Ráðstefnan: Nordisk konferanse om innsatser for sosialt entreprenørskap og sosial innovasjon

Ráðstefnan: Nordisk konferanse om innsatser for sosialt entreprenørskap og sosial innovasjon

Hér kemur umfjöllun mín um ráðstefnuna: Nordisk konferanse om innsatser for sosialt entreprenørskap og sosial innovasjon en ég var bæði þátttakandi á ráðstefnunni en ég flutti einnig erindi á fyrri degi ráðstefnunnar. Ég kem til með að nýta mér þetta verkefni sem valverkefni: Að taka þátt í námsferli.

Um er að ræða tveggja daga ráðstefnu á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem haldinn var dagana 8. – 10. mars í Malmö Högskola. Hér er að finna slóð á dagskrá ráðstefnunnar

Hvernig getum við búið í haginn fyrir félagslega frumkvöðlahugsun og félagslega nýsköpun? Hvað hefur gengið vel og hvað getum við lært af þeim verkefnum sem unnin hafa verið að á þessu sviði? Hver er staða frumkvöðla í nútíð og framtíð? Ofangreint voru helstu viðfangsefni ráðstefnunnar. Breytingar, m.a.lýðfræðilegar, tæknilegar, kalla á nýjar lausnir og nýsköpun við þróun og framkvæmd þjónustu og efni ráðstefnunnar á því brýnt erindi til samtímans. Auk þess er mikil þörf á að miðla þekkingu um þá möguleika, áskoranir og hugsanlegar takmarkanir sem upp geta komið innan velferðarþjónustunnar. Upplýsingar til notenda um tækifærin sem í þessu kunna að felast eru einnig nauðsynlegar.

20160310_105414
Stýrðar umræður um félagslega nýsköpun í lok ráðstefnu

Á ráðstefnunni komu saman frumkvöðlar, fulltrúar opinberra stofnana, einkaaðilar og fulltrúar almannaheillasamtaka og annarra sem láta sig þessi mál varða á Norðurlöndunum. Samtals voru um 200 þátttakendur á ráðstefnunni. Á ráðstefnunni voru bæði fyrirlestrar, vinnustofur, kynningar og óformleg samvera með það að markmiði að auka samstarf og samræður milli ofangreindra aðila. Ráðstefnan hófst með fræðilegri umfjöllun tveggja fræðimanna á sviði félagslegrar nýsköpunar, þeirra Mikael Nygård, professor við Háskólann í Åbo og Malin Gawell, dósent við Háskólann í Södertörn í Svíþjóð.

Gagné og fl. (2005) fjalla um þrjár tegundir hópa við kennslu: hópur sem samanstendur af tveimur nemendum, lítill hópur nemenda  sem samanstendur af allt að átta nemendum og svo loks stór hópur sem samanstendur af níu eða fleiri nemendum. Gagné (2005) gerir grein fyrir níu atburðum sem kennari/leiðbeinandi ætti að fara í gegnum ef viðkomandi vill hjálpa fólki að læra í Nám stærri hópum en þar ber fyrst að nefna það að ná athygli þátttakenda. Mikael Nygård hóf fyrirlestur sinn á því að setja líf sitt og fjölskyldu sinnar í samhengi við umfjöllunarefni ráðstefnunnar. Þá greindi hann einnig frá því að hann ætti stórafmæli þennan sama dag. Við þetta myndaðist skemmtilegt andrúmsloft í salnum og tókst honum á þennan hátt að ná góðum tengslum við þátttakendur frá fyrstu stundu. Malin hélt fyrirlestur sem minnti einna helst á fyrirlestra sem ég hef sótt í grunnnámi við Háskóla og hefði að mínu mati mátt leggja meiri áherslu á þennan þátt, það er að ná athygli þátttakenda.

