Taktu þátt í námsferli – Að leiða breytingar

Ég fór á námskeiðið Að leiða breytingar-fjölþætt hlutverk leiðtoga og hagnýt ráð fyrir alla sem taka þátt í breytingum.  Námskeiðið var haldið 26. febrúar 2016 frá kl 9-16 hjá Endurmenntun HÍ í Dunhaga.  Kennarar voru þeir Kristinn Hjálmarsson og Ragnar Ingibergsson.  Eftirfarandi er lýsing á námskeiðinu:

„Á námskeiðinu er fjallað um hvað það felur í sér að leiða breytingar með opnum huga og veita áhrifum og aðstæðum athygli.  Áherslan er lögð á að þátttakendur geti leitt breytingar og er núvitund (e. Mindulness) notuð til að dýpka viðfangsefnið auk þess sem hagnýtar aðferðir eru kynntar og prófaðar.

Markmiðið er að þátttakendur geti byrjað að leiða breytingar strax að námskeiði loknu og fái innsýn í og reynslu af því að nota og skilja hugmyndir, tæki og tól breytingarstjórnunar

(http://www.endurmenntun.is/Namskeid/ ).

 

Uppsetning umhverfis

Þegar inn kom var borðum raðað upp þannig að 2 borð voru sett saman og og við hverja borðaþyrpingu voru 5 stólar, það voru 4 þyrpingar þannig að gert var ráð fyrir 20 manns á námskeiðinu.

20160226_102800

 

Á borðunum voru blöð, tússpennar og blýantar.

20160226_102715

 

Á einum vegg í stofunni var búið að líma upp stóran renning af maskínupappír sem var spreyjaður með lími svo hann virkaði eins og stór post-it miði.

 

20160226_140937

 

Það var spiluð tónlist á meðan að þátttakendur voru að ganga inn og Kristinn lagði sig fram við að heilsa þátttakendum með handabandi, sem var mjög notalegt, kveikti á þeirri tilfinningu að maður væri velkomin.  Ragnar gerði þetta líka.  Mér fannst gaman að hafa tónlistina en það hefði mátt hafa aðeins lægra stillt, persónlega fannst mér tónlistin aðeins of hátt spiluð, en það er sjálfsagt smekksatriði.

Námskeiðið

Námskeiðið hófst á því að þeir félagar fóru yfir praktrísk atriði, fatahengi, salerni, matsalinn og þess háttar og hvöttu fólk til að standa upp og ná sér í kaffi og vatn fram ef það vildi, þetta gerðu þeir aftur seinna, alla vega 2-3svar yfir daginn.  Í praktísku atriðunum stóð að ekki mætti taka myndir nema með leyfi kennara þannig að ég var búin að fá leyfi til þess.

Fyrst var smá kynning á þeim félögum og svo tók alvaran við.  Í byrjun áttum við að taka miða, skrifa nafnið okkar, af hverju við værum á námskeiðinu og hvað við óskuðum eftir að fá út úr því, svo hengdum við miðana á post-it miðann á veggnum.  Þeir fóru svo á mismunandi tímum til að skoða hvað við hefðum skrifað og til að reyna að leggja nöfnin á minnið, Kristinn sérstaklega, reyndi að tengja nafn og manneskju.Námskeiðið var með fyrirlestrarformi , en þeir leituðu eftir þátttöku og viðbrögðum frá þátttakendum.  Ingvar Sigurgeirsson kallar þetta fyrirlestrarform þátttökufyrirlestra (e. lecture discussion).  Það er líka hægt að greina fyrirlestra sem formlega ( e. formal lecture) eða óformlega (e. informal).  Óformlegur fyrirlestur er meira spjallform þar sem þátttakendur, í þessu tilviki þátttakendur á námskeiðinu, gefst tækifæri til að spyrja og gera athugasemdir (Ingvar Sigurðsson 2013).  Þeir Kristinn og Ragnar tóku vel í þegar við tókum þátt, þeir leituðu eftir því, ætluðust ekki til að við hlustuðum á þá allan daginn.

