Ýmis hagnýt ráð varðandi nám fullorðinna

The Andragogy, the Social Change and the Transformative Learning Educational Approaches in Adult Education

e/Giannoukos, Georgios; Besas, Georgios; Galiropoulos, Christos; Hioctour, Vasilios

Journal of Education and Practice, v6 n10 p46-50 2015

 

Ritrýnda fræðigreinin sem ég valdi er að finna á eftirfarandi slóð:

http://eric.ed.gov/?q=adult+learners+The+andragogy+the+social+change+and+the+transformative+learning&id=EJ1081666

20160126_154333.jpg

Þessi ritrýnda fræðigrein birtist í Journal af Education and Practice og er nýleg eða frá árinu 2015. Ekki er um margar tilvitnanir í hana enn sem komið er, væntanlega vegna þess hversu nýleg hún er. Í greininni vitna höfundar í þá fræðimenn sem hafa hvað mest skoðað Andragogy, eða fullorðinsfræðslu og kenningar tengdar þeim. Þeir rökstyðja vel það sem þeir vilja koma á framfæri með því að vitna í aðrar rannsóknir máli sínu til stuðnings. Þessi fræðigrein er ekki rannsókn heldur frekar samantekt á því hvað þarf að hafa í huga þegar um kennslu fullorðinna er að ræða og hvað ber að varast m.t.t. fræðanna. Allir höfundar hafa komið með einum eða öðrum hætti að fullorðinsfræðslu og þá helst að símenntun fyrir fullorðna sem ekki eru langskólagengnir. Þeir hafa einnig skrifað nokkrar aðrar greinar um fullorðinsfræðslu.

  1. Inngangur

Í upphafi er höfundum tíðrætt um það hversu mikilvægt er að leiðbeinendur nýti sér tæknina fyrir nemendur sína í kennslu. Með því er hægt að koma til móts við markmið og námslegar þarfir þátttakenda og efla þannig virkni þeirra til muna. Þá þarf líka að nota fjölbreytta kennsluaðferðir sem miða að því að efla og hvetja nemendur í náminu. Einnig skiptir máli í kennsluskipulaginu hvaða hjálpargögn notast er við og sömuleiðis bekkjarfyrirkomulagið og námsskipulag. Fræðigreinin sem ég valdi fjallar um kennsluaðferðir og tækni sem notuð eru í fullorðinsfræðslu til að ná fram því besta hjá nemendum, auk þess að styrkja sambandið á milli nemendanna sjálfra. Þær aðferðir sem minnst verður á eru til þess gerðar að mæta námsþörfum nemenda og stuðla að sem bestum árangri hjá þeim. Einnig er fjallað um viðeigandi kennsluefni sem styðja við góða kennsluhætti. Meginmarkmið kennarans/leiðbeinandans á ekki aðeins að vera fólgið í því að miðla þekkingu heldur ekki síður að efla nemandann í að afla sér sjálfur þekkingar. Markmið kennarans er því að hvetja nemendur sína og efla þá í námsferlinu. Þá er komið inná mikilvægi fyrsta tíma námskeiðsins og hvernig æskilegt er að ramma hann inn í símenntunarferlinu. Þá er einnig skoðað hvaða hindranir geta staðið í veginu þegar fullorðnir námsmenn eiga í hlut. Horft er til þess út frá andlegu-, félagslegu- og fjárhagslegu tilliti og einnig því að skortur á sjálfstrausti þátttakenda getur verið stór, hindrandi þáttur í námi fullorðinna.

  1. Kennsluaðferðir og tækni í fullorðinsfræðslu

Í upphafi er mikilvægt að leiðbeinendur hafi í huga að gott væri að skipta hópnum niður í smærri einingar. Með því gefst kjörið tækifæri til að virkja sem flesta og þátttakendur finna sig frekar og þora eflaust að tjá sig í smærri hóp. Þar geta þeir rætt verkefnið efnislega og tjáð sig frekar. Ávinningurinn með þessu er að þarna kemur stuðningur frá hópnum og traust og samvinna skapast frekara innan hópsins. Þá er virk þátttaka tryggð og samskipti eiga sér stað um námsefnið. Þarna geta hópmeðlimir tjáð sig frjálslega og eiga eflaust auðveldar með að segja skoðun sína í minni hóp en stærri. Þegar unnið er í litlum hópum að sameiginlegu verkefni hjálpar það oft nemendum að yfirstíga ótta og hræðsluna um að mistakast. Með þessu hjálpa hópmeðlimir hvor öðrum í stað þess að keppa við hvorn annan.