Fyrirlestrarformið er algengasta aðferðin við kennslu stórra hópa en styðja má við fyrirlestra með myndum, myndbansbrotum, glærum eða notkun annarra miðla. Fyrirlesari getur notað fyrirlestrarformið til að smita áheyrendur af áhuga sínum á tilteknu viðfangsefni. Þá er einnig hægt að nýta fyrirlestra til að tengja viðfangsefnið við reynslu og áhugasvið nemenda sem og að tengja fræðilega umfjöllun fyrirlesturs við hagnýt viðfangsefni (Gagné, 2005).  Fyrirlestur Mikael Nygård náði til ofangreindra atriða þar sem hann tengdi fræðilega umfjöllun við raunvanda sem norðurlandaþjóðirnar standa frammi fyrir þessa stundina, þann mikla straum flóttamanna sem koma daglega yfir landamæri norðurlandaþjóðanna. Rannsóknir hafa sýnt að athygli nemenda sem hlusta á fyrirlestra fer dvínandi efir 15-20 mínútur. Á þeim tímapunkti þarf fyrirlesari að ná aftur athygli nemenda með öðrum virkum aðferðum s.s. að láta nemendur ræða tiltekin viðfangsefni við þann sem við hliðin á þeim situr. Mikilvægt er að taka tillit til notkunar virkra aðferða þegar kennsla er skipulögð og einnig að upplýsa nemendur um gagnsemi þeirra aðferða sem valdar eru (Gagné, 2005). Báðir fyrirlesarar hefðu mátt vera meðvitaðri um þetta en báðir fyrirlestrar voru um klukkustund að lengd og í hvorugu tilfellinu var stuðst við virkar aðferðir til að viðhalda athygli þeirra sem ráðstefnuna sóttu.

Eftir hádegi kynntu átta félagslegir frumkvöðlar starfsemi sína fyrir sama hóp. Fyrst í röðinni var danskur býflugnabóndi sem hefur stofnað fyrirtæki sem rekur býflugnabú á húsþökum fyrirtækja víðsvegar um Kaupmannahöfn. Bybi veitir flóttamönnum og öðrum sem eiga erfitt uppdráttar á vinnumarkaði launaða vinnu. Einn af þeim þáttum sem Gagné (2005) fjallar um sem einkenna nám fyrir stóra hópa er notkun efnis sem virkja hvetjandi til náms. Oliver Maxwell hóf fyrirlestur sinn á því að sýna myndbrot þar sem fléttað var saman umfjöllun um starfsemina sem slíka og þá sem þar starfa. Við fengum að kynnast sýrlenskum flóttamönnum og þeirra sögu og fengum að fylgjast með þeim að störfum við býflugnabúin. Þetta var mjög skemmtilegt og góð leið til að bæði vekja athygli og einnig að veita dýpri þekkingu á umfjöllunarefni fyrirlestursins en að loknu þessu myndbroti flutti Oliver fyrirlestur um hugmyndafræðina og starfið. Aðrir fluttu hefðbundna fyrirlestra um sambærilegar hugmyndir víðsvegar á norðurlöndunum en ég tel að það hefði gefið meiri og dýpri skilning á starfseminni ef fyrirlesarar hefðu nýtt aðra miðla eða aðrar aðferðir til að styðja við fyrirlestra sína.

Í lok dags voru fjórar málstofur sem þátttakendur gátu valið á milli. Ég flutti fyrirlestur í einni málstofunni en fyrirlestur minn fjallaði um VIRK starfsendurhæfingarsjóð og þau virkniúrræði sem notast er við í starfsendurhæfingu einstaklinga í þjónustu VIRK. Ég studdist við mjög hefðbundnar aðferðir og flutti 15 mínútna erindi með stuðning af glærum. Fyrirlestrarformið getur nýst á mjög jákvæðan hátt við kennslu þar sem hægt er á hagnýtan og skilvirkan hátt að koma viðfangsefninu til skila. Líkt og minnst var á hér að ofan getur góður fyrirlesari nýtt fyrirlestrarformið til að smita áhorfendur af áhuga sínum á viðfangsefninu. Þannig getur fyrirlesari gegnt því hlutverki að koma á jákvæðu viðhorfi gagnvart viðfangsefninu (Gagné, 2005). Í lok fyrirlesturs voru stýrðar umræður þar sem lagt var upp með spurningu sem málstofan átti að svara.