Fyrirlesturinn þeirra var mjög skemmtilegur og lifandi, kryddaður spjalli og athugasemdum frá okkur þátttakendum.  Kristinn og Ragnar skiptust á að tala, greinilega vanir að halda þetta námskeið.  Fyrirlestrar hafa verið töluvert gagnrýndir sem kennsluaðferð en flestir kennslusérfræðingar eru þó sammála um að vel uppbyggður og vel fluttur fyrirlestur sé góð kennsluaðferð, t.d. í fullorðinsfræðslu.  Mælt er með þessari aðferð þegar þarf að miðla ákveðnum uppýsingum, til að vekja áhuga á efni eða kveikja spurningar (Ingvar Sigurgeirsson 2013).  Fyrri partinn voru þeir að stoppa og biðja okkur að svara spurningum, fá okkur til að hugsa um hluti eins og „hvernig stjórnandi tel ég mig vera“?  Þeir kröfðu okkur ekki um svörin, voru frekar að fá okkur til að velta hlutunum fyrir okkur, kveikja á okkur.  Inn í fyrirlesturinn fléttuðu þeir alla vega 2 bíómyndaatriðum sem tengdust umfjölluninni, þ.e. hvernig þú færð fólkið til að koma með með þér í breytingar.  Gerðu grín að stafsetningarvillunum sem voru á glærunum þeirra, þeir voru ekkert að afsaka sig, stafsetningarvillur geta alltaf verið að flækjast fyrir okkur.  Helsti vandi við fyrirlestra er sá að það er erfitt að halda athygli þátttakenda.  Þegar leiðbeinandi er búin að tala í ákveðin tíma, ca tuttuga til þrjátíu mínútur þarf að breyta til t.d. með stuttum viðfangsefnum til umhugsunar, umræðum í litlum hópum, spurningum, myndasýningu eða efni sem er frábrugðið því sem fyrirlesari er að flytja (Ingvar Sigurgeirsson 2013).  Þetta pössuðu þeir sig á að gera, með spurningunum, myndböndunum og almennu spjalli.  Einnig með því að hvetja okkur til að standa upp og sækja okkur drykki fram.  Það var mikið efni sem þeir þurftu að koma frá sér á skömmum tíma.  Þeim tókst vel að halda minni athygli þennan dag.

Um miðjan morgunin var komið inn með kex og ávexti og Ragnar tók bakkana, gekk um og bauð fólki að fá sér, gerði þetta líka með veitingarnar sem komu inn eftir hádegið.  Notalegt, að láta þjóna sér svona.

Þegar að ca 2 tímar voru eftir af námskeiðinu var komið að verkefnavinnu og unnu þeir saman í verkefnum sem sátu saman.   Ef það voru fyrirhugaðar breytingar sem þátttakendur stóðu frammi fyrir eða áttu að vinna að, þá vorum  við hvött til að nota þær breytingar í verkefninu.   Við áttum að fara í gegnum ákveðið líkan, ADKAR til að greina þörf og setja upp tillögur að breytingum og svo áttum við að kynna verkefnið.  Við áttum að sjá fyrir okkur þann hóp sem við ætluðum að kynna fyrir, ráðamenn, starfsmenn eða hverjir það voru sem þurfti að „selja“ hugmyndina.  Fullorðnir læra meira eða á áhrifaríkari hátt í gegnum reynslu eins og í umræðum eða með því að leysa vandamál, heldur en þeir gera með því að hlusta t.d. eingöngu á fyrirlestur (Zemke og Zemke 1996). Við fengum góðan tíma og svo var síðasti hálftíminn notaður til að kynna verkefnin sem voru öll ólík og mjög áhugaverð.  Þeir gáfu endurgjöf og veltu upp atriðum og þátttakendur gátu gert það líka.  Í blálokin þá var farið yfir miðana sem við skrifuðum í byrjun, af hverju við komum á þetta námskeið og hvað við vildum fá út úr því.  Farið yfir alla miðana til að sjá hvort fólk hefði fengið það sem það óskaði út úr námskeiðinu.  Þeir bentu okkur líka á heimasíðu sem við gætum skráð okkur inn á og þar væru alls kyns hugmyndir og fyrirlestrar sem hægt væri nálgast þegar verið væri að leiða breytingar.