Spurningar og svör eru oft notuð í námi fullorðinna, þar er það oftast leiðbeinandinn/kennarinn sem spyr og þátttakendur sem svara. Tilgangurinn með þessu er fyrst og fremst sá að fylgst með framförum nemendanna og framvindu námsins. Við þessa kennsluaðferð má ekki dvelja of lengi svo ekki skapist leiði og neikvæðin hjá þátttakendum. Heldur ætti að nota „spurt og svarað“ á ýmsum stigum námferlisins og þá helst til að efla gagnrýna hugsun og fá fram umræður um ákveðið málefni. Þá ætti leiðbeindandinn að leggja sig fram um að fá þátttakendur til að spyrja spurning líka. Þessi aðferð er markvisst notuð til að efla skilning þátttakenda og auka fjölbreytni í kennslunni og vekja einnig upp áhuga.

Nauðsynlegt er að tengja innihald kennslunnar eftir fremsta megni við reynsluheim og námslegar þarfir þátttakenda. Hvatning og hrós eru líka mikilvægir þættir og ætti leiðbeinandinn að beita því markvisst á námskeiðinu. Þá er mikilvægt að skapa rými fyrir frumkvæði þátttakenda svo þeirra hlutur sé sem mestur í námsferlinu.

Námskráin þarf að vera þannig úr garði gerð að hún endurspegli markmiðin sem námskeiðið byggir á og tilgangurinn þarf að koma skýrt og vel fram. Þá á námskráin að innihalda þætti sem gera þátttakendum kleift að spreyta sig á fjölbreyttan hátt. Kennslugögn skipta máli og ef þau eru notuð rétt eiga þau að örva hugsun, virkni og samvinnu nemenda. Með öðrum orðum að það er alltaf kennarinn sem hefur áhrif á framgang námskeiðsins og andrúmsloftið í skólastofunni. Hann þarf að hvetja þátttakendur til að vera virkir og skapa aðstæður til þess. Hann skipuleggur og kemur á hópastarfi og það er hans að skapa rými og tíma til samvinnu innan hópsins. Einnig að halda vel utan um og stýra umræðum þannig að vel fari og aðeins til þess að efla þátttaendur. Hann kemur með þær bjargir sem efla nemendur í námi sínu. Kennslutæki og gögn geta aldrei komið í stað leiðbeinandans og í sjálfu sér geta þau heldur ekki ábyrgst gæði kennslunnar. Þau geta verið góð viðbót og stuðningur við kennsluna en koma þó aldrei í stað leiðbeinands/kennarans.

  1. Fyrsti tíminn í fullorðinsfræðslunni/símenntun

Upphafið skiptir miklu máli. Þar er grunnurinn lagður að námskeiðsferlinu og því sem framundan er. Leiðbeinandinn þarf að hjálpa þátttakendum til að ná að „frelsa“ hugann og skapa andrúmsloft sem eflir þá í námsferlinu. Vekja þarf upp traust og samvinnu og hjálpa nemendum að takast á við „óttann“ og aðrar áhyggjur. Upplýsa þarf þátttendur um væntanlegt námskeið, markmið þess og tilgang. Þá þarf leiðbeinandinn að átta sig á væntingum þátttakenda. Ýmsar leiðir eru til að hefja námskeið og er oft byggt á reynslu leiðbeinandans, tilgangi námskeiðsins, kennsluaðstæðum, tengslum þátttakenda og reynslu þeirra af námi. Þá hefur tíminn sem þátttendur hafa til að stunda námið einnig mikið að segja og sá stuðningur sem þeir fá í námsferlinu. Umgjörðin skiptir miklu og getur haft veruleg áhrif á framvindu námskeiðsins og því gott að hafa eftirfarandi í huga í fyrstu kennslustundinni:

Markmið 1. tímans                                                  Niðurstöður

Ø  Leiðbeinandinn kynnir sig og þátttakendur sömuleiðis

Ø  Kynnast og skapa jákvæðan anda í hópnum

 

 

 

Ø  Leitað eftir þörfum, væntingum og ótta þátttakenda

 

 

 

 

 

 

Ø  Upplýsingar um væntanlegt námskeið,

(markmið, kennslufyrirkomulag, tæknileg atriði, tímasetningar, hlutverk leiðbeinandans)

 

 

 

Ø  Samningur/námsfyrirkomulag

 

 

Ø  Gert til að allir kynnist betur

 

Ø  Efla hópinn og skapa sérkenni hans

Ø  Ná góðri tenginu við hópinn og skapa traust

 

Ø  Átta sig á stöðu hópsins og tilgangi námskeiðsins þannig að þátttakendur eigi hlutdeild í námskeiðinu

Ø  Ræða ótta og andstreymi sem upp kunna koma til að skapa sátt

Ø  Gefa þátttakendum færi á að tjá tilfinningar sínar

Ø  Ræða það sem þátttakendur vilja fá út úr námskeiðinu og átta sig á þörfum hvers og eins

 

Ø  Að þátttakendur skilji markmiðin og sjái niðurstöðurnar/útkomuna fyrirfram

Ø  Ræða reglur á námskeiðinu, trúnað ofl.

Ø  Semja um það hvernig hópurinn vill vinna á námskeiðinu

 

Ø  Útskýra og skilgreina atriði sem skipta máli í námskipulaginu (s.s. stundaskrá/tímasetningar, hlé, farsímanotkun ofl).

 

  • Nálgun í fullorðinsfræðslu/Andragogy

Leiðbeinandinn þarf að vera hvetjandi, hjálplegur og þægilegur í kennslunni. Forðast þarf í lengstu lög að vera eingöngu með fyrirlestraform og leyfa frekar þátttakendum að eiga hlutdeild í námsferlinu og hafa áhrif á það. Þá þarf leiðbeinandinn að vera vakandi gagnvart líðan þátttakenda og hvernig hægt er að efla þá og koma þannig í veg fyrir kvíðatilfinningu og vanmáttakennd hjá þeim. Farsæl leið er að hópurinn vinni saman að lausnaleiðum á vandmálum sem upp kunna að koma í námsferlinu og þannig haft tækifæri til að styðja hvort annað. Að skiptast á upplýsingum, reynslu og tilfinningum er mikilvægt fyrir hópinn og eflir traust innan hans. Leiðbeinandinn þarf að hafa það hugfast að fullorðnir námsmenn vilja læra til að getað nýtt sér þekkinguna í daglegu lífi og sjái tilgang með því. Einnig er mælt með því að nemendur skrái hjá sér spurningar sem vakna og varpi þeim svo fram eftir þörfum á námskeiðinu. Hér þarf að hafa í huga hvaða þættir það eru sem skipta máli í námi fullorðna. Meginhlutverk leiðbeinandans innan fullorðinsfræðslunnar á að vera skýrt og gagnlegt að og gott er að hafa í huga kenningar Knowles um fullorðinsfræðslu/Andragogyg sem markast af þessum þáttum:

  1. Þörfin fyrir að vita – afhverju er ég að læra þetta og hver er tilgangurinn?
  2. Taka þarf tillit til sjálfstæði einstaklingsins og eignarhaldið þarf að vera hjá þátttakendum
  3. Reynsla þátttakenda skiptir máli og á að tvinnast inn í námið. „Learning by doing“
  4. Vilji til að læra og skýrar línur í námsferlinu
  5. Afstaða þátttakenda skiptir máli og þeirra viðhorf
  6. Áhugahvöt þátttakenda, ánægja, val ofl.

Auk þess er mikilvægt að leiðbeinandinn sé hvetjandi og að hann geri þátttakendum grein fyrir því á markvissan hátt að hver og einn þátttakandi er einstök persóna með sínar þarfir, væntingar og þrár.

