Að verða betri í dag en í gær

Ég var að skoða efni á netinu sem tengist ýmsum spurnaraðferðum en rakst þá á þennan frábæra fyrirlestur sem mig langar að deila með ykkur. Tasha Eurich þjálfar leiðtoga í því að ná betri árangri í sínu starfi. Hér nefnir hún þrjú lykilatriði til árangurs:

  1. Þekktu sjáfa/n þig: Vertu einlæg/ur við sjálf/n þig og segðu þér sannleikann. Þú þarft að taka ábyrgðina á því að læra sannindin um sjáfa/n þig. Skoðaðu hvar þú stendur. Til að ná enn betri árangri í því sem þú ert að gera fáðu manneskju sem þú treystir til að segja þér eftirfarandi: a) Hvað er ég að gera sem leiðir til árangurs? b) Hvað stendur í veginum fyrir því að ég nái árangri? c) Hvernig get ég aðlagað nálgun mína til þess að ná betri árangri?
  2. Veldu eitt atriði í þínu fari sem þú getur breytt – þér til batnaðar. Breyttu EINU til að byrja með.
  3. Æfðu þig daglega þangað til þjálfunin verður að vana. Þú munt sjá heilmikinn árangur eftir nokkrar vikur!

Tókuð því eftir því að Tasha byrjaði á reynslusögu þegar hún hóf fyrirlesturinn sinn? Við höfum lært það hér að góðir leiðtogar nota oft söguformið til að vekja áhuga þátttakenda t.d. á námskeiði.  Í lokin fær hún okkur til að velta vöngum yfir því hvernig við getum bætt okkur. Það værir skemmtilegt í fyrramálið að segja við sjálfa/n sig: „Í dag er dagurinn sem ég ætla að verða betri í_____________“. Þannig getum við daglega gefið okkur ný og ný tækifæri til að verða betri manneskjur og/eða betri í því sem við erum að gera.

Góðar kveðjur, Ingibjörg Ferdinandsdóttir

4 thoughts on “Að verða betri í dag en í gær”

  1. Takk fyrir þetta Ingibjörg, það var áhugavert að hlusta á þennan fyrirlestur og alltaf gott að fá hagnýtar aðferðir til að vinna með. Ég held að það sé hollt fyrir leiðtoga (eru ekki allir leiðtogar á einhvern hátt? :)) að þekkja sjálfa sig en þegar hún nefndi dæmið um Steve hugsaði ég með mér að það er ekki síður mikilvægt fyrir stjórnendur að þekkja fólkið sitt. Ég held að stjórnandi sem er vel meðvitaður um eigin styrkleika og veikleika og velur fólk í kringum sig sem vegur upp á móti honum (þ.e. eru ekki með sömu styrkleika) nái betri árangri en ella. Á sama tíma er hann heiðarlegur gagnvart sjálfum sér og hópnum sínum að hann veit ekki endilega allt en hefur þann hæfileika að draga fram styrkleika fólks sem þannig nær sameiginlegum árangri.
    Ég er reglulega að minna dóttur mína á að æfingin skapar meistarann og til að verða betri í einhverju þarf maður að æfa sig – held að þessi fyrirlestur hafi verið ágætis áminning um að ég ætti að segja það oftar við sjálfa mig 🙂
    Kveðja,
    Hildur

  2. Ted.com, Tasha Eurich
    Sæl Ingibjörg og takk fyrir að deila þessu með okkur.

    Tasha vinnur greinilega á sviði markþjálfunar og hefur bakgrunn í sálfræði. Vert er að velta fyrir sér hvað við tökum með okkur úr fyrirlestri hennar í tengslum við það að skipuleggja námsferli í fullorðinsfræðslu.

    Fyrir það fyrsta er það þörfin (e. need) til að læra eitthvað – ,,that thing you are dying to master“ og að verða ,,totally awsome in what you do“. Annað atriðið, og tengist hugtakinu ævinám (e. life long learning) er að enginn fjárfestir í þér (þ.e. þinni hæfni) nema þú sjálf/ur – ,,no one invest in you but you“. Í ljósi þátttöku á atvinnumarkaði þá berum við sjálf ábyrgð á okkar eigin starfsþróun og megum enn fremur búast við að gerðar séu til okkar kröfur um að þeirri þróun sé viðhaldið. Þetta er mikilvægt.

    Það er þó skondið í fyrirlestri Tasha að sagan um Steve bendir til mótsagnarinnar um okkur sjálf. Oft vitum við ekki að við þurfum að læra eitthvað, eða réttara sagt, að breyta einhverju. Í tilviki Steve þurfti hans eigin yfirmann. Hann kallaði Tasha til svo Steve tæki höfuð upp úr sandinum, enda búið að vera niðurgrafið í 20 ár! Vert er að hrósa þeim yfirmanni því allt eins er líklegt að Steve hefði engu breytt hjá sér önnur 20 ár.

