreifa útprentun af PowerPoint glærum er trúlega það næsta sem manni gæti dottið í hug, enda mjög algengt… EN það er alveg þess virði að velta fyrir sér hvort og hvenær fyrirlesturinn er gagnlegur og hvort PowerPoint sé sniðugur miðill fyrir prentað mál. ETV væri gagnlegra að setja sömu upplýsingar fram sem hugarkort eða samfellt mál í texta… sem bloggfærslu eða litinn bækling sem þátttakendur fá í hendur. Þetta á sérstaklega vel við um tölur: Ég sé t.d. fyrir mér áheyrendur sem hafa í höndum sér skýra töflu með mörgum tölum sem liggja einhverju máli til grundvalla í stað þess að þurfa að rýna í slíkar tölu á skjá… (Sjá gagnrýni Edward Tufte á ofnotkun PowerPoint). Hvenær passar best að halda, flytja eða láta þátttakendur hlusta á fyrirlestra? Er það á þeim tíma sem hópurinn er á sama tíma á sama stað eða gæti það gefið betri árangur að taka upp myndskeið þar sem efnið er útskýrt og þátttakendur hlusta og horfa þegar þeim hentar? Læra þátttakendur mest þegar kennarinn heldur fyrirlestra eða þegar nemendur gera það sjálfir… Hvernig væri að láta nemendur lesa námsefnið og útskýra hver fyrir öðrum (sbr. t.d. Pússlaðferðin). Öll þekkjum við margar leiðir til að miðla innihaldi svo sem títtnefnda fyrirlestra, sýnikennslu, myndskeið, hljóðupptökur, bækur, greinar, kennsluefni o.s.frv. Fyrir okkur liggur að velja viðeigandi aðferðir og blanda þeim saman við aðrar sem hjálpa þátttakendum að vinna með upplýsingar þannig að þær verði að þekkingu og styðji við færni þeirra og hæfni.

5. Stuðningur við námið

Það er margt sem er hægt að gera til að styðja við námið. Í fyrsta lagi má skoða það nátengt upplýsingunum sem þátttakendur vinna með. Raunveruleg dæmi, svo kölluð „ekki dæmi“, reynslusögur, myndir og samlíkingar geta hjálpað þátttakendum að átta sig á því um hvað málið snýst og jafnvel skilja það. Þá getur skipt máli að hjálpa þeim að ná valdi á orðaforðanum sem tengist viðfangsefninu. Hugtök eru það sem við notum til að koma upplýsingum áfram og skýr hugtakanotkun stuðlar að betri skilningi. Sömuleiðis getur skipt máli að sjá, eða koma við það sem málið snýst um: Þátttakandi á auðveldara með að hnoða nægilega miklu hveiti inn í ítalskt brauðdeig ef hann fær að snerta slíkt, og krydda súpu ef hann veit hvernig vel heppnuð súpa smakkast. Það er erfitt að læra að nudda ef maður fær ekki að snerta annað fólk. Stuðningur við námið tengist því líka að nýta allar þær stoðir sem fræðslustofnun býður uppá til að styðja við nám og ekki má gleyma þeim þætti sem hefur trúlega mest áhrif á gæði og varanleika namsins en það eru samskiptin við samferðafólkið. Aðrir þátttakendur eru trúlega dýrmætustu námsgögnin á námskeiðinu: Við lærum af samferðafólki, þegar við sjáum það læra, fatta eða gera mistök. Við lærum í gegnum samskipti okkar við þau þegar við ræðum, útskýrum og prófum okkur áfram með að nota það sem við erum að læra og á svo margan annan hátt. Oft á tíðum eru það hinir þátttakendurnir sem draga hvern annan í gegnum erfiðleika, hvort sem þeir eiga rætur sínar að rekja til námsefnisins, persónulega viðfangsefna eins og vantrú á eigin getu eða hindranir og erfið verkefni í fjölskyldu, vinnu eða samfélagi. Við þekkjum öll ótal sögur af því hvernig þátttakendur hjálpa hver öðrum við námið. Af því leiðir að það er hlutverk skipuleggjandans og þess sem leiðir námsferlið að skapa þannig aðstæður að þátttakendur nái að kynnast nægilega vel til að þeir séu tilbúnir að styðja við hvern annan á þennan hátt. Allt þetta tengist svo næsta atburði Gagné og blandast saman við hann:

6. Laða fram frammistöðu

Þá er nefnilega komið að því að velta fyrir sér hvað þátttakendur í því námsferli sem þú ert að skipuleggja þurfi að gera til að ná ásættanlegu valdi á þeim upplýsingum, hugtökum og aðferðum sem tilheyra námsefninu og til að ná viðhlítandi leikni í því að beita þeim aðferðum sem þeir eru að læra. Hér þurfum við að velta fyrir okkur hvað getum við gert til að hjálpa þeim að skilja efnið, hvernig geta þeir tengt námsefnið við eigin reynslu og þann veruleika sem þeir munu nota þekkinguna eða færnina. Hvað þurfa þeir að muna og hvernig hjálpar þú þeim að muna það? Hvað þurfa þeir að geta gert að loknu námskeiði og hvaða athafnir, verkefni eða aðferðir er hægt að bjóða uppá til þess að þátttakendur geti æft sig nægilega vel til að ná leikninni sem er stefnt að í námskeiðslok?