  • Félagslegar breytingar

Eitt af meginhlutverkum leiðbeinandans er að koma á jákvæðum og gefandi samskiptum innan hópsins. Hér tala höfundar um menntun sem menningarlegt og félagslegt fyrirbæri sem ætti rætur að rekja til frelsi mannsins og vitna til kennismiðsins Freire í því sambandi. Þess vegna er mikilvægt að spyrja spurninga og þannig örga gildandi viðhorfum til lífsins M.ö.o. þekkingin ein og sér geti hjálpað venjulegu fólki til að breyta heiminum. Að nemendur séu virkir og taki ábyrgð á sínu námi, m.a. með því að spyrja spurninga. Kennara og nemendur eiga að læra saman og þroskast saman í gegnum samtöl og samvinnu. Hérna getur leiðbeinandinn komið með spurningar og skipt hópnum í 4-5 manna hópa. Í þessari vinnu sameinast þátttakendur um að svara spurningunum sameiginlega og finna hvert er lykilatriðið og hvað það er sem skiptir máli. Hér er lögð áhersla á að allir taki þátt og hafi rödd og grunnurinn að námskeiðinu er lagður. Eitt helsta hlutverk leiðbeinendans er að styðja og efla nemendurna á allan mögulegan máta. Því er mikilvægt að hjálpin felist í því að þátttakendur átti sig á styrkleikum sínum ekki síður en veikleikum og hvaða tækifæri viðkomandi hefur til að blómstra.

  1. Hindranir í námi fullorðinna

Hindranir í námi fullorðinna er staðreynd sem blasir við á alþjóða vettvangi. Þetta tengist helst því að sífellt eru gerðar meiri kröfur um sérhæfingu á vinnustöðum, endurmenntun starfsfólks og starfsþjálfun. Með þessu auknu kröfum hefur komið í ljós að margir fullorðnir námsmenn eiga oft við örðugleika að etja í námi ekki síður en börn. Í þessari fræðigrein er horft bæði til ytri- og innri hindrana sem atvinnulausir fullorðnir standa oft frammi fyrir í símenntun sinni. Í því sambandi má nefna að taka þarf tillit til aðstæðna hvers og eins meðan á náminu stendur. Þá hefur mikið að segja hvernig hinn fullorðni horfir á sig sem námsmann og hvað hann getur. Hindranir sem eru áberandi birtast helst í andlegum- félagslegum og menningarlegum skorti. Oft eru þetta einstaklingar sem ekki hafa trú á eigin getu og með lítið sjálfstraust. Þá geta skólastofnanir verið hindrun í sjálfu sér fyrir marga og haft letjandi áhrif á fullorðinn einstakling til að hefja nám. Þetta þarf leiðbeinandinn að hafa á bak við eyrað og taka tillit til þessara þátta. Eins getur fjárhagur verið hindrandi þáttur og sömuleiðis tímaskortur vegna fjölskylduaðstæðna ofl. Á þessu sést að leiðbeindandinn þarf að vera vel vakandi fyrir líðan og aðstæðum sem skjólstæðingar hans geta búið við. Því er nauðsynlegt að átta sig á hvar skóinn kreppir í náminu og eins hvernig bregðast má við því. Af þessum sökum þarf leiðbeinandinn að vera sérstaklega hvetjandi og styðjandi. Framkoma leiðbeinandans getur því skipt sköpum fyrir þátttakendur og haft verulega áhrif á framgang námsins. Þá þarf leiðbeinandinn að gefa góðan gaum að lágu sjálfstrausti nemenda, en það er oft að finna hjá fullorðnum námsmönnum sem stunda símenntun. Hann þarf að hjálpa þátttakendum til að átta sig á styrkleikum sínum ekki síður en veikleikum og skapa aðstæður sem efla einstaklinginn.