    En af hverju fattaði Steve þetta ekki sjálfur? Ég meina, hann virtst ekkert gruna í 20 ár! Eins og Tasha segir þá lifum við því miður oft í sjálfsblekkingu um okkar eigið ágæti eða vanmátt. Viljinn til að breyta er kannski þrátt fyrir allt svo sjálfsagður. Í bókinni Switch: How to Change Things when Change is Hard? (Heath og Heath, 2010) segir að við festumst fremur auðveldlega í viðjum vanans (e. habit). Steve var ekki vandamálið. Það, án þess að það kæmi beint fram í fyrirlestri Tasha, var hins vegar orðið vandamál hjá undirmönnum hans og enginn virtist þora að segja neitt. Tasha fékk það ,,skemmtilega“ hlutverk, og hún gerði það með nokkuð hressilegum hætti. Hún höfðaði til tilfinninga (e. feelings) Steve, sbr. Heath og Heath, með því að segja beint við hann að undirmenn hans fyndust hann ömurlegur. Fyrir Steve hefur það verið álíka og að fá högg í magann. En það þurfti til fyrir hann til að ,,rífa höfuðið upp úr sandinum“.

    Á þessum tímapunkti var ég eiginlega búinn að afskrifa Steve. Var hann ekki bara þessi ,,stjórnunarfrík“ sem því miður allt of mikið er af í stofnanaheildum vítt og breitt? Nei, svo virtist nefnilega ekki vera. Steve var tilbúinn til að breyta. Hann var tilbúinn til að læra (nema að honum hafi þá verið hótuð uppsögn). Tasha skipulagði námsferli fyrir hann sem byggði á þessum þremur atriðum sem hún fjallaði um í fyrirlestri sínum: 1. þekktu sjálfa/n þig, 2. breyttu einum hlut í einu, og 3. æfðu þig daglega. Þannig gat Steve myndað nýtt vanamunstur sem Tasha kallaði hinn ,,nýja Steve“.

    Steve var heppinn. Hann fékk stuðning til breytingavinnunnar og lifði vonandi sæll í sínu. En hvað með þessa blessuðu undirmenn Steve? Var einhver þeirra í forystu eða þörf fyrir að breyta einhverju í kringum Steve? Var einhver þeirra ,,uppljóstrarinn“ (e. whistleblower) og kvartaði til yfirmanns Steve? Auðvitað kom það ekki fram hjá Tasha en það sýnir mikilvægi forystu á öllum sviðum. Hún er ekki endilega bara fyrir hendi hjá þeim sem stjórna eða leiða skipulagsheildir.

    Kær kveðja,
    Þorvaldur.

  3. Sæl öll og takk fyrir ykkar innlegg í umræðuna.

    Það er alveg satt hjá þér Hildur að við þurfum örugglega öll að minna okkur reglulega á að æfingin skapar meistarann. Flott hjá þér að minna dóttur þína á þetta og það ættu allir foreldrar að gera.
    Já það er merkilegt Þorvaldur að Steve skyldi ekki átta sig á því sjálfur að það væri kominn tími á breytta starfshætti. Sjálfsagt er það algengara en við höldum hvað fólk festist í viðjum vanans og sjálfsblekkingin er þá ekki langt undan. Takk fyrir að benda okkur á bókina Switch: How to Change Things when Change is Hard? Góð ábending.
    Ég hef heilmikið verið að velta því fyrir mér undanfarnar vikur hvað maður hefur nú ótrúlega gott af því að skoða kennsluhættina sína og velta því fyrir sér hvers vegna maður velur eitt fram yfir annað. Það er merkilegt hvað vaninn virðist vilja toga í mann og kannski einmitt vegna þess að hann veitir einhvers konar öryggistilfinningu. Þú kannt eitthvað vel, ert góð/ur í þessu, og þá fínt að vera þar. En það gerist nákvæmlega ekkert nýtt innan þægindarammans! Eða hvað? Sjálf hef ég svo oft rætt það við mína nemendur (sem eru fullorðnir innflytjendur) að þegar við förum út úr þessu boxi þá verðum við svo ánægð með okkur og finnum að við þroskumst. Já, við þurfum svolítið að þora.
    Við höfum gott af því þessi misserin að prófa okkur áfram í nýrri markmiðasetningu, gera tilraunir meðö nýjar kennsluaðferðir og skoða ólíkar nálganir í leiðtogahlutverkum okkar- og hvernig við getum bætt okkur á mismunandi hátt.

    Að lokum við ég taka að ofan fyrir Steve – hann á heilmikið hrós skilið fyrir að hafa farið að markþjálfunarráðum Töshu (sem eru góð og gagnleg) og hann horfðist í augu við eigin sjálfsblekkingu.

Skildu eftir svar