Flokkunarkerfi Bloom kemur að góðum notum hér, það hjálpar okkur að greina, flokka og ákveða hversu langt og/eða djúpt við viljum fara með námið. Við getum spurt: „Er nóg að þátttakendur viti að svarthol séu til eða þurfa þeir að geta útskýrt hvað þau eru og hvernig þau urðu til? Þurfa þeir að geta gengið lengra og skilja hvernig þau virka í alheiminum og jafnvel hver áhrif þeirra eru á umhverfi sitt og jafnvel greint muninn á þeim og og öðrum fyrirbærum alheimsins eins og súpernóvum eða neikvæðri orku? Eða þurfa þeir að hafa svo mikið vald á þekkingunni um svarthol að þeir geti unnið á skapandi hátt með hana og hannað geimskip sem gæti nýtt krafta þess til að komast til endimarka alheimsins…? Svörin við þessum spurningum leiða okkur þegar við þurfum svo að velja aðferðir sem við bjóðum þátttakendum uppá til að vinna með námsefnið.

Aðferðir sem nýtast við úrvinnslu námsefnis eru trúlega helstar á þessa lund: Umræður, alls konar einstaklings – og hópaverkefni þar sem þátttakendur vinna með útfærslur á námsefninu eða æfingar með færni sem tengist henni. Þau geta snúist um að þeir sýni að þeir muna efnið (próf), eða geta greint það eða tengt við eigin veruleika (ritgerðir, blogg, kynningar, myndskeið, leikrit…) Þátttakendur gætu prófað að gera það sem þeim er kennt: baka, klippa, smíða, elda…

7. Gefa viðbrögð

Þegar fólk er að læra nýtt efni eða þjálfa nýja færni þarfnast það upplýsinga um það hvernig gengur, eigi það að ná góðu valdi á efninu eða athöfninni: Þegar einhver lærir á bíl fær hann eða hún viðbrögð frá ökutækinu jafnóðum. Ef hann gefur bensínið of litið inn drepst á hreyflinum, en ef hann gefur of mikið inn hvín i honum. Ef hann beygir of skart í beygju, hallar bíllinn óþægilega og veltur jafnvel, of lítið þá keyrir hann út af veginum. Viðbrögðin koma strax og beint úr tækinu, viðfangsefninu og umhverfinu. Þegar um þekkingu er að ræða er oft erfiðaðra að fá viðbrögð. Þannig að þá þarf skipuleggjandi námsferlis að velta fyrir sér hvar og hvenær og á hvaða hátt er gagnlegt að gefa viðbrögð. Nemandi gæti varpað fram spurningu undir fyrirlestri eða umorðað það sem fyrirlesari segir til að kanna hvort hann hafi skilið. Þá skipta viðbrögð fyrirlesarans máli og nýtast sem viðbrögð fyrir þátttakandann. Sömuleiðis geta viðbrögð við æfingum, verkefnum og prófum skipt sköpum hvort sem þau eru í formi hróss, hvatningar, leiðréttinga, leiðsagnarmats eða einkunnar.

8. Meta frammistöðu

Það sama á við um mat á frammistöðu. Það hefur þann tilgang að hjálpa þátttakanda að átta sig á hversu vel hann eða hún hefur náð valdi á viðfangsefninu og þá hvað þarf að gera til að ná þeim árangri, leikni, þekkingu sem hann sækist eftir. Þegar allt kemur til alls er það ávalt þátttakandinn sjálfur sem metur hvort hann sé búinn að ná þeim árangri sem hann sækist eftir. En leiðbeinandinn er alltaf í stöðu sérfræðingsins sem getur gefið til kynna að hve miklu leiti þátttakendinn hafi náð markmiðum námskeiðsins. Hvort sem hann metur það á grundvelli þess sem hann sér þegar hann fylgist mað frammistöðunni eða metur verkefni og próf.