Niðurstöður

Helstu niðurstöður greinarinnar er að kennarar og leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu þurfa að vera algjörir samverkamenn þátttakendanna í námsferlinu. Þeir þurfa að vera styðjandi, uppörvandi, leiðbeinandi og vera hjálplegir í námsferlinu. Þá þarf að efla áhugahvöt og tryggja námslegar framfarir þátttakenda. Þessar niðurstöður má nýta í fullorðinsfræðslu almennt og eru góður leiðarvísir um það sem skiptir máli þegar skipuleggja á nám fyrir fullorðna. Að mínu mati er fræðilega umfjöllunin áreiðanleg og trúverðug og hefur mikið að segja fyrir fullorðinsfræðslu almennt. Þá ná höfundar að rökstyðja vel það sem þeir fjalla um í greininni og eru sannfærandi í málflutningi sínum.

Þessi fræðigrein tengist nokkrum þemum námskeiðins. Megin viðfangsefni hennar er um það hvað þarf að hafa í huga þegar um fullorðna námsmenn er að ræða og hvernig upphafið skiptir miklu þegar skipuleggja og framkvæma á fræðslu fyrir fullorðna. Þá kemur hún inná það hvernig fólk lærir og hvaða þættir geta haft áhrif á það. Margt er það sem hafa þarf í huga þegar um nám fullorðinna er að ræða og taka þarf tillit til ýmissa þátta sem geta haft áhrif að framgang námsins. Þessa fræðgrein má sannarlega nýta í fullorðinsfræðslu almennt og er góður leiðarvísir um það sem skiptir máli þegar skipuleggja á nám fyrir fullorðna. Það sem mér fannst heillandi við þessa grein er að hún tekur nákvæmlega á því sem skiptir máli í námsferlinu og þarna eru fræðimenn og kennara sem tala greinilega af reynslu og vitna jafnframt í fræðin sjálf um fullorðinsfræðslu máli sínu til stuðnings.

 

Heimildir

 

Giannoukos, G., Besas, G., Galiropoulos, C og Hioctour,V. (2015). The Andargogy, the

Social Change  and the Transformative Learning Educational Approaches in Adult Education. Journal of Education and Practice, 6 (10),46-50.

 

 

 

 

 

One thought on “Ýmis hagnýt ráð varðandi nám fullorðinna”