Ég hef ekki mikið út á námsskeiðið að setja, sem var eins og ég hef sagt skemmtilegt og fræðandi.  Í námskeiðslýsingunni stendur þó að núvitund verði notað til að dýpka námsefnið.  Það fannst mér ekki.  Þeir félagar komu aðeins inn á núvitund, svona eins og  til að minna á að þegar verið væri í breytingarferli þá væri gott að hugsa um það sem verið væri að gera í það og það skipti ekki að velta sér upp úr því sem væri ógert eða hvað væri mikið eftir.  Í rauninni fannst mér þessi núvitundarumfjöllun í námskeiðslýsingunni algjörlega óþörf og hefði verið hægt að sleppa því atriði.  Leiðbeinendur hefðu þrátt fyrir að ekki væri minnst á núvitund í námskeiðslýsingunni geta komið með umfjöllunina sem átti að vera um núvitund til að dýpka efnið.  Það eru í raun einu vonbrigði mín með þetta námskeið, þessi takmarkaða umfjöllun um núvitund sem á engan hátt var til að dýpka námsefnið.

Stundum talaði Kristinn aðeins of lágt þannig að erfitt var að ná því sem hann sagði.  Eða þá að maður þurfti virkilega að einbeita sér, kannski var þetta taktík hjá honum, en ég held nú samt ekki.  Það hafði samt enginn orð á þessu við hann, ekki lagt í það, sem eftir á að hyggja er mjög leiðinlegt því að hvort þú talar hátt eða lágt, það er hægt að breyta því.  En þetta atriði hefur áhrif.  Það skiptir miklu máli að tala beint til áheyrenda og beita röddinni á óþvingaðan hátt og með eðlilegum áherslum.  Það er mikilvægt að kennarar horfist í augu við nemendur, það undirstrikar öryggi og sjálfstraust.  Röddin berst betur og tjáning verður markvissari (Ingvar Sigurgeirsson 2013).

Í námsskeiðslýsingunni er talað um tvö módel sem kynnt voru á námsskeiðinu.  ADKAR og SWITCH módelin.  Það var farið meira í ADKAR módelið og í raun hefði verið nóg að fara yfir það.  Umræðan um SWITCH fór pínulítið framhjá mér.  Að kynna of mikið af efni getur verið ruglandi fyrir nemendur, því þeir ná ekki að vinna úr svo miklu efni.  Þess vegna er betra að kennarinn kynni ekki of mikið af nýju efni í einu.  Kennari kynnir lítið efni í einu og aðstoðar nemendur við að æfa sig í því efni.  Þegar nemandi hefur náð tökum á einu efni er hægt að fara í annað eða bæta við (Barak Rosenshine 2012).  Mín skoðun er sú að það hefði verið betra að einbeita sér eingögngu að öðru módelinu.  Ég skil að þeir hafi viljað kynna meira efni, en það þarf að hafa í huga þann tíma sem þú hefur til að vinna með og þennan dag höfðum við frá 9-16.

Að þessu sögðu þá slæ ég botnin í umfjöllun mína um námsskeiðið, Að leiða breytingar-fjölþætt hlutverk leiðtoga og hagnýt ráð fyrir alla sem taka þátt í breytingum.  Það er gott að vita af heimasíðunni sem þeir gáfu okkur upp til að kíkja á hana svo hægt sé að kynna sér meira ef það er það sem maður vill.  Og með þau gögn sem við fengum á námsskeiðinu þá er möguleiki á að leita sér nánari upplýsingar á netinu ef maður vill.

 

 

 

 

 

 

Heimildir

 

Að leiða breytingar-fjölþætt hlutverk leiðtoga og hagnýt ráð fyrir alla sem taka þátt í breytingum.  Námskeiðslýsing, Endurmenntun HÍ, tekið á netinu 23. febrúar 2016 á  http://www.endurmenntun.is/Namskeid/

 

Ingvar Sigurgeirsson. (2013). Litróf kennsluaðferðanna. Handbók fyrir kennara og kennaraefni. Reykjavík: IÐNÚ.

 

Zemke, Ron og Zemke, Susan. (1996). Adult learning: What Do We Know for Sure? Úr Bill Brandon, et.al, Computer Trainer‘s Personal Training Guide. Minneapolis: Lakewood Publications.

 

Barak Rosenshine. (2012). Principles of Instruction. Reasearch-Based Strategies That All Teachers Should Know.  http://www.aft.org/sites/default/files/periodicals/Rosenshine.pdf

 

 

Skildu eftir svar