9. Stuðla að yfirfærslu hins lærða

Það er lítið gagn i námsferli ef allt er við hið sama að ferlinu loknu. Enginn brosir eftir brosnámskeiðið. Nýja tölvukerfið er ekki notað. Enginn kínverskur matur eldaður eða þjóðbúningar saumaðir… Sá sem skipuleggur námsferli fyrir aðra er í þjónustu þátttakenda og jafnvel margra annarra: Yfirvalda, atvinnurekenda, fjölskyldu, skjólstæðinga, samfélagsins… Ef þátttakendur á námskeiði um meindýravarnir nota röng efni eða nota þau á rangan hátt getur það haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir náttúru og/eða samfélagið. Ef þátttakendur eru engu nær að loknu námskeiði í agastjórnun í kennslustofunni viðhelst sama ástandið og börnum í bekknum líður áfram illa og börnin, fjölskyldur þeirra og skólinn allur líða undan því. Þess vegna skiptir miklu máli að velta fyrir sér hvað þú gerir til að þátttakandei noti það sem hann lærði á námskeiðinu þegar á hólminn er komið. Hvernig þú skipueggur yfirfærslu hins lærða. Hér snýst verkefni skipuleggjandans um að: Hjálpa þátttakendum að tengja námsefnið við raunverulegar aðstæður, ímynda sér hvernig hið lærða tengist þeirra eigin aðstæðum og hjálpa þeim að undirbúa nýja hegðun þegar námsferlinu lýkur. Það gæti þurft að varða leiðina og veita stuðning eftir námsferlið

Það eru til margar aðferðir sem gagnast til að koma slíku til leiðar: Einfaldast er að láta þátttakendur gera það sem þeir munu gera þegar heim er komið. Þátttakendur geta rætt sín á milli 2 og 2 eða í hópum hvernig námsefnið nýtist og hvernig þeir ætli að breyta hegðun sinni. Þeir geta gengið svo langt að útbúa gátlista eða skrifa niður hvað þeir ætli að gera öðru vísi. Skipleggjandinn þarf að velta fyrir sér hversu mikil æfing dugi á námskeiðinu til að laða fram ásættanlega hegðun að námskeiði loknu. Hversu líkar þurfa aðstæðurnar á námsferlinu að vera þeim sem hegðunin á að eiga sér stað í (Rannsóknir sýna að heimfærsla hins lærða gengur iðulega best þegar fólk lærir í aðstæðum sem eru líkar þeim þar sem raunveruleg hegðun mun eiga sér stað). (Sjá nánar um yfirfærslu / transfer )

Ofangreind 9 skref eru ein leið til að hugsa um það hvernig maður raðar innihaldi, athöfnum og aðferðum saman á námsferli sem á að hjálpa fólki að læra eitthvað nýtt. Einu gildir hvort um er að æða langt námsferli eða stutta kennslustund. Textinn er túlkun mín á 9 atburðum Gagné í kennslu. Fleiri leiðir eru til að hugsa um það hvernig maður raðar aðferðum og innihaldi a námskeiði.

Það má td. skoða skipulagningu innihalds og hvernig maður raðar innihaldinu upp. Þar koma kennslufræðilegar meginreglur að góðum notum og líka rhetorískar. Sjá t.d. hér

 

ATH þessi texti er í vinnslu…

8 thoughts on “Röð atburða í kennslu”

  1. Þetta er virkilega hjálplegt. Ég myndi þó líklega ekki eyða tíma í að rifja upp forþekkingu í upphafi heldur láta reyna á hana en vera tilbúin með verkefni við hæfi fyrir þann sem sannarlega hefði góðan undirbúning og gæti farið hraðar yfir. Mín reynsla er nú frekar í þá áttina að það bíði flestir spenntir eftir að ég hætti að tala og vilja fara að vinna.

    1. Sammála þessu Helga… ég held að það að kanna forþekkingu þurfi ekki alltaf að taka langan tíma OG að maður geri það í samræmi við þörfina fyrir það.
      a) Með því að spyrja um væntingar þátttakenda færðu oft nokkuð góða hugmynd um stöðu þeirra. Spurningar þeirra og væntingar birta gjarnan þekkingarstöðuna
      b) Svo er það þetta með hvernig maður notar þennan lista… ég sé hann sem verkfærakistu sem ég nota eftir aðstæðum. Vel mér verkfæri sem henta hverju tilfelli fyrir sig 😉

  2. Mér finnst þetta hljóma svo einfalt – en verður aðeins flóknara þegar ég ætla að setja þetta niður fyrir mér 🙂 Ég er nokkuð viss um að væntingar þátttakenda hjá mér munu vel samræmast markmiðunum, enda byggt á þarfagreiningu í þeim hópi. Ég er búin að skilgreina hver „afurðin“ á að vera (t.d. ferilskrá) en ég velti aðeins fyrir mér upphafinu. Ástæða þess að fólk komi á námskeiðið er í eðli sínu ekki jákvæð – en ég vil finna leiðir til að snúa því við og fá fólk til að líta á þetta sem tækifæri (sem getur verið erfitt þegar fólk er sátt í sínu starfi og hafði mögulega ákveðið að enda starfsævina í viðkomandi starfi). Mér finnst því mikilvægt að byrja á jákvæðum nótum – án þess að vera ofur-hressa týpan 😉 Flestir sem verða á námskeiðinu þekkjast vel og því langar mig að hafa skemmtilega ísbrjóta og byggja upp þannig anda að fólki líði vel og sé tilbúið að hjálpast að.