  1. Sæl og takk fyrir umfjöllunina.

    Það er þetta með hindranir í námi fullorðinna. Nú er það þannig að nútímalíf byggist að miklu leyti á því að bregðast við breytingum, þá ekki síst hvað starfsvettvanginn varðar. Þær geta hæglega valdið hindrunum. Af hverju? Jú, þekkingarsamfélagið og hnattvæðingin hafa leyst úr læðingi ört vaxandi breytingarferli á öllum okkar högum. Það sem telst sannleikur í dag er jafnvel ekki lengur sannleikur á morgun. Og störf sem voru til í dag verða lögð niður næsta dag. Það eina sem er öruggt í þessum heimi eru breytingar! Og við þurfum hæfni/færni til að takast á við og stjórna breytingum í heimi efnahagslegrar rökvísi (hins blinda markaðskapítalisma) og húmanískrar afstöðu til sjálfræðis/sjálfstæðis okkar sem persónur.
    Breytingar kalla á nám, endalaust nám, hvort sem það er formlegt, óformlegt eða jafnvel formlaust. Við lifum á þeim tímum þar sem hugtakið ,,ævinám“ (e. lifelong-learning) er altumlykjandi. Við berum sjálf ábyrgð á starfsþróun okkar um leið og við sinnum sívaxandi kröfum í einkalífi, en það kallar á allskonar þörf fyrir nám (um leið og við þökkum þúsundfalt fyrir uppgötvun internetsins). Menntakerfið getur þá ekki bara þróast í takt við lögmál vinnumarkaðarins.
    En hvað um það! Það er þetta með hindranirnar. Ytri og innri hindranir eins og rætt er um í grein Ginnoukos og félaga. Mig langar að koma inn á kenningu McCluskys í þessu sambandi, kenning sem kallast ,,Theory of Margin“. Kenning McClusky, sem hann kynnti til sögunnar á sjöunda áratugnum, er ætlað að varpa ljósi á aðstæður nemenda og svigrúm þeirra til að stunda nám við þær aðstæður sem hann býr við hverju sinni. Hún byggir á þremur meginhugtökum (Merriam, Caffarella, Baumgartner, 2007): Lífsbyrðar (e. load of life), lífskraftur (e. power of life) og lífssvigrúmið (e. margin in life). Lífsbyrðarnar taka sinn toll af tíma einstaklingsins en lífskraftur stendur fyrir það hve vel einstaklingurinn tekst á við byrðarnar. Lífssvigrúmið táknar umfang byrða í hlutfalli við lífskraft. Meiri kraftur þýðir meira svigrúm til þátttöku í námi. Lífsbyrðar eru tvískiptar, annars vegar ytri byrðar sem snúa að samfélagslegum þáttum (fjölskyldu, atvinnu ofl.) og hins vegar innri byrðar sálarlífsins (óskir, væntingar til framtíðar ofl.). Þannig getur nemandi aukið svigrúm sitt með auknum krafti vegna stuðnings frá fjölskyldu eða sterkri stöðu fjárhagslega o.s.frv., þ.e. kraftur sem dregur úr ,,þunga“ lífsbyrðanna.
    Óhætt er að segja að það sé ekki öfundsvert hlutverk fyrir leiðbeinendur í fullorðinsfræðslunni að taka tillit til þessara þátta. Því hvar liggja mörkin? Hversu lengi eða mikið er hægt að taka tillit til lífsbyrða nemenda? Er það yfirhöfuð hægt af einhverju viti? Að minnsta kosti getur leiðbeinandinn ekki bara haft þetta á bak við eyrað því meira að segja kennsla hans sjálfs og skipulag námsferlis getur aukið eða dregið úr lífsbyrðunum (sjá athyglisverðar pælingar við kenningu McCluskys á http://roghiemstra.com/margin.html ).
    Hinn danski fræðimaður á sviði fullorðinsfræðslu, Knud Illeris, myndi líklega tefla hér fram hugtaki sínu ,,andstöðuhæfni“ (d. modstandsevne, sjá bók Illeris ,,Voksenuddannelse og voksenlæring“, 2004). Það harmonerar ágætlega við kenningu McClusky og grein Ginnoukos og félaga því hér talar Illeris fyrir sköpun svigrúms fyrir ígrundun hins fullorðna námsmanns í sínu eigin námi (formlegs náms). Það eykur persónulegan þroska og færni til að takast á við vandamál daglegs lífs. Lykillinn að slíku svigrúmi felst í öðru hugtaki Illeris, ,,þátttökustýringu“ (d. deltagerstyring). Í sinni einföldustu mynd snýst þátttökustýring um að nemendur, með stuðningi leiðbeinanda, fái mikið um það að segja hvernig þeir stýra sínu námsferli sjálfir; að þeir séu ekki í hefðbundnu hlutverki móttakandans. Það felur aftur í sér að leiðbeinandinn getur ekki lagt fram fullbúna (vöru) kennsluáætlun í upphafi námskeiðs.
    Að síðustu velti ég fyrir mér hindrunum í fullorðinsfræðslu í tengslum við forystuhugtakið. Alltof oft heyrist af stjórnendum vinnustaða sem stilla undirmönnum sínum upp við vegg eða deila við þá um þátttöku í breytingum á vinnustað. Taki undirmennirnir ekki skilyrðislaust þátt þá geti þeir fundið sér eitthvað annað starf! Er þetta svona einfalt? Getum við ekki snúið þessu við og sagt sem svo að það sé eitthvað að forystunni, því velheppnaðar breytingar í atvinnulífinu felast í því að hafa fólkið með sér? Og það að hafa fólkið með sér snýst um að þekkja lögmál breytinga, hvaða áhrif það hefur á fólk og hvernig hægt sé að virkja færni þeirra við aðstæður sem krefjast breytinga. Í hverju liggur hindrunin? Í mörgum tilvikum snýst það ekki bara um helbera andstöðu eða leti starfsmannsins heldur skort á leiðbeiningum og skýrri sýn eða stefnu í skipulagsheildinni.

    Þorvaldur.

Skildu eftir svar