20160309_184204
Glærurnar mínar 🙂

Seinni daginn tók ég þátt í málstofu sem fjallaði um endurhæfingu einstaklinga með skerta starfsgetu. Bjarni Torfi Álfþórsson frá Specialisterne á Íslandi flutti inngangserindi þar sem hann fjallaði um starfsemi Specialisterne en þeir finna atvinnutengdri endurhæfingu fyrir fullorðna einstaklinga með einhverfu. Bjarni hóf fyrirlesturinn á því að sýna myndband þar sem við fengum að kynnast starfseminni og þeim einstaklingum sem hafa nýtt sér þjónustu þeirra. Myndbandið var skemmtilegt og fræðandi og líkt og með Bybi veitti þetta dýpri skilning á starfseminni og tel ég þetta mjög góð aðferð til að fræða um starfsemi sem þessa.

Ég byggði fyrirlestur minn á eldri fyrirlestrum um sama viðfangsefni. Eftir á að hyggja hefði ég viljað setja fram skýrari markmið með fyrirlestri mínum, það er hvað eiga þátttakendur að hafa öðlast skilning á að fyrirlestri loknum. Þá hefði ég viljað setja markmiðin í samhengi við níu atburði Gagné, en þar er um að ræða ramma sem styður við undirbúning og framkvæmd fræðslu. Ég hefði þurft að leggja vinnu í fyrsta atburð í útlistun Gagné, að ná athygli. Það hefði t.d gagnast þátttakendum mjög að sjá annaðhvort myndband sem lýsir starfsemi VIRK eða heyra dæmi um samstarf og hvernig það hefur gagnast einstaklingum. Þegar ég fór yfir ráðstefnuna og erindi mitt útfrá fræðunum áttaði ég mig á því að allir fyrirlesarar studdust við glærur í fyrirlestri sínum. Það er auðveld og algeng aðferð en ég hugsa að næst þegar mér býðst að flytja fyrirlestur leggi ég meiri vinnu í undirbúning, reyni að nýta mér aðrar aðferðir og hafi í huga kenningar um skipulag og framkvæmd fræðslu.

Heimildir

Gagné, R. M., Wager, W. W., Golas, K. C., og Keller, J. M. (2005).Principles of Instructional Design (5. útgáfa). Belmont: Wadsworth, Cengage Learning.

Norden – sótt 17. 3. 2016 af: http://www.norden.org/en/theme/former-themes/themes-2015/haallbar-nordisk-vaelfaerd/events/konferens-om-socialt-entreprenoerskap-och-social-innovation/program-foer-nordisk-konferanse-om-innsatser-for-sosialt-entreprenoerskap-og-sosial-innovasjon-9.-og-10.-mars-2016

 

4 thoughts on “Ráðstefnan: Nordisk konferanse om innsatser for sosialt entreprenørskap og sosial innovasjon”

  1. Mér finnst gaman að fylgjast með því hvernig þú horfir á þig sjálfa sem fyrirlesara í þessari umfjöllun. Það er svo greinilegt að þú ert að átta þig á atriðum sem þú hefur kannski ekki leitt mikið hugann að, mér sýnist að þetta námskeið og námsefnið sé farið að hafa áhrif:-) kveðja Anna

  2. Takk fyrir fræðandi innlegg. Athyglisvert þegar þú segir að rannsóknir hafi sýnt að athygli nemenda sem hlusta á fyrirlestra fari dvínandi efir 15-20 mínútur, það þekki ég bara af eigin raun og þetta hljóta margir fyrirlesarar að vita. Ég hef setið ófáa fyrirlestra sem eru einmitt of langir og margir hverjir með engu uppbroti þannig að efni fyrirlestursins fer fyrir ofan garð og neðan hjá fundargestum. Ég hef oft hugsað til þess hver tilgangurinn sé með þessum löngum ,,ræðum“.

    Gaman að því hvernig þú tekur sjálfa þig í naflaskoðun eftir þinn eigin fyrirlestur og ert þar með að nýta þér fræðin sem við reynum að tileinka okkur í þessum kúrsi.

    Gangi þér sem best í þínu,
    kveðja, Þórgunnur

Skildu eftir svar