  3. Takk fyrir þetta Hróbjartur
    Virkilega góð upptalning. Hugarkortið er gott, en fyrir mig er nauðsynlegt að geta fengið aðgang að kjötinu á beinunum líka. Svo þegar ég hef fengið upplýsingarnar sem þú hefur ritað hér að ofan get ég nýtt mér hugarkortið mikið betur. Punktarnir sem koma fram þar finnast mér „meika mjög mikið sens“. Ég er algerlega reynslulaus í námskeiðshaldi og er þar að auki ekki með kennaramenntun svo það er frábært að hafa svo vel útskýrð verkfæri til að leita í. Gerir alla mína skipulagsvinnu markvissari.

    Ég hef velt því mikið fyrir mér hvernig ég vil hefja námskeiðið hjá mér. Stefnan er að halda ipad námskeið fyrir fólk sem hefur takmarkaða tækniþekkingu. Ég geri ráð fyrir að þar verði fólk sem er óöruggt í kringum tækin og sem er hrætt við að skemma eitthvað. Ég var ekki búin að átta mig á því áður, en ég þarf pottþétt að reyna að finna tenginu í þekkingarbrunn fólks. Að finna tengingu á milli þessa framandi tækis og þess sem fólk þegar kann. Það verður smá hausverkur að vinna í því… mögulega get ég tengt facebook við gömlu sveitasímana, þar deildi fólk bara því sem aðrir máttu líka heyra. Ég þarf líka að finna tengingu sem róar fólk sem er tækjahrætt.
    Ég er að átta mig á því núna að ég er þegar byrjuð í þessu ómeðvitað. Ég vinn með konu sem er að reyna að ipadvæðast en gengur hægt. Á föstudaginn gat ég aðeins farið yfir með henni hvernig hún getur nýtt ákveðin forrit í ipad á sama hátt og hún notar stílabók í kennslu með sérkennslubörnum. Hún þarf ekki að vera tæknitröll heldur er nóg að hún viti hvaða forrit á að nota og svo tengir hún sína gömlu þekkingu við nýja aðferð sem höfðar til barnanna.
    Hindranirnar eru víst oftast í huga okkar!

  4. Takk kærlega fyrir þessa flottu samantekt á níu atburðum kennslu Roberts Gagné.
    Fyrir mitt leyti finnst mér góð tilfinning að átta mig á því að ég hef (óafvitandi) verið að fara eftir þessum níu atburðum kennslu síðustu fimm árin í mínu starfi.
    Fyrst þarf að ná athygli eða grípa athygli þátttakenda á námskeiðinu. Það getur verið hálfgerð brú á milli kennara og nemenda/þátttakenda í byrjun. Þar sem ég kenni innflytjendum íslensku þá hefur það reynst mér persónulega góð leið að segja þeim frá minni reynslu sem nýbúi í öðru landi. Með því að tengja reynslu okkar saman þ.e.a.s að láta þau vita að ég hafi verið í þeirra sporum, ég hef einnig verið hinum megin við borðið, auðveldar og styrkir það strax samskiptin okkar á milli. Vegna þess að reynslan er persónuleg bæði fyrir mig og nemendur mína þá myndast traust sem gott er að byggja á í framhaldinu. Reynslan hefur einnig kennt mér að bara það að kennarinn gefi af sér og er einlægur getur skipt sköpum í samskiptum milli hans og þátttakenda á námskeiði. Eins og Hróbjartur talar um þá …“lærir fólk frekar hluti sem það trúir og það trúir frekar fólki sem það treystir og álítur trúverðugt.“ Þess vegna langar mig persónulega að gefa þeim ykkar sem eruð að fara að halda námskeið í fyrsta sinn að „þora“ að vera einlæg og ekta – vera þið sjálf.
    Þá er það sú nauðsyn að geta tengt innihald námskeiðsins við reynsluheim þátttakenda. Fólk bara tengir betur ef það getur tengt við sitt eigið.
    Kveikjur eru nauðsynlegar til að kveikja á áhuga fólks. Það að segja sögu er eitthvað sem steinliggur og virkar alltaf vel. Söguformið er svo öflugt og hefur svo gríðarlega mikil áhrif á marga þætti náms, minni, tilfinningar og hugsanir. Við getum líka alltaf tengt okkar reynsluheim við söguformið og það er skemmtileg leið til að fá fólk til að segja frá sínum reynsluheimi.
    Ég ætla að hætta hér en það er samt endalaust hægt að velta fyrir sér atriðum í níu atburðum kennslu skv. Gagné.

Skildu eftir svar